03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 3. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Varðandi orð síðasta ræðumanns vil ég taka það fram, að í þessu bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna kemur ekki neitt fram um það hvort inn í 5 kr. verð pr. olíulítra erlendis er tekin sú niðurgreiðsla sem tekin er af óskiptu erlendis vegna olíukaupa. Ég geri ráð fyrir, ef þarna er um óniðurgreitt verð að ræða eins og það er á almennum markaði, að það fari nokkuð niður fyrir 4.85 þegar búið er að draga frá þann olíuskatt sem tekinn er af óskiptu erlendis við sölu þar. Þar utan kemur auðvitað ekkert fram hjá LÍÚ í þessu bréfi sú staðreynd, að olíuverð er á hraðri niðurleið, og það mun að sjálfsögðu koma miklu fyrr fram í höfnum í Vestur-Evrópu heldur en hér af mörgum ástæðum. Þau skip sem þar selja á næstunni munu þess vegna njóta þess í einu og öllu, sem allar spár segja til um og þegar er komið til framkvæmda, að verð á gasolíu og svartolíu fer stórlækkandi.

Þessar röksemdir frá LÍÚ breyta því í engu minni afstöðu í sambandi við þá brtt. við 2. gr. sem við fjórir hv. þm. flytjum að öðru leyti en því, að ég benti á það í minni framsöguræðu að það er á móti grundvallarstefnu Sjálfstfl. að hafa bein áhrif á kaup og kjör í gildandi kjarasamningum, ef ekki er um þjóðarnauðsyn að ræða.

Ég hef ekki mörg orð að segja um ræðu hæstv. sjútvrh. Ég tek undir það með honum að orðið er aðkallandi að afgreiða þetta mál. Það er þegar farið að vinna eftir því og það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að það gæti komið til framkvæmda þótt ekki væri orðið að lögum. M. a. þess vegna höfum við sjálfstæðismenn ekki lagt fram beinar brtt. um aðrar fjáröflunarleiðir sem hefði mátt fara til þess að afla þeirra fjármuna sem þarf til að standa undir hinum aukna olíukostnaði fiskiskipa.

En það var margt annað í ræðu hæstv. ráðh., sem vissulega hefði verið full ástæða til að gera hér ítarlega að umræðuefni, þó að ég geri það ekki vegna þess hversu áliðið er. Það kom auðvitað aldrei fram hjá mér að leysa ætti þá skerðingu, sem ég tel að ekki hafi enn verið bætt, nú með hækkuðu fiskverði. Ég tel hins vegar að menn hefðu átt að viðurkenna það að þessi skerðing hefði átt sér stað og hún væri óbætt, en mundi verða bætt þegar betur gengi hjá útgerðinni. Ég hef alltaf haldið því fram, að það bæri að viðurkenna það, að miklar tekjur undir vissum kringumstæðum hjá fiskimönnunum gætu haft þau áhrif í þjóðfélaginu að auka verðbólgu, ef ekki væri nokkurt aðhald á. Ég hef þess vegna alla tíð verið fylgjandi því og talið það óhætt, þegar miklir kúfar kæmu á þær tekjur, að taka af í nokkurs konar skyldusparnað og geyma um nokkurt tímabil í verðtryggðum sjóðum, þannig að það fé kæmi ekki út í verðlag strax og yki þar með verðbólguna.

En mér þykir satt að segja skrýtið það sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það væru launþegar í landi, sem gætu ekki sætt sig við meiri hækkun en sjómenn hefðu fengið núna og þá væntanlega áður fyrr. Hverjir eru þessir launþegar? Eru það forustumenn Alþýðusambands Íslands? Eru það forustumenn Verkamannasambands Íslands eða forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá þetta fram. Og um leið þá, að það verði einhvern tíma skorið úr um það af þessum mönnum og öðrum, hver mismunurinn á að vera. Eða eiga launin að vera hin sömu hjá fiskimönnum og mönnum sem vinna fastan jafnan vinnutíma í landi? Og hverjir hafa ákveðið það? Ég vil benda á að það eru ekki ýkja mörg ár síðan það var almennt viðurkennt hjá launþegahreyfingunni, að það væri engin goðgá þó fiskimenn væru með allt að 20% meiri meðallaun en sambærilegir launþegar í landi. En þetta hefur stórkostlega skekkst og nú er það orðið öfugt. Ég álít að þegar fleiri launþegastéttir eru teknar inn í dæmið í landi, þá séu fiskimenn, sérstaklega bátamenn, orðnir um það bil 20% undir þeim að meðaltali. Þetta tel ég rangt að farið, miðað við þá aðstöðu sem þessir menn búa við í sínu starfi.

Hæstv. ráðh. benti á að það hefði verið athugað mjög gaumgæfilega hvort ekki hefði verið hægt að draga eitthvað úr því 5.5% útflutningsgjaldi, sem nú er við lýði samkv. gildandi lögum. Og hann sagði: það þarf að skoða ítarlega, það fæst ekkert, það er hvergi lát á. Síðan upplýsir hann það í næsta orði að tekist hafi að ná 30 millj. út úr Tryggingasjóðnum. Það tókst að ná 30 millj. þar út til þess að lækka olíuverðið. Kannske það mætti nú bara minnka um 30 millj. kr. til frambúðar.

En hæstv. ráðh. benti á það líka að það er álitamál hvort 1% eigi að fara í Fiskveiðasjóð af útflutningsgjaldinu, enda finnst mér það næsta óeðlilegt að af sjómönnum sé verið að taka gjald, sem renni í sjóð, sem er svo nýttur af pólitískum ráðh. til þess að fjölga fiskiskipum í landinu, sem hefur bein áhrif á tekjumöguleika sjómanna. Ég held að það sé orðið tímabært að leggja þetta gjald niður, þá þyrfti ekki útflutningsgjaldið að hækka jafnmikið nú, og hafa þá til fyrirmyndar aðrar stéttir og aðra sambærilega sjóði, sem hæstv. ráðh. minntist einmitt á.

Hæstv. ráðh. upplýsti hér frekar um störf hlutaskiptanefndar, sem svo hefur verið kölluð. Ég fagna því að þetta mál er komið á rekspöl og ég heyri á honum að hann er hlynntur því, að þessari vinnu verði haldið áfram. Ég tek undir það með honum og styð að því. Ég held að einmitt brtt. okkar sjálfstæðismanna þriggja muni verða stuðningur við þetta starf, ef þingið kemur þar til líka og leggst á eitt með aðilum að greiða úr þessu máli. Og ég vil taka það fram, að þótt ég leggi það til að lög um verðlagsráð verði endurskoðuð, þá er fjarri mér að leggja til að það verði lagt niður. Ég átti sjálfur þátt í því að þau lög voru sett og í ýmsum brtt. við það á árunum eftir að lögin voru samþykkt. Ég hef nú bent á eina brtt., sem ég teldi sjálfsagt að koma fram, að það sé ekki svokallaður „jó-jó“ ráðh. sem sé í oddamannsstöðu heldur sé það sáttasemjari ríkisins eða fulltrúi hans. Hæstv. ráðh. hefur tekið vel í þessa till. og hefur rætt um að hann gæti hugsað sér að hún yrði samþykkt með nokkrum breytingum. Á það get ég vel fallist og ég tel að vel fari á því að almenningur í landinu, sjómenn og útgerðarmenn fái að heyra að það sé vilji hjá hv. Alþingi til að leysa úr þessum vanda, sem allir viðurkenna að óneitanlega er til staðar í samskiptum aðilanna og kannske samskiptum þeirra við aðra þegna þjóðfélagsins.