02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

91. mál, hvalveiðibann

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það gerist nú svo áliðið kvölds að fólk villist í þingsölum. Við ég að mér verði virt það til vorkunnar undir þeim kringumstæðum að ég áskil mér rétt til örstuttrar aths. til viðbótar við langar umr. hér vegna þeirra ummæla hv. 5. þm. Vesturl. að ég hafi talað gegn eigin sannfæringu eða ekki þorað að standa við sannfæringu mína. Ummæli hv. þm. eru viljandi eða óviljandi rangtúlkun á mínu máli eða hann hefur bara alls ekki hlustað á hvað ég sagði.

Í máli mínu fólst einfaldlega það að enda þótt rök Alþjóðahvalveiðiráðsins í þessu máli séu bæði lítt sannfærandi og að sumu leyti hlægileg, þá getum við einfaldlega ekki barið höfðinu við steininn og neitað þeirri staðreynd, að mótmæli Alþingis nú gegn hvalveiðibanninu stofna stærstu útflutningshagsmunum okkar og um leið lífsafkomu íslensku þjóðarinnar í stórkostlega hættu. Við verðum að vega og meta hvort við eigum að fórna tiltölulega litlum hagsmunum fyrir okkar stærstu þjóðarhagsmuni, sem felast í útflutningi frystra fiskafurða. En að sjálfsögðu talaði hv. þm. sem 5. þm. Vesturl. og það er stutt í kosningar og hvalveiðistöðin er í Hvalfirði, við vitum það öll. Þetta sem ég sagði hér er mergurinn málsins.

Það að mótmæla hvalveiðibanninu nú væri hættulegt. Ég þarf ekkert að endurtaka öll þau rök sem hafa verið færð hér á hinu háa Alþingi fyrir þeirri skoðun. Ég vil svo segja það, að ég læt mig engu varða brigslyrði hv. þm. um að ég sé að tala hér móti eigin sannfæringu eða ég sé að heykjast á einu eða neinu. Og enn minna mark tek ég á loftinu í hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem aldrei hefur vegið mjög þungt í mínum huga.