02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

91. mál, hvalveiðibann

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Við fyrri hluta umr. um málið fagnaði ég till. hæstv. sjútvrh. í ríkisstj. og viðbrögðum ríkisstj. og lagði áherslu á að ég reiknaði með að hv. alþm. mundu ekki raska þeirri ákvörðun. Þessar umr. hafa leitt ýmislegt einkennilegt í ljós.

Ég verð að taka undir orð hv. 2. þm. Reykjaneskjördæmis um furðulegan rökstuðning þeirra hv. þm. sem tala gegn mótmælum í dag, en halda því jafnframt fram, eins og fram kom í hans ræðu, að þeir vilji áfram hvalveiðar. Þeir láta þá skoðun hér í ljós, að þeir trúi því statt og stöðugt að það sé aðeins formsatriði að taka þá stefnu sem þeir halda fram, að mótmæla ekki. Vissulega er það í mínum huga hálfömurleg staðreynd að verða vitni að því hér í þingsölum að fjöldi hv. alþm. skuli taka afstöðu til þessa máls með beinni yfirlýsingu um að þeir óttist mótmæli frá erlendu stórveldi í okkar garð. Þetta hélt ég, eins og hér hefur komið fram, að ætti ekki eftir að ganga yfir okkur. Við höfum a. m. k. státað af hiklausri framgöngu í okkar lífshagsmunamálum hingað til og ekki látið aðrar þjóðir beygja okkur í duftið. — Og ég verð að segja það, að yfirlýsingar hv. 1. þm. Vestf. og raunar einnig yfirlýsing og ræða hv. 6. þm. Norðurl. vöktu furðu mína. Ég hafði haldið að Vestfirðingar þyrðu að standa við sannfæringu sína í hvaða máli sem er. Þannig hef ég kynnst þeim.

Stefna Íslands á hvalveiðiráðstefnum og í Alþjóðahvalveiðiráðinu hefur vakið eftirtekt. Hún hefur ekki vakið neinn vafa á því hvernig þessi þjóð hefur viljað halda á þessum málum. Aðferðir okkar við hvalveiðar og viðleitni til veiða undir vísindalegu eftirliti hefur verið viðurkennt sem staðreynd og hefur ávallt verið talið til fyrirmyndar meðal annarra þjóða heims. Þetta hélt ég að a. m. k. allir hv. alþm. væru ekki í vafa um.

Ég tel ástæðu til við þessar umr. að rifja upp álit Hafrannsóknastofnunarinnar, sem allir hv. þm. hafa haft fyrir framan sig, um þessi mál, sem Hafrannsóknastofnunin sendi sjútvrh. við meðferð þessa máls. Yfirlit þetta er tekið saman vegna fyrirhugaðs allsherjarbanns á hvalveiðum frá og með árinu 1986. Þar er fjallað um vísindaleg viðhorf til hvalveiðibanns, ástand íslenskra hvalastofna og stöðu hérlendra rannsókna á þessu sviði. Helstu niðurstöður eru þessar:

„Til þess að tryggja hæfilega nýtingu hvalastofna heims er mikilvægt að haga veiðum með tilliti til ástands hvers einstaks stofns. Allsherjarbann við hvalveiðum getur ekki skoðast sem vísindaleg nauðsyn eins og nú er háttað veiðum í heiminum, þótt deila megi um réttmæti einstakra veiðikvóta. Þetta á við um veiðar Íslendinga jafnt sem flestra annarra þjóða heims. Þótt þörf sé á auknum hvalarannsóknum hér á landi virðist engan veginn vera vísindaleg réttlæting fyrir stöðvun veiðanna hér. Mikilvægt er að rannsóknum hér á landi sé fylgt eftir af festu og að auknu fjármagni verði veitt til rannsókna, einkum er varðar úrvinnslu gagna í landi.“

Ég ætla ekki að tefja þingstörf með því að lesa meira úr þessari gagnmerku skýrslu, en ég geri ráð fyrir að flestir hv. alþm. hafi áttað sig á vissum staðreyndum hvað þennan þátt þessa máls varðar.

Ég tel ekki heldur ástæðu til að rifja frekar upp það sem aðrir ræðumenn á undan hafa sagt í sambandi við hótanir frá Bandaríkjunum. Ég verð að segja það alveg eins og er, að óttinn sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk. þm. um að fiskmarkaður okkar væri hruninn ef við tækjum afstöðu samkv. sannfæringu okkar í þessu máli fannst mér eiginlega furðulegur.

Það hefur komið hér fram í ræðum manna hver séu viðhorf Bandaríkjamanna, hvernig er hægt að sanna að viðhorf þeirra í þessu máli stangist á við það sem þeir sjálfir eru að gera í þessum málum. Bandaríkjamenn neita að skrifa undir hafréttarsáttmálann. Vegna hvers? Vegna þess að þeir telja að þeir nái ekki fram nægjanlega miklum réttindum á ýmsum sviðum fyrir sjálfa sig með tilliti til efnahagslegra möguleika. Þetta ætti að vera nægjanleg aðvörun til okkar í sambandi við þessi mál.

Einhvern tímann hefði verið saga til næsta bæjar afstaða Alþb.-manna til þessara hótana. Það á kannske eftir að skýrast í öðrum þáttum íslenskra þjóðmála á næstu misserum að þar sé um nýtt viðhorf að ræða.

Það hefur komið fram í þessum umr. að menn hafa gjarnan dregið í efa þýðingu hvalveiða eða látið að því liggja að efnahagsleg þýðing hvalveiða fyrir okkur sem þjóð væri ekki mikils virði, þetta væri ekki það mikið fyrirtæki, Hvalur hf., að það mundi raska svo miklu í þjóðfélagi okkar þó að starfsemi þess hætti. Það væri vissulega ástæða til að lesa upp úr efnahagsskýrslum okkar um mikilvægi þessa útflutnings fyrir okkur sem þjóð. Ég ætla ekki að gera það hér. Það hefur komið fram og kemur fram í þeim skýrslum sem hv. alþm. hafa sjálfsagt fyrir framan sig. En sé söluverðmæti hvalafurða borið saman við útflutning annarra atvinnugreina fást m. a. allmerkilegar niðurstöður. Árið 1981 nam þessi útflutningur til að mynda 91% af heildarútflutningi landbúnaðarafurða landsins, hann var 136% hærri en útflutningur Kísiliðjunnar hf. og 26% hærri en allur útflutningur niðursoðinna sjávarafurða. Aðeins þessi upptalning sýnir okkur hvaða gildi þetta fyrirtæki og framleiðsla á þessari afurð hefur í raun og veru fyrir þjóðarbú okkar. — Ég tala nú ekki um þegar við ræðum um það framtíðaráform að hefja hér ennþá meiri framleiðslu úr m. a. þessum afurðum. Þá á ég við lyfjaframleiðslu í landinu.

Af því að við erum að tala um í þessu sambandi þær hótanir, sem dynja yfir okkur frá Bandaríkjunum, væri fróðlegt að gera alþjóðlegan samanburð á þessu fyrirtæki, sem sumir hv. þm. hafa verið frekar að gera skóna að hafi fremur litla efnahagslega þýðingu fyrir okkur, og væri ekkert að því að nota Bandáríkjamenn t. d. í þennan samanburð. Ef við gerum alþjóðlegan samanburð á mikilvægi og tekið er tillit til mismunar á fólksfjölda fæst að mikilvægi útflutnings Hvals hf. árið 1980 fyrir íslenskt þjóðarbú jafngildir mikilvægi 10.8 billjón dollara útflutningi bandarísks fyrirtækis fyrir bandarískt efnahagslíf. Ennfremur kemur í ljós, að í Bandaríkjunum hefur fyrirtæki eða atvinnugrein sem veitir 135 200 manns atvinnu svipaða þýðingu fyrir bandarískt efnahagslíf og starfsemi Hvals hf. hefur fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Það getur vel verið að einhver teldi. þetta grín, en þetta er einföld staðreynd. Þess vegna skulum við ekki gera okkur far um að gera lítið úr þeirri efnahagslegu þýðingu sem framleiðsla á afurðum úr hval hefur fyrir íslenskt efnahagslíf.

Ég tel rétt að geta þess við þessar umr., að við þm. Vesturl. höfum að sjálfsögðu mikinn áhuga fyrir því að þessi starfsemi, sem hefur verið rekin með miklum myndarskap í Hvalfirði, fái að njóta sín áfram. En við gerum okkur einnig grein fyrir þýðingu þess að halda hér vel á málum. Við höfum á þskj. 289 flutt sameiginlega till. til þál. um rannsóknir á hvalastofninum, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að rannsóknir á hvalastofnunum hér við land verði stórefldar frá því sem nú er, í þeim tilgangi að auðvelda allar ákvarðanir um nýtingu þeirra og verndun á komandi árum.“

Þetta er áhersluatriði frá okkar hálfu um leið og við viðurkennum það, sem aðrar þjóðir hafa viðurkennt, að þær veiðar á hvalastofninum hér við land, sem hingað til hafa farið fram, hafa verið undir vísindalegu eftirliti og verið til fyrirmyndar, hvað vel hefur að verið staðið, eins og fram hefur komið á alþjóðavettvangi.

Ég tel að þau mótmæli, sem við erum hér að fjalla um, verði að fara fram til að tryggja okkar rétt til að nýta auðæfi hafsins á skynsamlegan hátt og efla þannig okkar efnahagslíf. Og ég er í sjálfu sér undrandi yfir því að menn skuli halda því fram hér í fullri alvöru og reikna með því, að muni vera auðvelt að fá þá 3/4 hluta þjóða til að breyta sinni afstöðu síðar meir, þegar búið er að banna hvalveiðar í höfum heimsins. Þetta er allt of mikil bjartsýni og einföldun á svo mikilvægu máli.

Það hefði verið ástæða til að fjalla hér um hagsmuni allra þeirra sem hér eiga hlut að máli. Þeir sem halda fram að hagsmunir þjóðarinnar fari best á því að mótmæla ekki þessu hafa ekki í umr. minnst á hvaða þýðingu þetta hefur fyrir heil byggðarlög, fyrir fjölda fólks sem hefur lífsviðurværi sitt af þessari atvinnugrein. Það er eins og það komi ekki þessu máli við.

Herra forseti: Ég minni á efnahagslega þýðingu hvalveiða fyrir þjóðarbúið í heild, viðkomandi sveitarfélög, fjölda fólks til sjós og lands. Ég bendi á það að engin vísindaleg rök mæla gegn hvalveiðum eins og við Íslendingar stundum þær. Ég neita að beygja mig fyrir þrýstihópum og hótunum erlendra ríkja. Það samræmist ekki tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég skora á hv. alþm. að samþykkja nál. minni hl. utanrmn.