03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

53. mál, umferðarmiðstöð í Borgarnesi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., er flutt af öllum þm. Vesturl., en hún er dálítið öðruvísi en aðrar tillögur sem við flytjum. Hin ákveðna fasta uppsetning er, að 1. þm. okkar sé málsvari okkar og sé 1. flm. till., og er það frekar í þeim dúr að við séum að flytja beiðni einhverra aðila úr kjördæminu. Þessi till. er unnin og flutt að forgöngu 1. flm., Davíðs Aðalsteinssonar.

Ég fagnaði því mjög þegar Davíð kom til mín og bauð mér að vera meðflm. á þessari till. vegna þess að ég taldi að með því væri verið að hreyfa máli sem ég hef haft mikinn áhuga á og var mitt fyrsta mál hér í þinginu. Þegar ég kom hingað inn 1971 flutti ég till. mjög í þessum anda og fékk þá till. samþykkta. Hún var um könnun á þjónustu sérleyfisbifreiða, þ. e. fyrst og fremst út frá Borgarnesi. En þótt till. hafi verið samþykkt var ekki eitt eða neitt gert í sambandi við tillgr. frá hendi ríkisstjórnarinnar sem henni var vísað til.

Ég fagna því að hæstv. samgrh. er hér kominn og tel það mjög miður að hann skyldi ekki sitja hér undir ræðu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar. Ég gerði einmitt ráð fyrir að þm. hefði haft að vissu leyti stuðning samgrh. að flutningi þessa máls til þess að tryggja að það fengi einhvern framgang.

Tillgr. er svona: „Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að hlutast til um athugun á breyttu skipulagi fólksflutninga með tilliti til þess að komið verði á fót umferðarmiðstöð í Borgarnesi.“

Ég sé ekki ástæðu til að bæta mörgum orðum við það sem hv. þm. Davíð Aðalsteinsson sagði um þetta, en þó tel ég ástæðu til að nefna það, að á Íslandi er raunverulega hvergi aðstaða til þjónustu sérleyfisbifreiða. Ég get varla kallað þá umferðarmiðstöð sem byggð hefur verið í Reykjavík aðstöðu, a. m. k. ekki fyrir þá sem vinna á sérleyfisbifreiðunum né heldur fyrir farþega svo að nokkru nemi. Það má þó segja að komið hafi verið upp vissum anga af bissnessaðstöðu. Bílstjórarnir þurfa að sinna afgreiðslu sinna bifreiða án þess að það sé nokkur aðstaða fyrir hendi til þess að létta þeirra störf. Í hvaða veðri sem er þarf að taka út flutning og farþega án þess að þar sé nokkur vörn fyrir veðrum. Eini staðurinn á Íslandi þar sem slíku hefur verið komið upp er á Keflavíkurflugvelli. Það er líka eini staðurinn sem talað er um að þurfi að endurbyggja með nýja aðstöðu. Ég tel að þegar rætt er um að koma upp umferðarmiðstöð sé þessi þáttur, að farþegum og þeim sem fyrir þá vinna, þ. e. bílstjórum, verði sköpuð sæmileg aðstaða við afgreiðslu og þjónustu á afgreiðslustöðvum, of lítið ræddur.

Ég er þess vegna dálítið undrandi, þegar verið er að skipuleggja aðstöðu fyrir umferðarþjónustu við brúarsporðinn í Borgarnesi, að þar sé ekki hugsað fyrir uppbyggingu sem þessari. Ég hanna mjög að það skuti ekki hafa verið gert og tel að einmitt í Borgarnesi þurfi að byggja upp mjög góða þjónustuaðstöðu til að afgreiða rúturnar og aðstöðu fyrir farþega svo að þeir geti beðið þar eftir skiptirútum, en þurfi ekki að hanga í göngum hótels eða bíða utan dyra.

Það má kannske um leið og rætt er um þetta benda á að þjónusta á vegum á þessu svæði er hvergi til staðar þar sem sérleyfisbifreiðar stansa. Við sem förum alloft fram hjá vegamótunum að Akranesi undrum okkur á því að þar skuli ekki hafa verið komið upp aðstöðu til þjónustu við farþega og sérleyfisbifreiðar fyrir löngu. Mjög æskilegt væri að slíkri aðstöðu væri komið upp. (GJG: Hvaða aðstöðu ert þú alltaf að tala um?) Þá aðstöðu sem ég tel að þurfi að vera tengd sérleyfisbifreiðum, tengd þeim stað þar sem sérleyfisbíll stoppar, sæmilega biðaðstöðu fyrir farþega, ekki neitt líka þeirri aðstöðu sem er hér uppi í umferðarmiðstöð. Þar er einn lítill bekkur í kringum peningakassa, sem hægt er að setjast á, ellegar þá að fólk fari inn í veitingahúsið. Ég tel að farþegi eigi að geta átt kost á því að bíða eftir rútu án þess að setjast inn í veitingahús eða án þess að hann sé í miðjum gangveginum eins og er á umferðarmiðstöðinni hér.

Ég tel að bæði farþegi og bílstjóri eigi heimtingu á því að fyrir hendi sé yfirbyggt hús þar sem afgreiðsla bílanna fari fram. Það liggur svo í augum uppi. Ég held að það geti varla tilheyrt þessum tíma að bjóða upp á þjónustu sem þessa úti undir beru lofti. Umferðarmiðstöðin, blessuð, hér í Reykjavík er léleg að þessu leyti til, jafnframt því að staðsetningin er furðuleg. Það er eins og hún hafi dottið þarna óvart niður, henni hafi ekki verið komið fyrir út frá því hvað væri heppilegt fyrir farþega sem þyrftu að nota hana. Fyrst ég nefni umferðarmiðstöð hér í Reykjavík úf frá þessu sjónarmiði tel ég að umferðarmiðstöð í Reykjavík eigi að vera staðsett einhvers staðar við Elliðaárnar, t. d. þar sem Fáksaðstaðan var áður eða einhvers staðar ekki mjög langt frá því svæði, einmitt í beinum tengslum við aðalumferðaræðar Reykjavíkurborgar og umferðaræðar út úr og að borginni. En að henni sé troðið niður á úthjara umferðar til vesturbæjarins, það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur og gerir ekki annað að verkum en lengja leið frá Reykjavík og að Reykjavík um 10–15 mínútur, og lengja leið flestra þeirra farþega sem þurfa að nota þessa umferðarmiðstöð, þ. e. flestra eða allra þeirra farþega sem í austurbænum eiga heima, og auka þeirra kostnað verulega. Mér er kunnugt um að vissir sérleyfishafar á Reykjavíkursvæðinu voru mjög mótfallnir þeirri staðsetningu sem ákveðin var á umferðarmiðstöðinni, en á það var ekki hlustað af borgaryfirvöldum.

Ég vil endurtaka það, að ég fagna þeirri till. sem hér er til umr. og vona að eftir samþykkt hennar verði tekið til höndum og farið að vinna að þessu máli. Það verði reynt að skipuleggja betur sérleyfisferðirnar en gert hefur verið hingað til og það verði ekki látið eiga sér stað að hver rútan á eftir annarri fari um Hvalfjörð hálfnýtt. Ég tel að það sé eðlilegt að í Borgarnesi verði aðalumferðarmiðstöð, þ. e. það verði ákveðnar rútuferðir frá Reykjavík, eitt sérleyfi frá Reykjavík í Borgarnes. Það er hægt að hugsa sér að á dag verði þá þrjár til fjórar ferðir í staðinn fyrir að þessa leið fari nú fimm rútur á einum og sama klukkutímanum. Með því að ferðunum verði dreift yrði þjónustan aukin. Út frá Borgarnesi aki síðan rútur vestur á Snæfellsnes, vestur í Dali og norður í land. Endastöð aðalumferðarleiðanna verði í Borgarnesi og síðan eitt sérstakt sérleyfi frá Borgarnesi til Reykjavíkur. Það gefur auga leið að með slíkri skipulagningu er hægt að hafa þjónustuna á þessu svæði mun betri, margfalt betri en nú er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en eins og ég sagði áðan vænti ég þess, að það verði tekið betur á og unnið ákveðnar að þessum málum eftir samþykkt þessarar till. og hún fái aðra afgreiðslu en sú till. sem samþ. var frá mér hér árið 1972 og ég hef ekki orðið var við að hafi fengið nema afgreiðslu þó að vísað hafi verið til hæstv. ríkisstj. til fyrirgreiðslu.