27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

28. mál, málefni aldraðra

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú umr., sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir vakti hér áðan með spurningu sinni, á vissulega erindi, e.t.v. ekki inn í þessar umr. en þó inn í umræður um heilbrigðismál almennt, því að ég held að það fari ekki hjá því, a.m.k. í augum leikmanna, og það sé rétt, sem hún hefur bent á, að við hönnun og gerð heilbrigðismannvirkja ýmiss konar, a.m.k. þegar maður virðir þau fyrir sér með augum leikmanns, þyki manni sem nokkuð sé í borið. Hins vegar eiga stjórnvöld heilbrigðismála þarna við ákveðna erfiðleika að etja. Þau eru gjarnan borin ofurliði af sjónarmiðum sérfræðinganna. Það eru sérfróðir starfsmenn þessara stofnana sem ráða mestu eða virðast ráða mestu um hönnun þeirra. Þeir virðast oft vera ansi kröfuharðir. Eins og þróunin hefur verið í þessum framkvæmdum og eins og þróunin hefur verið í útgjöldum til heilbrigðismála er þetta orðið málefni sem ég held að menn verði að taka sérstökum tökum, þ.e. hvernig íslenska þjóðin, ekki fjölmennari og efnameiri en hún er, ætlar sér að byggja áfram upp sínar heilbrigðisstofnanir. Þá held ég að menn hljóti að horfa á það, að e.t.v. er ekki hægt að fullnægja öllum fremstu kröfum hins sérmenntaða starfsfólks sem þarna á að starfa.

Hið sérmenntaða starfsfólk í heilbrigðisstéttunum er sennilega eina sérmenntaða starfsfólkið í landinu sem hefur nú úrslitaáhrif á uppbyggingu þeirra stofnana sem það á að starfa í. Ég efast um að nokkrar aðrar sérmenntaðar stéttir í landinu hafi jafnmikil áhrif á vinnuaðstöðu sína og þessar stéttir og a.m.k. í leikmannsaugum, þegar maður virðir fyrir sér hinar nýju sjúkrahúsabyggingar víðs vegar um land, sýnast óþarflega miklar kröfur vera gerðar miðað við þau verk sem þar á að vinna. Það er t.d. ekki eðlilegt, eins og mörg dæmi eru um, að viðbyggingar við heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, sem eru allt að því jafnstórar og húsið sem fyrir var, bæti ekki svo mikið sem einu sjúkrarými við það sem fyrir var. Það er ekki heldur eðlilegt að gera ráð fyrir því í tiltölulega fámennum sveitarfélögum að þar sé hægt að taka við sjúklingum nánast á færibandi þannig að gert virðist ráð fyrir að jafnvel tveir læknar taki á móti tugum manns á sama deginum eins og húsin eru hönnuð. Þetta er vissulega umræða sem er ástæða til að frami fari, en það er mikið vandamál heilbrigðisyfirvalda hvernig á á að taka. Þetta er vandamál sem heilbrigðisráðherrar hafa átt við að etja nú um langa hríð. Ég man að þegar ég kom hér fyrst inn á Alþingi var mikið um þetta vandamál rætt af þáv. heilbrmrh. Matthíasi Bjarnasyni, sem stóð oft í nokkuð erfiðu stríði við heilbrigðisstéttirnar einmitt út af þessu.

Það er alveg laukrétt hjá hæstv. heilbrnrh., að það eru mjög miklir erfiðleikar með dvalarheimilismál aldraðra hér í Reykjavík og ég held að fæstir þm. geri sér raunar fulla grein fyrir því hversu mikið og stórt vandamál hér er við að fást. Ég veit að starfs síns og áhugamála vegna eru ýmsir þm. hér inni, svo sem eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem þekkja öðrum betur til þess neyðarástands sem ríkir hér í borginni og nálægð hennar í vistunarmálum gamla fólksins.

Það er margt gamalt fólk hér í Reykjavík sem býr við bæði kjör og aðbúð sem ekki eru manneskjum bjóðandi og er að bíða eftir því og búið að bíða eftir því árum saman að fá einhverja aðstoð, eitthvert vistunarpláss. — Ég sé hérna í hliðarsalnum þriðja þm. sem ég veit að þekkir vanda þessa fólks mjög vel hv. þm. Albert Guðmundsson.

Hinu megum við hins vegar ekki gleyma, að margt af þessu fólki er komið hingað til Reykjavíkur utan af landsbyggðinni vegna þess að á þeim stöðum þar sem það hefur búið og eytt starfsævi sinni er engin aðstaða fyrir þetta gamla fólk, hvorki hjúkrunaraðstaða né önnur. Það er þó betra fyrir það að leita fyrir sér hér í Reykjavík, þar sem biðlistarnir eru mjög langir og lengjast óðum, því að hér er þá möguleiki fyrir þetta fólk, þó að hann sé í fjarlægari framtíð, sem ekki er úti á landi. Margt fullorðið fólk flyst hingað til Reykjavíkur, ekki vegna þess að það vilji flytja úr átthögum sínum, heldur vegna hins, að það er að reyna að koma sér í einhverja nálægð við þær stofnanir, sem byggðar hafa verið fyrir gamla fólkið, sem ekki eru finnanlegar í þeirra heimabyggðum. Það er líka hagsmunamál fyrir Reykjavík og öldrunarmál hér í Reykjavík að vandi fólksins úti á landi sé leystur. Það mun létta á þeim þrýstingi sem nú er á stofnunum í Reykjavík. Við alþm. megum alls ekki horfa á þetta vandamál staðbundið, hvorki við þennan stað né annan, því að allar framkvæmdir af þessum toga munu létta af þrýstingnum á þeim stöðum á þeim vistheimilum fyrir gamla fólkið sem nú eru með langa biðlista. Framkvæmdir við vistunarmál aldraðra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Norðurlandi, Suðurlandi og Austurlandi munu einnig létta þrýstingi af dvalarheimilum gamla fólksins hér í Reykjavík.

Sérstaklega vil ég nefna það um þetta Ísafjarðarmál, sem hér hefur dregist inn í umr., að líta ber á þær framkvæmdir, sem þar hafa átt sér stað, sem fyrsta áfanga í framkvæmdum þeirra Ísfirðinga í vistunarmálum gamla fólksins. Þetta er fyrsti áfangi í nýrri elliheimilisbyggingu á Ísafirði. Auðvitað ber að horfa á slíkt sem fyrsta áfanga slíkrar framkvæmdar, en alls ekki sem einhverja loka- og endanlega framkvæmd.

Ástæðan fyrir því að farið var út í byggingu leiguíbúða í staðinn fyrir að fara út í byggingu hefðbundins elliheimilis eða hjúkrunarheimilis fyrir aldraða sem fyrsta áfanga er ákaflega einföld. Ástæðan er sú, að nú er fyrir hendi á Ísafirði, að vísu gamalt en á margan hátt mjög gott, lítið elliheimili með hjúkrunaraðstöðu og fram undan er að tekið verði nýtt sjúkrahús í notkun á Ísafirði. Gamla sjúkrahúsið mun þá losna og þær hugmyndir hafa komið fram í sveitarfélaginu að nýta þá gamla sjúkrahúsið með einhverjum endurbótum undir hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Á meðan endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um það og afstaða tekin til þess hvort sú nýting getur hentað á hinu gamla sjúkrahúsi, þá ráðast Ísfirðingar að sjálfsögðu ekki í að byggja neitt nýtt vistheimili af þeirri gerð sem rætt er um hér í sambandi við fjárveitingarnar úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Í öðru lagi sáu menn þarna einnig möguleika á að slá tvær flugur í einu höggi, ef svo má segja, að byggja vistunarpláss fyrir gamalt fólk, sem enn hafði ferlivist, og að útrýma heilsuspillandi húsnæði, að leggja niður gamlar og úr sér gengnar íbúðir, sem margt af þessu gamla fólki bjó í og ekki svöruðu þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til húsnæðis sem talið er nú mönnum bjóðandi. En staðreyndin er sú, að eins og á málum hefur verið haldið hefur framkvæmdin með þessum hætti orðið til þess að þeir Ísfirðingarnir hafa þurft að leggja miklu meira fram úr bæjarsjóði til þessara framkvæmda en ástæða er til og eðlilegt væri og miklu meira en þeir mundu hafa gert ef þeir hefðu skírt þennan fyrsta framkvæmdaáfanga í sínum dvalarheimilismálum einhverju öðru nafni en byggingu leiguíbúða.

Það er engin ástæða að vera að della um þetta mál hér á Alþingi við hæstv. ráðh. Meginefni málsins er það, að miklu meiri fjárhagsbyrði hefur fallið á Ísafjarðarkaupstað vegna þessara framkvæmda en yfirleitt hefur átt sér stað varðandi önnur sveitarfélög. Kaupstaðurinn hefur fengið miklu minni lánsfjárfyrirgreiðslu en ef þessi framkvæmd hefði verið t.d. ætluð frá upphafi til að leggja niður heilsuspillandi húsnæði eða ef framkvæmdin hefði verið skírð einhverju öðru nafni. Meginefni málsins er ekki að efna til deilu við hæstv. ráðh. um þetta mál, heldur fara þess á leit við hann, og það geri ég hér og nú, að hann veiti atbeina sinn til að þessi vandamál séu leyst annaðhvort fyrir tilstuðlan Framkvæmdasjóðs aldraðra eða, eins og þeir Ísfirðingarnir hafa óskað eftir, í gegnum húsnæðislánakerfið. Þetta vandamál þeirra Ísfirðinga er ákaflega sérstætt og það er ekki mér vitanlega dæmi um annað slíkt, þannig að það er hægt að leysa þetta mál án þess að gefa með þeirri lausn nokkurt vafasamt fordæmi: Þvert á móti væri með þeirri lausn verið að gera Ísafjarðarkaupstað jafnsettan öðrum. Ég óska eftir því, að hæstv. félmrh. gefi hér yfirlýsingu um að hann muni veita atbeina sinn til þess hjá húsnæðismálayfirvöldum að þeir Ísfirðingar fái sinn fjárhagsvanda leystan með svipuðum hætti og þeir áttu von á og þeir eiga kröfu til.

Í þriðja lagi er ósköp eðlilegt að menn hafi nokkrar áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur á óðrum sviðum, þegar Alþingi hefur orðið sammála um að efna til skattlagningar í einhverju sérstöku skyni, sem allir eru sammála um. Síðan hefur það gerst, að þeir skattpeningar sem þannig hefur verið aflað, hafa verið notaðir í aðrar kannske skyldar þarfir, en þó ekki þær þarfir sem skattheimtunni upphaflega var ætlað að sinna. Við þekkjum fjölmörg dæmi um þetta héðan úr þinginu. Við þekkjum dæmið um viðlagagjaldið, sem á sínum tíma var lagt á til þess að afla fjár til þess að ráða bót á vanda Vestmanneyinga eftir eldgosið þar, en varð síðan að almennum tekjustofni ríkisins. Við þekkjum dæmið um orkujöfnunargjaldið, sem lagt var á samkv. ákvörðun manna úr öllum flokkum til að jafna orkuverð í landinu og er nú að miklum meiri hluta notað í almennar þarfir ríkissjóðs, en misréttið í húshitunarmálunum er skilið eftir óleyst. Það sem menn óttast í sambandi við þennan sérstaka skatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra er að hann verði tekinn og notaður til almennra framkvæmda í sjúkrahúsa- og heilbrigðismálum svo sem gefið er til kynna í sambandi við framlagið úr sjóðnum til B-álmu Borgarspítalans. Ég get verið alveg sammála hæstv. félmrh. um að vissulega kemur til greina að nota framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að hraða framkvæmdum eins og t.d. við B-álmu Borgarspítalans. En það er ekki eðlilegt þegar menn nota svona sérstaka fjáröflun til að koma í staðinn að einhverju eða öllu leyti fyrir framlag sem ella hefði komið úr ríkissjóði, svo að hægt sé að nota framlagið sem ella hefði komið úr ríkissjóði til annarra þarfa. Það er þetta sem ég held að menn óttist að sé að gerast í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra, að það sé verið að nota sjóðinn, sem átti að vera viðbótarframlag til þess að auka framkvæmdir í málefnum tengd vistunarmálum gamla fólksins umfram það sem ella hefði orðið miðað við venjuleg framlög ríkissjóðs, til slíkra framkvæmda. Menn óttast að það sé verið að feta sig út á þá braut að nota þennan framkvæmdasjóð til að losa fjármuni hjá ríkissjóði, sem ella hefðu farið til slíkra framkvæmda, í annað og Framkvæmdasjóðurinn væri síðan notaður til að kosta hefðbundnar framkvæmdir og hefðbundin framlög ríkisins til framkvæmda af því tagi sem B-álman er dæmi um.