03.02.1983
Neðri deild: 34. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt. Mér finnst þetta vera skemmtileg uppákoma hjá hv. 4. þm. Vesturl. og af fyrri reynslu lýsi ég ánægju yfir þessari yfirlýsingu hans. Ég vil endurtaka það sem kom fram í framsöguræðu minni, að þetta viðkomandi sveitarfélag mun að sjálfsögðu halda áfram samskiptum við önnur sveitarfélög og taka á sig vissa fjárhagslega byrði til þess að sinna þeim sameiginlegu verkefnum sem þörf er á á viðkomandi svæði. Það er yfirlýst. Ég vil benda á að réttindi slík sem Alþingi veitti árið 1974 Dalvík, Grindavík, Bolungarvík, Eskifirði, Seltjarnarnesi og síðar Selfossi hafa ekki dregið úr þeirri samvinnu sem viðkomandi sveitarfélög hafa átt við minni sveitarfélög í kringum sig nema síður væri. En þarna er um að ræða réttindamál sem hlýtur að vera öllum ljóst. Þarna er um að ræða 1200 manna athafnabæ, sem þarf að fá daglega afgreiðslu á vissum opinberum þjónustuþáttum, sem hann hefur ekki fengið til þessa en getur fengið með slíkri lagabreytingu. Þess vegna er um þetta sótt og hefði átt að vera löngu búið að fá þessi réttindi. Endurskoðun sveitarstjórnarlaga stendur nú yfir og m. a. ég á sæti í þeirri nefnd sem að henni vinnur. Ég vænti þess að innan tveggja ára fáist niðurstaða úr því mikla starfi, hver sem endalok þess verða á annan hátt.