03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 3. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og tekið var fram í fundarbyrjun hefur ekki unnist tími til þess að prenta nál. 3. minni hl. sjútvn., nál. okkar sjálfstæðismannanna sem í nefndinni sitjum, þannig að ég mun skila nál. sem skriflegu áliti og reyna að fylgja því úr hlaði í þessari framsöguræðu minni svo að hv. þm. geti gert sér nokkra grein fyrir efnisinnihaldi þess. Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður: Ég sá ekki ástæðu til þess að verða ekki við óskum hæstv. forseta, sem hefur í öllum málum hér á Alþingi reynt að verða við frómum óskum hæstv. ráðh. um að flýta þingstörfum, og er sjálfsagt fyrir okkur hina óbreyttu að taka undir með honum í sambandi við það.

Áður en ég sný mér að nál. mínu verð ég þó að fara nokkrum orðum um þá fsp. sem hv. síðasti ræðumaður, frsm. 2. minni hl., bar upp við hæstv. ráðh. varðandi rannsókn vinnutíma á fiskiskipum. Hv. þm. munu minnast þess, að hér voru uppi miklar fullyrðingar, sem reyndar var tekið undir af hæstv. ráðh., um að bæði væru framin lögbrot og samningsbrot varðandi vinnutíma á fiskiskipum. Ég get staðfest að hæstv. sjútvrh. hefur í einu og öllu staðið við það sem hann lofaði um að þessi rannsókn færi fram. En hitt undrar mig og það er um framkvæmd þessa máls. Ég tala ekki um þau viðbrögð vinnuveitenda í þessu tilfelli að draga sína menn út úr þessu starfi m. a. á þeirri forsendu að sjómenn hafi ekki verið nógu fúsir til að gefa þær upplýsingar sem um var beðið, en ef þessi upplýsingasöfnun hefur farið fram samkv. tillögu starfsmanna og stjórnenda sjómannasamtakanna verð ég að lýsa furðu minn yfir barnaskap þeirra. Það undrar mig hins vegar ekki ef þessi vinnumáti hefur komið frá aðilum eins og kjararannsóknarnefnd, sem líklega líta á togaravist eins og nokkurs konar kennarastofurabbfund í skólum landsins. — En að ætla sér það, að undirmenn á togurum t. d. skili skýrslum um of langan vinnutíma til yfirmannanna sjálfra, skipstjórans og stýrimannanna, til þess að fella úrskurð um réttmæti þessarar ákæru, en í þessu felst auðvitað ákæra á yfirmenn fyrir lögbrot og brot á samningum, — ef einhver lætur sér detta í hug að það sé til þess að ná fram réttum upplýsingum í þessu máli að fara þessa leið, þá segi ég að þeir menn eru blindir sem álíta að þeir geri það í vinnu sem er jafneftirsótt og þó er enn þá með bæði minni og stærri togarana. Maður sem leyfði sér að gera slíkt um borð í togara tæki pokann sinn um leið og skipið kæmi næst að bryggju. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Í nál. okkar bendum við á megineinkenni stjórnarstefnu núv. ríkisstj., en þau hafa verið eins og kunnugt er bráðabirgðalausnir og skammtímaráðstafanir. Við bendum á að ytri aðstæður efnahagsmála hafa aldrei verið hagstæðari neinni ríkisstjórn en þessari fyrstu tvö stjórnarár hennar. En það eru athyglisverðar yfirlýsingar einstakra ráðh., sem hafa komið fram að undanförnu. T. d. þessi, að við séum að sökkva í ískyggilega skuldasöfnun, að á sé skollin mesta efnahagskreppa á síðustu áratugum. Einn þessara hæstv. ráðh. hefur sagt að það sem einkenndi störf stjórnarinnar í efnahagsmálum væri að það sem gert hefði verið væri bæði of lítið og komi of seint.

Þegar verðbótaskerðingin 1. des. s. l. er meðtalin, en hún reyndist 7.71%, auk hækkunar vörugjalds, hafa verðbætur á laun verið skertar á öllum verðbótaútreikningsdögunum fjórum á s. l. ári eða samtals um tæp 18% á árinu 1982. Auk þess var vísitalan greidd niður um 6% fyrri hluta ársins. Samt reyndist verðbólga 1982 frá ársbyrjun til ársloka vera 64–65% miðað við byggingarvísitölu.

Þegar við bendum á þennan feril ríkisstj. á árinu 1982 þarf engan að undra þótt hún leitaði ekki að bestu leið þegar afla þurfti fjármuna til að endar næðu saman við ákvörðun fiskverðs.

Á margar fjáröflunarleiðir hefur verið bent, bæði beina fiskuppbót til útgerðarmanna fram hjá skiptum og kjarasamningum sjómanna, öflun fjármuna með hækkun söluskatts, og á fleiri leiðir hefur verið bent, eins og að verður vikið hér á eftir.

Ég mun fara nokkuð ítarlega út í þetta mál í framsöguræðu minni. Ég gat ekki verið við 1. umr. málsins vegna veikinda og því tel ég mér nauðsynlegt að fara nokkru ítarlegar út í málið nú en fyrri framsögumenn hafa gert.

Ef ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hefðu orðið við kröfum okkar þm. Sjálfstfl., sem kröfðumst þess að þing kæmi saman eigi síðar en 4. jan., má ætla að það hefði mátt skoða og ræða þessar tillögur og velja bestu leiðina af þeim sem hér hefur verið bent á. En í stað þess lýsti sjútvrh. því yfir fyrir áramót að hann hefði lagt tillögu fyrir Verðlagsráð um hækkun fiskverðs, sem það hefði svo samþykkt. Í þessum orðum ráðh. má einna best merkja inn á hvaða villigötur Verðlagsráð hefur borist, því engum er kunnugt um að lagafyrirmæli kveði á um að sjútvrh. eigi neinn tillögurétt í Verðlagsráði sjávarútvegsins.

Ríkisstj. valdi þá leið að bjóða 14% fiskverðshækkun til útgerðar og sjómanna og tókust um þetta samningar milli útgerðar og ríkisstj., auk fleiri atriða sem þessir aðilar sömdu um. Ekki er okkur kunnugt um að sjómönnum hafi verið boðið upp á samninga, og voru þó fjölmörg félög þeirra með sína kjarasamninga lausa. Samkv. frv. um Olíusjóð fiskiskipa o. fl. er ákvæði um að 7% olíugjald framtengist, en það kemur ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna, og þetta nær að sjálfsögðu einnig yfir 14% fiskverðshækkunina sem framangreindir aðilar sömdu um á gamlársdag.

Í frv. þessu er kveðið á um starfrækslu Olíusjóðs fiskiskipa á árinu 1983 og fjármögnun hans með 4% útflutningsgjaldi af sjávarafurðaframleiðslu ársins 1983. Er gjaldið miðað við að olía til fiskiskipa verði greidd niður um 35% af olíuverði, en slík niðurgreiðsla er talin kosta um 400 millj. kr. á þessu ári.

Um fleiri atriði hefur verið „samið“, jafnvel atriði sem ekki komu upp fyrr en eftir að samningaviðræðum að viðstöddum fulltrúum Þjóðhagsstofnunar lauk, fyrir áramót, sbr. ákvæði 3. mgr. 2. gr. um útflutningsgjald af sölu fiskiskipa í erlendri höfn, sem formaður sjútvn., hv. þm. Garðar Sigurðsson, hefur ljóslega drepið á.

Þetta tilboð ríkisstj. var gylliboð til þess að ná fram einhverri niðurstöðu fyrir áramót og til þess um leið að telja sjómönnum trú um að þær kjaraskerðingar, sem sjómenn hafa orðið fyrir umfram aðra launþega á liðnum árum, væru með þessu bættar að fullu. Fyrir þessu féllu nokkrir forustumenn sjómannasamtaka, en sjómenn sjálfir eru í æ ríkara mæli að vakna til meðvitundar um að blekkingin haldi áfram, sem best sést á því, að þessa fiskverðshækkun, sem greiðist af fyrirhuguðu útflutningsgjaldi, á lögum samkvæmt að taka til greina við næstu fiskverðsákvörðun sem aukinn kostnað. Til sanns vegar má færa að þessi leið sé ekki jafntilfinnanleg og ef höggvið hefði verið strax á óskipta hlutinn og af honum tekið beint til styrktar útgerðinni í formi hlutdeildar í rekstrarkostnaði eða til sérstakra uppbóta á fisk útgerðarmanna. — En á þessu sviði sem flestum öðrum er um skammtímalausn að ræða, og styttist nú óðum í milli þess að þeim þurfi að beita. Þolendur njóta stundarvarma vegna þessara aðgerða ríkisstj., en það gera þeir líka sem pissa í skó sinn.

Í frv. um Olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o. fl. eru birtar tvær athyglisverðar töflur sem eiga að sýna höfðingsskap og stórmennsku ríkisstj. í garð sjómanna. Önnur er með yfirskriftinni „Breytingar fiskverðs og kauptaxta 1977–1983“ og hin „Lauslegar áætlanir um breytingar tekna sjómanna (á botnfiskveiðum), verkamanna og iðnaðarmanna 1977—1982.“

Þegar hafðar eru í huga fullyrðingar, sem komu fram eftir síðustu fiskverðsákvörðun um að nú væri að fullu bætt sú kjaraskerðing sem sjómenn hefðu orðið fyrir í tíð vinstri stjórna frá 1978–1983, og þessar töflur skoðaðar, sést hversu alvarlegar blekkingar er um að ræða, enda sjá höfundar grg. frv. sér ekki annað fært en að feta sig nær sannleikanum, því að þar segir m. a.: „Fiskverðshækkunin nú réttir verulega hlut sjómanna í samanburði við launþega.“

Í síðari töflunni er hreinum blekkingum beitt. Annars vegar eru tekjur verkamanna og iðnaðarmanna samkv. árlegri úrtaksathugun Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar úr skattframtölum kvæntra launþega. Í aths. segir svo m. a. :

„Fyrir október 1982 og janúar 1983 eru sýnd dæmi um breytingar á tekjum sjómanna. Er miðað við áætlað aflamagn 1982 og tekið tillit til aukinnar sóknar vegna fjölgunar togara. Hér er um meðaltal að ræða fyrir báta og togara, en aflasamdrátturinn er nokkru meiri en meðaltalið sýnir hjá togurunum.“

Til að ná girnilegri samanburði fyrir sjómenn eru annars vegar áætlaðar tekjur fyrir sjómenn og hefur ekki verið til sparað í áætlun þess aflamagns sem til grundvallar er lagt. Hins vegar eru skattaframtöl þeirra, sem í landi vinna og hafa fjölmargar leiðir til að drýgja tekjur sínar, án þess að það sé talið fram til skatts, og geta unnið heimili sínu margvíslega, sem sjómaðurinn getur ekki. Sérstaklega ber að benda á þann hóp sem sjómenn eiga að vera yfir samkvæmt þessari áætlun, þ. e. iðnaðarmenn.

Forustumenn landssamtaka þessarar stéttar eru þeir einu sem hafa haft hug og þor til að kveða upp úr um það mein sem grafið hefur um sig í þeirra röðum vegna „svartrar efnahagsstarfsemi“, .sem þýðir að ómældar fúlgur tekna koma ekki fram í skattframtölum. Ekki er að undra þótt slík stétt verði undir í viðmiðun við þá sem verða að leggja allar sínar tekjur undir mælistiku skattyfirvalda. Því mátti t. d. ekki taka kennara, flugfólk og verslunarfólk til samanburðar, og ekki þá aðeins laun þeirra, heldur líka vinnutíma? — Nei, það mátti ekki.

Sá dómarinn sem marktækastur er að mínu mati þegar skattframtöl eru rædd má ætla að sé sjálfur fjmrh. Í umr. á Alþingi fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var um láglaunabætur, sagði hann að „skattframtöl væru hæpnari grundvöllur fyrir greiðslum úr ríkissjóði en ætlað var.“ Ja, bragð er að þá barnið finnur!

Þessi dómur ráðh. sýnir best hvert mark er takandi á slíkum útreikningum reiknimanna.

Það er athugunarvert fyrir sjómenn að aldrei heyrist, þegar vel aflast, neitt frá forustumönnum annarra launþegasamtaka og öðrum sem láta sig varða tekjur sjómanna, um það, hvort réttmætt sé að sjómenn beri eitthvað meira úr býtum en aðrir. Ríkisstj. finnst það ekki, sbr. þá áherslu sem er lögð á að ná meðaltekjum sjómanna hið næsta verkamönnum og iðnaðarmönnum og hika ekki við að beita blekkingum til að svo megi verða. Ég leyfi mér að vísa í fskj. I, sem mun fylgja nál. þegar það kemur úr prentun, varðandi röksemdir fyrir launamismun þessara hópa sjómönnum í hag. Þar eru einnig röksemdir sem koma gegn fullyrðingum svokallaðrar starfsskilyrðanefndar — eða nefndar forsrh. sem ég kalla svo, enda skipuð af honum og hefur unnið fyrir hann, — en þar hafa komið fram hinar margvíslegustu blekkingar varðandi skattfríðindi sjómanna.

En til viðbótar því, sem hér hefur verið sagt um þá fullyrðingu að með 14% fiskverðshækkun um áramót hafi loks verið bætt fyrir kjaraskerðingar sjómanna umfram aðra, sem hófust í stjórnartíð Alþb., Alþfl. og Framsfl. og hafa staðið linnulaust síðan, ber að undirstrika það sem ég nú segi:

Með þessu viðurkennir ríkisstj. að á þessu árabili hafa verið teknar stórkostlegar fjárupphæðir af réttmætum hlut sjómanna án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Það sem verra er er að sjómenn borguðu eins og aðrir sína félagsmálapakka, en hafa ekki fengið nema óverulegan hluta af því sem þeir borguðu fyrir. Þá má benda á offjölgun fiskiskipastólsins, sem er atfarið mál ríkisstj., en þessu hafa fylgt fleiri skrapdagar, lengra veiðibann og minni tekjur sjómanna.

Við sjálfstæðismenn höfum á liðnum áratug nokkrum sinnum orðið að grípa inn í gerða kjarasamninga. Þær aðgerðir hafa fært okkur þann lærdóm að slíkt megi ekki gera nema þjóðarnauðsyn krefjist. Síendurteknar aðgerðir ríkisstj. á þessu sviði jafngilda því í raun að hún hafi tekið sér alræðisvald í kjaramálum og þannig kippt stoðum undan samningsfrelsi launþega og atvinnurekenda. Þessi ráðandi þáttur í gerðum ríkisstj. er því til þess fallinn að leysa aðila vinnumarkaðarins undan ábyrgð á gerð og efndum kjarasamninga. Sjálfstæðismenn eru í grundvallaratriðum andvígir þessum vinnubrögðum og telja að ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á efni gerðra kjarasamninga sé ein af veigameiri forsendum þess, að árangurs sé að vænta í baráttunni við verðbólguna. Afskipti ríkisstj. af ákvörðun fiskverðs nú með þeim hætti sem þetta frv. boðar hljóta því að auka enn á þá efnahagslegu upplausn er einkennt hefur allt vinstri stjórnartímabilið frá 1978 og fram á þennan dag.

Alþm. hljóta að gera sér fulla grein fyrir því, að með samþykkt þessa frv. er verið að taka upp að nýju í sjávarútveginum það millifærslukerfi sem afnumið var fyrir um sex árum. Til þess að það tækist var miklu fórnað og miklu til kostað, en allir aðilar málsins voru sammála um að slíkt millifærslukerfi væri með öllu óhafandi og óþolandi. Nú ætlar ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar að endurreisa Olíusjóð fiskiskipa, sem allir aðilar að fiskverðssamningum, sjómenn, útgerðarmenn og fiskkaupendur, og Alþingi sjálft voru sammála um að hverfa frá fyrir sex árum, eins og hv. frsm. 2. minni hl. sjútvn. kom svo skilmerkilega inn á í sinni framsöguræðu. Enn einu sinni á að breyta hlutaskiptasamningi sjómanna og útgerðarmanna vitandi um það stríð sem á eftir að fylgja, sem ekki er óeðlilegt þegar taka á stórar fjárupphæðir fram hjá skiptum af þeim aðilanum sem minna má sín.

Alvarleg tilraun til að leita nýrra leiða út úr þeim vanda, sem óneitanlega er við að glíma, virðist fjarri ríkisstj., enda er hennar meginmál nú að gera sem flestum til hæfis, móðga engan, hvergi að draga saman og spara, en stíga verðbólgudansinn fastar en áður ef eitthvað er.

Við 1. umr. þessa máls hér í hv. Nd. sagði hæstv. sjútvrh. að öll þjóðin tæki á sig áhrif gengislækkunar og gengissigs, sem þessar „aðgerðir“ byggðust á, í hækkuðu vöruverði. Orðrétt sagði hann, með leyfi forseta: „Þetta er gjaldtaka sem öll þjóðin ber.“ Hvorki hann né aðrir, sem að þessu standa, hafa séð ástæðu til að undirstrika að þar í eru sjómenn og fjölskyldur þeirra einnig. Svo hefur verið við allar gengisfellingar sem gerðar hafa verið sjávarútveginum „til aðstoðar“, eins og það er kallað.

Hæstv. sjútvrh. vildi ekki hækkun söluskatts, taldi það vafasama leið því að þá væri verið að leggja það beint á neysluvörur almennings að greiða niður olíu til fiskiskipa.

En hver er efnismunur þessara leiða gagnvart almenningi, gagnvart neytendum hér á landi? Ef söluskattsleiðin hefði verið farin var engin goðgá að taka áhrif þeirrar hækkunar út úr væntanlegum verðbótagreiðslum, eins og brennivínið t. d., því í þessu tilfelli áttu allir að skita til baka nokkru af því sem búið var að oftaka frá útgerð og sjómönnum.

Til viðbótar má benda á, að við alþm. höfum um árabil verið sammála um að innheimta á þennan hátt fé til að greiða niður olíuhitunarkostnað hjá hluta þjóðarinnar. Sá aukni kostnaður er að sjálfsögðu viðurkenndur, enda stafar hann af óviðráðanlegum ástæðum, hækkun olíuverðs erlendis. Útgerð og sjómenn ráða heldur engu um hækkun olíuverðs erlendis, enda meginvandi þessa þáttar þaðan kominn. En vandamál undirstöðuatvinnuvegar Íslendinga er vandamál allrar þjóðarinnar, og því skyldi maður ætla að þjóðin öll ætti að taka þátt í að leysa þann vanda.

Það þykir hvergi goðgá í heiminum, nema kannske hér á landi hjá einhverju kreddufólki, að verja efnahagslíf viðkomandi þjóðar gegn slíkri vá með sameiginlegu átaki og fjármagna úr sameiginlegum sjóði stórfellda sérstaka verðhækkun af erlendum uppruna. En það kemur auðvitað að því, að efnahagslífið verður að taka mið af þessum vanda eða þeim hluta hans sem eftir stendur. Þegar allar hugsanlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr áhrifum hans á efnahagskerfið og einstaka þætti atvinnulífsins og séð er að vandinn er varanlegur.

Öllum er ljóst, sem fylgjast með, að vandamál okkar gegn hugsanlegum stórhækkunum á olíu verður alltaf til staðar. Það er að sjálfsögðu heldur engin goðgá þótt þjóðin eigi sinn olíujöfnunarsjóð fyrir atvinnuvegina, sem í safnist þegar olíuverð er í lágmarki, en úr honum greitt þegar skyndilegan verðhækkunarvanda ber að. Er þetta raunar í samræmi við stefnu okkar sjálfstæðismanna varðandi verðtryggingar- og verðjöfnunarsjóði.

Það hefði ekki átt að letja ríkisstj. að fylgja slíkri stefnu þegar haft er í huga að stofn að slíkum sjóði er þegar til og starfandi í raun og er í vörslu fjmrh. Orkujöfnunargjald er innheimt með 11/2 söluskattsstigi. Á svipuðu verðlagi og lagt er til grundvallar við ákvörðun um 400 millj. kr. þörf útgerðar í olíuniðurgreiðslu er ætlað að þessi skattur gefi samtals 340 millj. kr. Af þessari upphæð eru aðeins notaðar um 80 millj. kr. til orkujöfnunar. Þótt þessi orkujöfnun yrði aukin í 130 millj. kr., eða sem næst því sem við sjálfstæðismenn lögðum til við afgreiðslu síðustu fjárlága, er um 210 millj. kr. afgangur af þessari skattheimtu, sem nú rennur til almennrar eyðslu ríkisstj.

Þegar haft er í huga, að útflutningsgjaldið innheimtist miklu síðar en söluskattur og að samkv. spá hins virta tímarits The Economist má ætla að markaðsverð olíu lækki um 30% á næstu mánuðum og misserum má gera ráð fyrir að umræddar 210 millj. kr., sem nú fara í verðbólgueyðslu ráðh., hefðu dugað fram á haust til að mæta þörf útgerðar fyrir lækkun olíukostnaðar.

Það eru fjölmargir útgerðarmenn og enn fleiri sjómenn þeirrar skoðunar, að þessa leið hefði átt að fara til nauðsynlegrar fjáröflunar. Það hefði ekki verið af hinu verra ef gengið hefði verið markvisst fram í því að létta kostnaði af útgerðinni eða auka tekjur hennar á annan hátt jafnframt. Meginmál útgerðarinnar hlaut að vera að hún fengi þá fjármuni sem þurfti til að tryggja rekstur hennar.

Á fskj., sem fylgja með nál. þessu um olíumál, má sjá ýmsa pinkla, sem útgerðinni eru búnir í gegnum olíuverðið, og virðist ekki vanþörf á að kryfja til mergjar ýmsa þeirra. Við sjálfstæðismenn teljum sjálfsagt að skoða fleiri slíka þætti. Má t. d. benda á það útflutningsgjald sem í gildi er, nýtingu þess og þörf þeirra sem það rennur til. Er einhvers staðar hægt að draga úr? Ber sameiginlegum sjóði landsmanna að taka við einhverjum þeirra útgjaldaliða sem útflutningsgjaldið stendur undir? Við þessum spurningum og fleiri hafa engin svör fengist, en m. a. þess vegna er sú brtt., sem við sjálfstæðismenn berum fram á sérstöku þskj. um ákvæði til bráðabirgða, fram borin. Þessari brtt. á þskj. 298 hefur þegar verið útbýtt og ég sé enga ástæðu til þess að vera að lesa hana, hún er þegar komin á borð hv. þm.

En það eru fleiri ástæður sem liggja til þess að við flytjum þessa brtt. við þetta frv. Það hefur um nokkurt skeið verið nefnd að störfum, sem hefur unnið að því að kanna möguleika þess, að hlutaskiptafyrirkomulaginu yrði breytt. Af einhverjum mjög lítt skiljanlegum ástæðum er nefnd þessi látin hætta störfum og engar skýringar sendar til þeirra fjölmörgu sjómannafélaga sem eru með kjarasamninga sína lausa. En nú liggur það fyrir, og ég bendi hv. þm. á þá staðreynd, þegar þeir taka afstöðu til þessarar brtt. okkar við atkvgr. hér á eftir, að helstu samningsaðilar úr röðum sjómanna hafa lýst áhuga sínum á þessu máli.

Þann 10. jan. ályktaði framkvæmdastjórn Farmanna- og fiskimannasambands Ístands m. a. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Stöðug íhlutun hins opinbera í fiskverð hvetur sjómenn til að huga að því, hvernig þeir geta með öðrum hætti sótt laun sín heldur en í gegnum hlutaskipti. Hlýtur þar annað launafyrirkomulag, t. a. m. eins og tíðkast á stóru togurunum, að koma sterklega til greina.“

Sunnudaginn 30. jan. var haldinn formannafundur Sjómannasambands Íslands. Þar var m. a. samþykkt, með leyfi forseta, „að kjósa nefnd manna, er falið verði að kanna möguleika á annars konar launakerfi fyrir sjómenn en nú gildir.“

Í ljósi þess sem ég hef þegar sagt má sjá að ekki hefur tekist að ná samkomulagi milli aðilanna sjálfra um að leita nýrra leiða, þótt þeir hafi rætt um það. Við sjálfstæðismenn teljum að sjálfsagt sé að Alþingi Íslendinga reyni með samþykkt þeirrar till., sem við leggjum hér til, að hjálpa til við að svo megi verða til þess að aðilar að samningum um kaup og kjör geti einhvern tíma losnað út úr þessu eilífa stríði, sem þeir hafa átt í á undanförnum árum fram yfir alla aðra.

Í þessari till. okkar er jafnframt, og er það meginmál lagt til að lögin um Verðlagsráð verði endurskoðuð. Í nál. er nokkuð ítarlega sagt frá störfum þessa ráðs og m. a. er þar getið um fimm helstu atriði sem það á að vinna eftir við verðákvarðanir sínar, en þau eru:

Í fyrsta lagi: Markaðsverð sjávarafurða erlendis og það verð, sem framleiðendur hér í landi fá í hendur, að teknu tilliti til sölu, flutnings og tryggingakostnaðar, auk útflutningsgjalda og greiðslna úr eða í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. — Þetta er eitt af fimm atriðum sem á að taka til greina í verðákvörðun þeirra.

Í öðru lagi á að taka til greina framleiðslukostnað og afkomu fiskvinnslunnar.

Í þriðja lagi útgerðarkostnað og afkomu útgerðarinnar.

Í fjórða lagi tekjur sjómanna og launaþróun í landinu yfirleitt.

Í fimmta lagi almennar aðstæður í þjóðarbúskapnum. Þegar við horfum á þessa fimm meginþætti og horfum svo á ábyrgð annarra launþega í landinu, þegar þeir gera sína kjarasamninga við vinnuveitendur, sjáum við að þær kröfur sem þarna eru gerðar til sjómanna og reyndar útgerðarinnar í heild eru út í loftið í dag, algerlega út í hött. Og þegar svo er komið, að oddamaður yfirnefndar, þegar hún tekur til starfa, er orðinn nánast eins og „jó-jó“ í höndum ráðh. og hann sjálfur veður fram og blandar sér í störf yfirnefndar og brýtur lög um leið virðist tímabært að gera nokkra breytingu á. Ég tel að það væri ekki óeðlilegt að hugsa sér að sáttasemjari ríkisins eða aðstoðarmaður hans í þessu starfi tæki við störfum oddamanns eða fimmta manns í yfirnefnd, þegar hún þarf að taka til starfa. Embætti sáttasemjarans er lögverndað og má því ætla að viðkomandi ráðherrar hiki við að grípa fram fyrir hendur slíks embættismanns.

Varðandi hugsanlegar breytingar á hlutaskiptum hafa menn verið að ræða leiðir að undanförnu. Hafa komið fram margar skynsamlegar hugmyndir um það á síðustu dögum, sem ég hef hlustað á með mikilli athygli. Ég hef t. d. haft í huga þá tillögu frá sjómanni, sem búinn er að taka laun sín samkvæmt okkar áratuga gömlu hlutaskiptum um margra ára skeið, en hann var með þá hugmynd að það mætti í stað krónu fyrir hvert kg, eins og nú er samið um, setja inn fasta verðmætistölu fyrir aflatonn ýmissa fisktegunda eftir gæðum. Síðan fengju sjómenn laun eftir fjölda landaðra tonna en verðmætistalan tæki breytingum með verðbótum annarra launþega. Þetta mundi nálgast það sem kallast bónuskerfi í fiskvinnslu. Þar fá allir sinn fulla bónus og laun án tillits til ástands á erlendum mörkuðum, hvort afli selst eða ekki. Með þessu væru sjómenn ekki að taka hlut úr tilbúnu fiskverði margfölsuðu, sem virðist oft og tíðum meginverkefni ýmissa ríkisstarfsmanna að vinna að. Reksturinn yrði að sjálfsögðu alfarið í höndum útgerðar. Þeir ráða þar öllu í dag og öllu um hann í samráði við sína viðsemjendur, ríkisstj., og þótt báðir þessir aðilar vilji láta sjómenn taka þátt í þeim kostnaði kemur það að sjálfsögðu ekki til greina meðan þeir vita ekkert um hvernig sá rekstur er og geta ekkert fylgst með honum.

Þetta er aðeins ein af þeim hugmyndum sem hafa komið fram. Að sjálfsögðu eru þær miklu fleiri. En við nm. sjálfstæðismanna í sjútvn. teljum að þetta séu þýðingarmikil atriði, sem hér hefur verið drepið á og er drepið á í sambandi við till. okkar um ákvæði til bráðabirgða, og teljum jafnframt að hv. þm., úr hvaða flokki sem þeir eru, ættu að geta samþykkt till. okkar og þannig stuðlað að því að leysa þetta sífellda og eilífa vandamál sem við er að eiga í sambandi við kaup og kjör sjómanna og skipti þeirra við útgerðina í landinu.

Við sjálfstæðismenn munum fylgja brtt. sem við höfum lagt fram. Einstakir þm. hafa áskilið sér rétt til að flytja og fylgja þeim brtt. sem koma fram og eru komnar fram. Við höfum ekki fengið nokkru að ráða um í hvaða formi þessi tillögugerð og þessir samningar hafa mótast og þeir eru alfarið á ábyrgð þeirra sem þar að standa. Munum við að öllum líkindum sitja hjá við afgreiðslu málsins.