02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

91. mál, hvalveiðibann

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur það mál, sem hér er á dagskrá, verið til umr. í ríkisstj. á fleiri en einum fundi hennar og þar hef ég ásamt fleiri ráðh. Alþb. túlkað okkar viðhorf í sambandi við þetta mál. Á fundi ríkisstj. í gær greindum við frá viðhorfum og afstöðu þingflokks Alþb. í þessu máli, en þingflokkurinn hafði þá tekið þá afstöðu sem slíkur að vera gegn því að mótmælt yrði samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. — Ég tel nauðsynlegt að fram komi hér, að á fundi ríkisstj. í gær var engin ályktun samþykkt um málið, eins og skilja má af misvísandi fréttum sem fluttar hafa verið af þeim fundi. Það var hins vegar ljóst í lok þess fundar, í lok umræðna um málið, að það væri áframhaldandi í höndum sjútvrh., en afstaða hans til málsins lá skýrt fyrir á þessum fundi og hafði raunar fram komið áður.

Við túlkuðum það viðhorf, Alþb.-menn, að eðlilegt væri og mjög knýjandi, að áður en afstaða íslenskra stjórnvalda til þessa máls yrði tekin og kunngerð fengi málið meðferð hér á Alþingi, þannig að vilji Alþingis í þessu mikilsverða og viðkvæma máli lægi fyrir. Ég lýsi ánægju minni með að svo virðist sem það ætli að takast að fá fram afstöðu hv. Alþingis til þessa máls áður en nauðsyn ber til tímans vegna að tilkynna um afstöðu íslenskra stjórnvalda.

Ég greindi frá því á fundi ríkisstj. í gær, að ég mundi fylgja minni afstöðu eftir með bókun í ríkisstj. Ég tel rétt að efni hennar komi hér fram, með leyfi hæstv. forseta, en hún er svohljóðandi:

„Ég er andvígur þeirri afstöðu sjútvrh. að mótmæla ákvörðun 34. ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins um hvalveiðar frá árunum 1985–1986 að telja. Afstöðu mína byggi ég einkum á eftirfarandi mati:

1. Þótt ekki liggi fyrir gögn sem bendi til að hvalastofnar þeir, sem nú eru veiddir hér við land, séu í hættu vegna ofveiði, ríkir óvissa um ástand þeirra vegna takmarkaðra og ófullnægjandi rannsókna.

2. Mótmæli af Íslands hálfu veikja stöðu þeirra aðila á alþjóðavettvangi sem berjast gegn ofveiði hvalastofna á öðrum hafsvæðum.

3. Slík mótmæli Íslendinga munu veikja stöðu okkar til að ná fram skynsamlegri stjórnun á nýtingu fiskistofna, sem flakka milli lögsögusvæða einstakra ríkja á Norður-Atlantshafi, svo sem karfa, loðnu og kolmunna.

4. Með mótmælum okkar er stefnt í hættu miklu stærri hagsmunum en um er að tefla þótt hætt verði um tíma hvalveiðum Íslendinga, og á það við hvort sem litið er til söluandvirðis af afurðum á erlendum mörkuðum eða til atvinnu hér innanlands.

5. Íslendingar eiga kost á að meta afstöðu sína til hvalveiða og Alþjóðahvalveiðiráðsins á næstu árum, m. a. í ljósi þeirrar þróunar, rannsókna og umræðu sem verður á alþjóðavettvangi fram til þess tíma að samþykkt hvalveiðiráðsins gengur í gildi.“

Þetta var sú bókun sem ég hef lagt fram í ríkisstj. til skýringar á afstöðu okkar Alþb.-manna til þessa máls. Ég ætla, herra forseti, ekki að orðlengja þetta mál, sem mjög margt mætti um segja. Mér er ljóst að viðhorf hafa verið og eru allmisjöfn hér innanlands til þessa máls, eins og víða annars staðar. En ég fagna því mjög að fram er komið það meirihlutaálit frá hv. utanrmn., sem hér liggur fyrir, um að ekki verði mótmælt samþykkt 34. fundar Alþjóðahvalveiðiráðsins, og ég vænti þess að þetta álit meiri hl. utanrmn. endurspegli vilja meiri hl. hér á hv. Alþingi.