02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

91. mál, hvalveiðibann

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir síðustu orð hv. 5. landsk. þm. þess efnis, að við eigum að vera friðunarþjóð í þeim skilningi að við eigum að nýta auðlindir hafsins í kringum okkur og ganga hvergi út fyrir þau mörk sem við teljum rétt í því sambandi. Það er athyglisvert að í þeim mikla bunka af alls konar upplýsingum sem safnast hefur upp hjá okkur alþm. varðandi hvalveiðibannið, er m. a. sérstaklega vikið að þessu af Sambandi ísl. náttúruverndarfélaga, en á aðalfundi þess hinn 2. júní s. l. var samþykkt ályktun um hvalveiðar. Ég skal reyna að lesa alla ályktunina til þess að ekki fari á milli mála hver var vilji Sambands ísl. náttúruverndarfélaga hinn 2. júní s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur SÍN haldinn í Reykjavík 2. júní 1982 ítrekar við sjútvrh. ályktun sambandsins frá 1980, þar sem segir m. a. að dregið skuli úr öllum hvalveiðum hér við land og að ríkisstj. geri Alþingi árlega grein fyrir störfum íslensku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Jafnframt lýsir fundurinn áhyggjum sínum yfir framkomnum hugmyndum um úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og leggur til að farið verði í reynd (sem er undirstrikað) eftir tillögum vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins. Aðalfundurinn hvetur til aukinna hlutlausra rannsókna á villtum spendýrum við og á Íslandi, svo sem hvölum, selum, hreindýrum, refum og minkum.“

Svo mörg voru þau orð og býsna athyglisverð ef við höfum það í huga, að við stórhvalaveiðar hér á landi hefur verið farið í reynd eftir tillögum vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins. Mér finnst ástæða til að menn hafi þetta í huga, þegar við ræðum um nýtingu hvalastofnsins nú, og ég tel að draga verði þá ályktun af þessari samþykkt, að Samband ísl. náttúruverndarfélaga vilji í reynd að þannig verði haldið á þessu hvalamáli að við höldum rétti okkar framvegis til þess að nýta auðlindir hafsins, þar á meðal hvalastofnana hér við land.

Við skulum aðeins íhuga hvað við erum að gera þegar við leggjum til að mótmæla hvalveiðibanninu. Nú er það í fyrsta lagi svo, að sá er skýlaus réttur okkar samkv. reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins, sá réttur er skýlaus. Mótmæli við þessu banni fela einungis í sér að við viljum íhuga málið nánar, athuga okkar gang og sjá hvert framhaldið verður. Því var m. a. lýst yfir af frsm. meiri hl. utanrmn. hér í kvöld, að Alþjóðahvalveiðiráðið væri býsna skrýtin stofnun. Og hvers vegna skyldi honum hafa fundist það? Vegna þess að ályktanir þess eru ekki í samræmi við þær niðurstöður sem vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins kemst að. Það er ekki hægt að reiða sig á hvaða duttlungar ráða þar ferðinni. Og ef það er skoðað hver sé saga þessa ráðs og íhugað hvaða þjóðir réðu úrslitum um að hvalveiðibanni yrði komið á, sjáum við að forsjá þeirra þjóða, a. m. k. sumra hverra vildum við ekki hlíta. Ég vil taka ríki eins og Monaco sem dæmi. Kannske einhverjum detti í hug að við eigum að starfrækja spilavíti í hvalstöðinni eftir að hvalveiðar leggjast hér niður?

Bandaríkjamenn hafa ekki undirritað hafréttarsáttmálann. Í því felast mótmæli sem ég veit að skilningur er á á Bandaríkjaþingi. Ég efast ekki um að þeir muni skilja afstöðu okkar með hliðsjón af því, þegar við segjum að við viljum mótmæla nú samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins sem beinlínis brýtur í bága við stofnskrá þess ráðs sjálfs og er þar að auki í andstöðu við það yfirlýsta markmið hafréttarsáttmálans að hverri þjóð sé lögð sú skylda á herðar að nýta auðlindir hafsins í kringum sig.

Ég skildi það satt að segja ekki í ræðu hv. 8. landsk. þm. hér áðan hvernig hún gat komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri að knýja okkur til að mótmæla. Ég skildi ekki heldur þegar hæstv. iðnrh. komst að þeirri niðurstöðu, að við mundum fá aukið svigrúm ef við mótmæltum ekki. Í reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins er þvert á móti gert ráð fyrir því að mótmælin gefi mönnum svigrúm. Til þess eru þau. Þetta er svona álíka umsnúningur á staðreyndum eins og þegar hann taldi það vænlegast til atvinnuuppbyggingar hér á landi að loka álverinu við Straumsvík. Þaðan af síður skildi ég þá niðurstöðu hv. 8. þm. Reykv. að meginkjarninn sé ekki sá að fólk erlendis hætti að kaupa íslenskan fisk. Við sem höfum fylgst með andrúmsloftinu hér á hinu háa Alþingi á undanförnum dögum og viljum reyna að skynja það andrúmsloft hlutlaust erum þvert á móti sammála um að það sem mestu veldur um að þm. veigra sér við að andmæla hvalveiðibanninu er ótti við að það muni skaða mikilvægari hagsmuni okkar. Að réttnefndir atvinnumótmælendur, sem studdir eru af fokríku fólki, muni með auglýsingabrellum, útistöðum og hvimleiðum athöfnum geta villt mönnum sýn með þeim afleiðingum að það skaði okkar viðskiptahagsmuni.

Og því miður verður þess of oft vart í málflutningi íslenskra manna, að þeir svona hálfvegis kætast eða a. m. k. snúast ekki öndverðir við því þegar þvílíkir hópar skaða íslenska hagsmuni. Ég er ekki í vafa um það, að ef enginn slíkur þrýstingur væri og ef hver og einn þm. mundi taka afstöðu til hvalveiðibanns nú eingöngu út frá vísindalegum niðurstöðum, hvað þeir telji að hvalastofninn þoli, þá mundi mikill minni hl. vera hér fyrir því að taka ákvörðun um stöðvun hvalveiða.

Auðvitað erum við, svo lítil þjóð sem við erum, svo háðir sem við erum einhæfum atvinnuvegum, viðkvæmir fyrir hvers konar truflunum á okkar mörkuðum. Við þurfum ekki annað en að líta á þær gífurlegu afleiðingar sem lokun skreiðarmarkaðarins í Nígeríu hefur á okkar efnahagslíf. Í ljósi þess er að sjálfsögðu skiljanlegt að menn sem bera ábyrgð á markaðsmálum okkar Íslendinga í Bandaríkjunum séu kvíðnir og vilji hafa borð fyrir báru. Ég skil vel þann hugsunarhátt að betra sé að fórna litlu til þess að komast hjá því að skaðast mikið. En ég met þetta öðruvísi en þessir menn. Ein skýringin á því er sú, að nú í desembermánuði rann út samningur sem Japanir höfðu gert um veiðar í bandarískri lögsögu. Þessi samningur rann út eftir að Japanir höfðu mótmælt hvalveiðibanninu. Eigi að síður var það samþykkt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, að nýr samningur til 5 ára yrði gerður við þessa þjóð, og bandarísk stjórnvöld minnkuðu ekki aflakvóta japanskra fiskiskipa í bandarískri lögsögu. Með hliðsjón af þessu tel ég að óvinur okkar í þessu máli sé ekki í raun bandarísk stjórnvöld. Óvinurinn sem við erum að berjast við — og það er þess vegna sem menn eru svona hikandi — eru þessir, sem ég kalla atvinnumótmælendur, menn sem svífast einskis til að spilla árangri annarra ef þeir telja að með því fái þeir markmiði sínu náð. Menn sem hugsa: Tilgangurinn helgar meðalið. Ríkir menn sem láta sér detta í hug að unnt sé að stöðva hvalveiðar á Íslandi með því einfaldlega að bjóðast til að kaupa hvalveiðistöðina.

Við skulum velta því fyrir okkur hvert framhaldið verður ef við heykjumst á því að mótmæla nú. Við eigum eftir að standa frammi fyrir fleiri hótunum. Við vitum t. d. að það er mikið áhyggjuefni fiskverkenda hversu selum hefur fjölgað hér við landið og hringormur aukist í fiski. Þessi fjölgun hringormsins kostar okkur æ fleiri vinnustundir og svo er komið nú, að sumir saltfiskmarkaðir krefjast þess einnig að hringormur sé skorinn burt. Af þessum sökum höfum við lagt á það áherslu að unnt sé að takmarka fjölda sela við það sem við teljum þolandi. Enn hefur okkur tekist að halda fram þessari stefnu óhindrað. Stefán Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. e., sagði hér í gær eða fyrradag að hann hefði snúist í hvalamálum vegna fallegs bross frá Brigitte Bardot. Ég veit ekki hvort hún á eftir að brosa til hans í selamálum einnig, en hitt veit ég, að ef bros hennar hefur þessi áhrif á þm., þá fer það í mínum huga að líkjast um of hlátri Víga-Glúms og þeirra feðga, því að það minnti ævinlega á vígaferli ef þeir hlógu glaðlega. En fólk af þessu tagi er að vísu ekki það fólk sem ég legg mest upp úr hvað segir.

Við skulum íhuga að þessir mótmælendur, sem menn óttast nú svo mjög, sem kenna sig við frið, kalla sig friðarsinna, leita uppi veikasta blettinn á okkur, sem eru fiskmarkaðir okkar erlendis. Hvað er meir í andstöðu við frið og innihald þess orðs en framkoma af þessu tagi, hugsunarháttur af þessu tagi og aðgerðir svipaðar þeim sem menn óttast svo mjög? Þeir vita að Bandaríkjamarkaður er Akkilesarhæll okkar og þess vegna er þrýst þar á. Fróðlegt væri að sjá hvort t. d. þau íslensku samtök, sem mest bera fyrir brjósti friðun hvala, hafa uppburði í sér til að láta skoðanabræður sína í Bandaríkjunum vita að þeir kunna þeim litlar þakkir fyrir, ef þeir með þessum hætti skaða íslenska hagsmuni.

Fjölmiðlar hafa gaman af málum eins og þessu. Á hverja hlusta þeir? Auðvitað þá sem hæst tala. Það er ekki verið að spyrja hinn venjulega mann, hinn þögla meiri hluta. Það þjóðfélag, sem við erum að skapa núna og búa til, er þjóðfélag hávaðans, ringulreiðarinnar, auglýsingaskrumsins og peningamoksturs þeirra sem of mikið hafa af þeim. Af þessu hlýst sjaldnast gott. Menn, sem uppi hafa slíka iðju, kenna sig gjarnan við eitthvað sem þeim sýnist vera rautt og fallegt, til þess að þeir geti státað af því hversu góðir þeir séu, hversu huggunarríkir og hversu mikla ást þeir hafa á mannkyninu.

Eins og é gat um hér í fyrri ræðu um þetta mál, eru hvalveiðar Íslendinga ekki stundaðar til þess að framleiða lýsi eða mjöl. Hvalveiðar Íslendinga standa og falla með því að okkur takist að koma sem mestu af afurðum okkar á markað til manneldis. Í Japan er mikill fæðuskortur eins og hjá mörgum þjóðum mannmörgum. Þangað seljum við ógrynni af kjöti, 4–5 þúsund tonn, og hver einasta tætla fer til manneldis. Það lélegasta fer í fangelsin, við köllum það fangakjöt hér uppi á Íslandi, en allt fer þetta til manneldis. Við erum þess vegna með því að stöðva nýtingu hvalastofnanna hér að draga úr fæðuöflun í heiminum þegar í stað með þeim hætti. En hitt er líka íhugunarefni, hver áhrif það hefur á fiskveiðar hér við land til langs tíma, þegar hvölum og selum heldur áfram að fjölga og sjávarfuglum svo sem verið hefur. Það er kannske of fjarlægt að tala um það nú. Alveg hreint á sama hátt og það er fjarlægt þeim mönnum sem ekki eiga afkomu sína undir hvalveiðum að sú starfsemi verði lögð niður.

Það er hægt að tala um það í þjóðfélagi eins og við höfum lifað í fram undir þetta, því að framboð á atvinnu hefur verið mikið, hæfir menn hafa átt auðvelt með að fá nýtt starf við sitt hæfi, þá er kannske auðveldara en nú að tala um að það muni ekki svo mikið um eitt af traustustu fyrirtækjum landsins. En ég spyr eins og nú er komið: Hvaða tryggingu hafa þeir menn sem þar hafa unnið vel svo áratugum skiptir fyrir að fá fullnægjandi vinnu í staðinn? Hvar er efnahagslegt öryggi þessara fjölskyldna? Allt of margir þm. reyna að bægja frá sér þessari hugsun með því að halda því fram, að það sé frestur til ársins 1986. En hver segir að við höfum þann frest? Það liggur fyrir að Alþjóðahvalveiðiráðið fer ekkert eftir vísindalegum niðurstöðum. Við höfum enga tryggingu fyrir því að sá fjöldi langreyða og sandreyða, sem hér megi veiða á næsta ári samkv. samþykktum hvalveiðiráðsins, sé í neinu samræmi við nýtanleg mörk stofnsins, gætu þess vegna orðið 50 langreyðar í staðinn fyrir 185. Það fer eftir dyntum þeirra sem þar eru. Og hvað ætlum við þá að segja? Ætlum við þá að mótmæla þeirri ákvörðun sem er í beinu ósamræmi við stofnskrá þessa ráðs? Vilja menn gefa þá yfirlýsingu nú? Eða ættum við þá að segja að við megum ekki mótmæla af því að við erum svo smáir? Ég held að ef menn vilja líta á þetta mál í fullri sanngirni og af einurð, þá eigi þeir að hugsa um málið frá því sjónarmiði að það að láta undir höfuð leggjast að mótmæla nú er það sama og að eiga í fyrsta lagi undir duttlungum undarlegs alþjóðasambands hvert framhaldið verði á næsta ári. Í öðru lagi þýðir það að meðan þessi mál eru í höndum þess verður ekki .um frekari hvalveiðar að ræða hér á landi.

Ég get vel tekið undir þau ummæli hv. 5. landsk. þm., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að á þessari stundu sé erfitt að gera sér grein fyrir því og kannske ekki hægt, hversu lengi fallist verði á veiðar hvala eða sela yfirleitt í heiminum, af þeim ástæðum sem við höfum báðir rætt. Ég vil hins vegar halda því til streitu, meðan okkur er stætt á því, að við ákveðum okkar umþóttunartíma sjálfir. Við drögum úr hvalveiðum í samræmi við niðurstöður íslenskra vísindamanna, sem hafa getið sér mikla virðingu erlendis, mikið mark er tekið á og hafa reynst sanngjarnir í allri umfjöllun sinni um þessi mál.

Það er talað um það hér í þeim gögnum sem fylgja, að vísindalegar rannsóknir hér á landi hafi hafist 1967. Ekki skal ég rengja það ártal, en hitt veit ég, að miklu fyrr komu vísindamenn í hvalveiðistöðina. Þeim var vel tekið og haldið þar uppi að kostnaðarlausu til þess að þeir gætu stundað sínar athuganir. Og það er eftirtektarvert, þegar maður les yfir þessi gögn; að fram kemur hjá vísindamönnum að drýgsta skerfinn til hvalarannsókna hér á landi hefur Hvalur hf. lagt fram, drýgsta skerfinn af þeirri einföldu ástæðu að stjórnendur þess fyrirtækis hafa talið það óhjákvæmilegt, ekki aðeins efnahagslega heldur kannske fyrst og fremst siðferðilega, að þannig sé á þessum málum haldið að hvalastofninn geti viðgengist áfram hér við land. Það er gífurlega mikilvægt að hafa þetta í huga, vegna þess að það sýnir okkur að stjórnendur þessa fyrirtækis hafa frá öndverðu haft þann þátt í huga, að hægt sé að fylgjast með vexti og viðgangi hvalastofnsins.

Það er farið sérstökum viðurkenningarorðum um það, að í dagbókum hvalskipanna séu frá upphafi upplýsingar um lengd veiðitíma, dagsetningar og hvað eina, svo að hægt er að draga upp mjög raunhæfa mynd af ástandinu. Nú skulum við hafa það í huga, að fyrir 20 árum voru stærri og aflmeiri hvalbátar keyptir til landsins, svo að fullkominn samanburður við fyrri ár dugir ekki, þá voru notuð kraftminni skip. En síðustu 20 árin, sem sambærileg sókn er á hvalamiðin, hefur veiðin verið svipuð frá ári til árs. Á hinn bóginn hafa veiðislóðir togara og annað haft áhrif á sumt. En í stórum dráttum hefur veiðin verið svipuð og mat vísindamanna allra er það, að stofninn þoli veiði.

Sú líking hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, 8. landsk. þm., að líkja hvalveiðum hér á landi við þá sem ganga hiklaust á frumskóga náttúrunnar, er þess vegna afskaplega óviðkunnanleg, röng og gegn betri vitund, ef hún hefur lesið þau gögn sem hér hafa verið lögð fram. Ég vil líka átelja mjög ýmislegt sem fram kom í máli hv. 4. þm. Reykv., Vilmundar Gylfasonar, þá miklu vantrú sem þar kom fram á íslenskum vísindamönnum í raun, en um leið óska honum til hamingju með það að hann skuli nú loksins vera orðinn að stjórnmálaflokki, því að ég heyrði ekki betur en hann hefði hér áðan lesið samviskusamlega upp ályktun miðstjórnar Bandalags jafnaðármanna, og farið í far gömlu flokkanna, því að það er nákvæmlega svona sem við högum okkar, þannig að flokksleysinginn er allt í einu orðinn að stjórnmálaflokki, með miðstjórn og hvaðeina í kringum sig, enda má segja að hann leiti á sína gömlu bithaga, því að einn af gömlu flokkunum kom honum inn á þing.

Hv. 5. landsk. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, og fleiri þm. hafa vitnað til þess að hvalurinn sé flökkustofn. Auðvitað er það rétt. Hann heldur sig ekki eingöngu innan íslenskrar efnahagslögsögu. Við fengum um daginn bréf — og það bréf er rifjað upp hér af Sambandi ísl. náttúruverndarfélaga — frá einum 19 dönskum þm. sem minna okkur ákaflega mikið á þetta, að hvalurinn sé flökkustofn og þess vegna megum við ekki veiða hvalinn. En hvernig haga þessir þm. sér þegar við erum að hugsa um íslenska laxinn? Við leggjum fram mikið fjármagn til að rækta upp íslenskar ár, reyna að viðhalda laxastofninum. Hvernig hagar svo danska ríkið sér? Hvar er bréf frá þessum dönsku þm. um það, að þeir vilji stöðva laxveiðar Færeyinga? Við höfum ekki fengið það. Það væri fróðlegt að heyra þeirra viðhorf um það. Kannske þeir ætlist til þess að við höldum áfram að rækta árnar til þess að Færeyingar geti haldið áfram að rányrkja laxinn. Þetta er virðing þeirra fyrir flökkustofnum.

Hér var minnst á karfann áðan. Ef of mikið er gengið á karfann, þá tekur það mörg ár, kannske áratug eða meira að karfastofninn verði jafngóður og áður. Þær þjóðir sumar hverjar, sem nú tala mest um það að við megum ekki nýta hvalastofninn, rányrkja karfann þvert ofan í okkar aðvaranir. Erum við ekki líka að friða fugla hér á landi, eins og lóu og spóa? Ekki er það virt í öðrum löndum. En ég tek undir það að við skulum virða alþjóðasamþykktir varðandi það að hvalurinn sé flökkustofn. En þegar við tölum um nýtingu hvalsins hér á landi, þá skulum við gera það á þeim grundvelli og ætla okkur tíma til þess, mótmæla til að fá svigrúm, en ekki greiða atkv. gegn því á kvöldfundi, í skugga alls konar hótana og auglýsingaskrums, eins og hér hefur verið gert.

Nú held ég að allir hv. alþm. séu sammála um það að ríkisstj. hefur verið seinheppin í umfjöllun sinni á þessu máli. Og við vitum af hverju það er.

Ráðherrar Alþb. stóðu gegn því að við mótmæltum hvalveiðibanninu á sama tíma og Norðmenn gerðu það, með þeim afleiðingum að augu manna beinast nú einkum að okkur. Við þessu er ekki hægt að gera nú. Við getum ekki snúið tímaklukkunni aftur á bak, tíminn heldur áfram. Þótt við höfum misst af strætisvagninum réttlætir það ekki að við hikum við að mótmæla nú og stöndum á okkar rétti. Hitt er vert að benda á, að það Alþingi sem nú er að ákveða að mér skilst — sumir segja að hér sé meiri hluti fyrir því — að mótmæla ekki, það Alþingi sem nú ætlar að taka þá örlagaríku og afdrifaríku ákvörðun er komið í slíka upplausn, svo að ekki sé meira sagt, að það hefur glatað trausti þjóðarinnar og er í rauninni ekki ályktunarbært um þýðingarmestu mál. Héðan af vekur það satt að segja lítinn áhuga hjá þjóðinni hvað samþykkt verður, nema í svona máli sem við getum ekki tekið til baka af því að það er milliríkjamál. Ég segi: Við eigum að mótmæla, þó ekki væri til annars en að tryggja það að þjóðin gefi nýjum mönnum umboð til að fara með sín mál, festa komist á þinghaldið og á stjórnarathafnir og einhver yfirsýn fáist yfir það sem er að gerast. Að taka skyndiákvarðanir nú er það sama og að gefast upp, tapa rétti. Þó við séum smáir eigum við ávallt að þora að standa á okkar rétti. Var það ekki Staðarhóls-Páll sem sagði, þegar hann gekk fyrir danska kónginn og kraup á kné með annan fótinn en stóð í hinn: „Ég krýp hátigninni en stend á réttinum“? Við skulum standa á okkar rétti. Við skulum þora að mótmæla, af því að við vitum í fyrsta lagi að um rányrkju er ekki að ræða, af því að við vitum í öðru lagi að þeir menn sem stjórnað hafa hvalveiðum hér á landi hafa vakið athygli og virðingu hér á landi sem erlendis fyrir það hvernig þeir standa að veiðunum, og af þeim sökum að hvalveiðar Íslendinga, síðan við tókum þær í okkar hendur, hafa verið okkur til sóma og þannig, að unnið hefur verið að nýtingu auðlindar, ekki rányrkju.