02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

91. mál, hvalveiðibann

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Svo virðist sem mótmæli gegn hvalveiðum séu meira reist á tilfinningalegum grunni en vísindalegum. Ég tel að Íslendingar eigi að knýja á um auknar vísindalegar rannsóknir á hvalastofnunum, þannig að ávallt sé til staðar góð þekking sem hægt sé að byggja á umræður og ákvarðanatöku um nýtingu eða verndun stofnanna í framtíðinni. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenska þjóð, ef eitthvað ber út af í markaðsmálum okkar varðandi sölu á sjávarafurðum sem fyrst mun koma niður á því fólki sem byggir afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu og síðar á öllum landsmönnum. Hótanir bandarískra stjórnvalda eru þeim til skammar og ekki ástæða til að láta þær hafa áhrif á sig. En afstaða mín mótast af hugsanlegum viðbrögðum bandarískra neytenda. Af þeirri ástæðu tel ég ekki rétt að Íslendingar mótmæli samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins og segi því já.