02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

91. mál, hvalveiðibann

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð til að útskýra afstöðu mína til þessa máls. Ég vil fyrst láta þess getið, að við umr. þessa máls koma fram einhverjar merkilegustu þversagnir stjórnmála sem ég hef orðið vitni að. Fyrir örfáum árum barðist þessi þjóð fyrir útfærslu íslensku landhelginnar, fyrst í 12 mílur, síðan í 50 og loks í 200. Ein helsta röksemdafærslan í málflutningi okkar gagnvart erlendum mönnum voru friðunarsjónarmið. Þá hafði ekki einn einasti maður á Alþingi af því áhyggjur að hundruð og þúsundir manna í Grimsby og Hull yrðu atvinnulausir. Sú varð þó raunin.

Það mál sem við verðum nú að taka afstöðu til kemur mjög við hóp manna í þessu þjóðfélagi. Ég held að grundvöllur þessa máls sé sá, að við verðum að meta og vega hvor hópurinn verður fyrir tjóni, sá sem nú vinnur að hvalveiðum og vinnslu hvals eða sá sem vinnur í almennri fiskvinnu í þessu landi. Þetta er vandamál okkar í hnotskurn. Menn hafa lagt hér á borð margvísleg tilfinningarök. Ég geri mér um leið fulla grein fyrir því, að það var jafn sársaukafullt fyrir mennina í Grimsby og Hull að missa sína vinnu eins og það gæti orðið fyrir þá menn sem nú vinna hjá Hval hf. og þá sem vinna í frystihúsum, ef þannig færi að ákvörðun þingsins yrði til þess að draga úr atvinnutækifærum í fiskiðnaði á Íslandi.

Ég vil ennfremur benda á þau tvö grundvallaratriði sem ég nota í röksemdafærslu við sjálfan mig í þessu máli. Það er í fyrsta lagi það, sem hér hefur komið fram áður, að við Íslendingar höfum státað af því að vera menn friðunar. Við búum við jaðar eins mesta matarforðabúrs veraldar. Hvernig höfum við farið með þann mat sem í búrinu er? Og hvað hafa vísindalegar rannsóknir tryggt okkur í gegnum tíðina? Ég vil minna menn á að við vorum nærri búnir að ganga af síldarstofninum endanlega dauðum. Og nú erum við komnir langt með loðnustofninn. Þess vegna spyr ég einfaldlega: Hvað á að taka mikið mark á vísindalegum rannsóknum? Hvað taka stjórnmálamenn yfir höfuð mikið mark á vísindalegum rannsóknum?

Ég minnist þess, að í okt. 1981 gaf Hafrannsóknastofnun út yfirlýsingu eða frétt um það að hrygningarstofn loðnunnar hér við land væri kominn niður í 350 þús. tonn. Ég krafðist þess þá í tvígang að þessar veiðar yrðu stöðvaðar. Það var ekki gert og nú er óttast að þessi stofn sé nánast búinn. Það er þetta atriði og vantraust mitt í heild á þeim vísindalegu rannsóknum sem komið hafa fram, vegna þess að fátt eitt af þeim hefur staðist þegar til lengdar lætur, m. a. vegna þess að stjórnmálamenn hafa lítt farið eftir þeim í mörgum tilvikum.

Í öðru lagi ætla ég að leggja þá spurningu fyrir þm. hér inni hvað þeir telja að þurfi að gerast til þess að svo dragi úr sölu á ferskum fiski til Bandaríkjanna að nemi 1.3% af útflutningstekjum okkar, sem er hlutfall hvalafurða í útflutningstekjum Íslendinga. Hvað halda menn að þyrfti mörg fyrirtæki sem hættu að kaupa þennan fisk af einni eða annarri ástæðu? Ég get sagt við ykkur að það eru þessi einföldu rök sem ég legg á borðið fyrir framan mig þegar ég tek afstöðu til þessa máls. Ég vil ekki láta þrýsta á mig og ég nánast fyrirlít það uppátæki Bandaríkjastjórnar að senda okkur það tilboð sem hefur verið sent, þó svo að ég álykti eins og einhver annar hefur gert hér inni, að með þessu tilboði séu þeir að vara okkur við óhemjusterkum hópi manna í Bandaríkjunum. Ég held að það sé tilgangurinn með þessu tiltekna bréfi.

Ég vísa því algerlega á bug sem hér hefur komið fram hjá mörgum mönnum, sem þó hlýtur að vera túlkunaratriði hverju sinni, að menn séu að láta beygja sig hér á einhvern hátt. Ég er sannfærður um það, að Íslendingar eru þekktari fyrir annað en það í friðunarmálum, í útfærslu landhelgi en að þeir láti beygja sig. Hins vegar getur það verið merki um býsna mikla vitsmuni að taka rökum. Og í þessu máli held ég að menn verði að taka þeim rökum sem við okkur blasa. Ég reyni a. m. k. að gera það, einfaldlega vegna þess að ég óttast að ef þessu verði mótmælt þá hafi það alvarlegri áhrif á þjóðfélagið heldur en ef því verður ekki mótmælt. Svo einfalt er þetta mál í mínum huga.

Því er ekki að leyna að ég hef áhyggjur af því að hópur manna kunni að missa atvinnu. Um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi máls. Ég vil láta mér detta það í hug — og ekki bara detta það í hug — að hér sé ekki um að ræða neina endanlega afstöðu. Ég er t. d. sannfærður um að vísindamenn hinnar íslensku þjóðar munu boða það, þegar loðnustofninn er orðinn nægilega stór, að við getum farið að veiða úr honum aftur. Sama hlýtur að gilda um hvalinn. Ég tek ekki þeim rökum að ekki geti orðið breyting í hina áttina eins og í þá átt sem nú er stefnt að. Ég vil líka minna menn á það sem tala um að hvalurinn éti svo og svo mikið af fiski úr höfunum — og auðvitað er það rétt svo langt sem það nær — að loðna var til við Ísland áður en hvalveiðar hófust og síld var til við Ístand áður en hvalveiðar hófust og annar smáfiskur. Ég er trúaður á það að náttúran sjái sjálf um það að halda jafnvægi í þessum efnum ef maðurinn grípur ekki í taumana, eins og við höfum gert með þá fiskstofna sem við höfum eyðilagt, sakir græðgi og sóunar.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra. Ég tel að ég hafi gert grein fyrir þeim rökum sem fá mig til að taka þá afstöðu í þessu máli að ég vil ekki mótmæla þessu banni. Ég hef séð til þeirra samtaka sem við eigum í höggi við núna, ég hef séð hvað þau hafa gert í sínu heimalandi, og það eru ótrúlegir fjármunir að baki þessum samtökum. Við skulum ekki reikna dæmið þannig, að spurningin sé um það að einstaklingurinn í Bandaríkjunum hætti að borða íslenska fiskinn. Um það snýst málið ekki. Málið snýst um það að einstaklingurinn sem á stóra fyrirtækið, sem rekur alla matsölustaðina, hætti að kaupa fiskinn. Ég vil auk þess í þessu sambandi benda á þau rök sem hæstv. sjútvrh. kom með og eru fullkomlega réttmæt, að megnið af þeim fiski sem við seljum er sett undir merki sem fullkomlega tengir hann Íslandi á mjög einfaldan hátt. Menn þekkja þetta merki og það er á vissan hátt auðveldara að berjast gegn þessu merki heldur en merkjum Norðmanna og Japana.

Menn hafa spurt hér hver um annan þveran: Hvað kemur næst ef við ekki mótmælum? Við erum hluti af stóru samfélagi, alþjóðlegu samfélagi, og við eins og aðrir verðum að taka rökum. Það getur vel verið að okkar rök í þessu tilviki séu þyngri á metunum að því leyti til að við erum matvælaframleiðendur og okkur beri að framleiða mat í sveltandi heimi. En ég er alfarið þeirrar skoðunar, að til þess að eftir okkur sé tekið, á okkur hlustað og á okkur sé tekið mark á alþjóðlegum vettvangi megum við ekki ævinlega gera kröfu til þess að aðrir taki tillit til okkar án þess að við tökum tillit til nokkurra annarra. Slíkt gengur ekki upp þegar til lengdar lætur.

Ég tel þá, herra forseti, að ég hafi gert grein fyrir því sem ég tel kjarnann í þessu máli. Ég veit að það er flestum þm. tiltölulega erfitt að taka afstöðu. Þetta mál liggur þannig fyrir. Menn þurfa að gera þetta upp við samvisku sína eins og þm. er ætlað samkv. stjórnarskrá lýðveldisins. Það hef ég gert.