03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Því miður er hér hvergi um neitt meirihlutaálit að ræða og skiptist nefndin í þrjá hópa, sem gefa út hver sitt nál. Hins vegar ber þskj. 278 sem betur fer þess vitni, að minni hlutarnir sameinast að miklu leyti um flutning einnar brtt., þar sem flytjendur eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna í nefndinni.

Við 1. umr. þessa máls ræddi ég frv. í þó nokkru máli efnislega, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að halda um það langa ræðu nú. Hins vegar er kannske rétt að nefna höfuðatriði þessa máls.

Þetta frv. er í fyrsta lagi flutt til þess að koma á laggirnar Olíusjóði fiskiskipa, atnafna fyrirbæris sem sett var á laggirnar á s. l. ári í formi brbl. um Olíusjóð fiskiskipa, er sem sagt með sama nafni og í sama tilgangi komið á fót, en með annarri aðferð. Sá olíusjóður hefur lokið störfum, enda var ætlunarverk hans að greiða niður olíu síðustu mánuði ársins 1982 og átti hann að halda lífi fram að áramótum. Þess vegna er hann úr sögunni.

En með þessu frv. er lagt til að vakinn skuli upp nýr Olíusjóður fiskiskipa, sem greiði niður olíu til fiskiskipa um 35%, þar sem tekna er aflað með útflutningsgjaldi. Auk þess er í þessu frv., í 3. gr., framlengt olíugjald upp á 7%. Sýnist mér að ástandið í þessum efnum bjóði ekki upp á það eins og sakir standa að olíugjaldið verði fellt niður, og tel ég að flestir fallist á það sjónarmið, þó að bæði ég og aðrir höfum fundið að þessu formi.

Þetta frv. er flutt til þess að standa við þá ákvörðun sem tekin var á gamlársdag á s. l. ári um þessar niðurgreiðslur til þess að unnt verði að halda flotanum úti og greiða niður þyngsta baggann í útgerðinni, þar sem olían er.

Nú þarf ekki að orðlengja það frekar. En ég vil nota tækifærið í þessari stuttu tölu til þess að útskýra þá brtt. sem fjórir nm. hafa flutt við frv. Hún er við 2. gr. þess og nánar tiltekið 3. mgr. 3. mgr. 2. gr. fjallar um hvernig með skuli fara þegar fiskiskip selja erlendis.

Í frv. er gert ráð fyrir að þetta sérstaka útflutningsgjald, 4% útflutningsgjald, verði tekið af aflanum í erlendri höfn og síðan geti fiskiskipin notað það verðmæti til þess að greiða niður olíuna sem keypt er erlendis. Nú vill svo til að olían í erlendum höfnum er miklu ódýrari en hér. Mér er sagt að þessa dagana sé olían í Bretlandi næstum því 40% ódýrari en hér heima, svo að hún er jafnvel lægri í verði en niðurgreidd olía hér. En ástæðan til þess að við flytjum þessa brtt., ég, hv. þm. Pétur Sigurðsson, hv. þm. Karvel Pálmason og Páll Pétursson, er að okkur þykir nógu langt gengið þegar í því að taka af óskiptum afla þegar fiskiskip selja erlendis. Ef frv. nær óbreytt fram að ganga með 3. mgr. í 2. gr. frv. eru tekin af stærri togurunum 39% af afla áður en hann kemur til skipta. Þykir okkur það of langt gengið. Þetta má auðvitað rökstyðja miklu frekar, en ég held að hv. alþm. hljóti að hafa kynnt sér það mál nægilega vel til þess að ekki þurfi mikið um að tala.

Þegar fiskiskip selja erlendis er það auðvitað ákvörðun útgerðarinnar en ekki sjómanna að afli skuli seldur erlendis. Og við teljum að frv. óbreytt hvetji fremur til söluferða til útlanda, þó ekki muni miklu eins og frv. er. Með því að samþykkja brtt. okkar á þskj. 279 verður ekki tekið meira en nú þegar er gert af óskiptum afla þannig að sjómenn koma eitthvað heldur skár út úr því dæmi. En menn skulu huga að því, að þegar fiskiskip dvelur í erlendri höfn tekur sá túr miklu lengri tíma en þegar lagt er upp hér í innlendri höfn og að sá hlutur, sem sjómenn fá út úr aflanum, verður náttúrlega fyrir langtum lengri tíma.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til, nema annað tilefni gefist til, að fjölyrða um þetta mál. En á nál. 1. minni hl. stendur að 1. minni hl. leggi til að frv. verði samþykkt, en nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. Við höfum notað okkur þennan rétt með því að flytja brtt. við 2. gr. Ég vil leyfa mér að hvetja hv. þdm. til þess að samþykkja frv., en þó með þeirri breytingu sem hér er lagt til að gera.