03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

53. mál, umferðarmiðstöð í Borgarnesi

Fm. (Davíð Aðalsteinsson:

) Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni hafi gengið gott eitt til með þessari tölu.

Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að fjalla um þessa till. frekar. Það mátti skilja á hv. þm. að hann reyndi á tímabili að gera lítið úr till. Ég vil ekki túlka hans málflutning á þann veg. Auðvitað eru mál mismunandi stórvægileg, það gefur auga leið. Ég hef stundum sagt að flutningur þáltill. hér væri e. t. v. af því tagi að einstaka þm. væru að komast hjá því að vera kviksettir inni í þessari stofnun. Ég veit ekki hvort hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er sammála mér um það.

Hann spurði hvort till., sem hér er á ferðinni, eða sú ráðagerð, sem þar er tíunduð, hafi verið sett fram og efni hennar að beiðni einhvers eða einhverra sveitarfélaga, einstaklinga eða hópa. Ekki er hægt að segja það. En ég vil í þessu sambandi minna hv. þm. á að orð eru til alls fyrst og þm. leyfist að hafa frumkvæði.

Varðandi þáltill. almennt ætla ég ekki að fara að fjölyrða, flutning þeirra eða meðferð. Ég er að ýmsu leyti sammála hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni um meðferð þeirra. Hins vegar vil ég taka það fram, að þessi leið er að ýmsu leyti mjög eðlileg þegar hv. alþm. vilja vekja máls á einhverju því sem þeir hafa áhuga á hvort sem það víkur sérstaklega að þeirra heimabyggð eða það eru till. sem telja má á landsvísu.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Ég vænti þess að þessi till., sem hér er til umr., fái eðlilega meðferð.