03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

53. mál, umferðarmiðstöð í Borgarnesi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það voru að vísu ákveðin ummæli hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni sem fyrst og fremst ullu því að ég finn mig tilknúinn að taka til máls um þessa þáltill., sem ég tel fyrir ýmissa hluta sakir gagnmerka.

Ég verð nú að segja, þveröfugt við það sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði, að ég er því í aðra röndina feginn að verulegur hluti af þeim þáltill. sem samþykktar hafa verið í hv. Sþ. skuli fá að rykfalla í skúffum í ráðuneyti. Ég hirði ekki um að skýra það miklu nánar. Ég fæ ekki heldur séð að það gefi þáltill. gildi að efni hennar hafi kviknað í höfði sveitarstjórnarmanna. Þá sjaldan hv. þm. dettur eitthvað nytsamlegt, jafnvel skemmtilegt og skrýtið, í hug finnst mér sjálfsagt að þeir flytji um það þáltill. — ennþá fremur þó þegar um er að fjalla mál sem ég tel að hafi meginþýðingu fyrir landsbyggðina.

Ég vildi bara óska þess, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gerði sér grein fyrir því hvílík verðmæti fara forgörðum í þeim milljónafyrirtækjum sem langferðabifreiðarnar okkar, rúturnar, eru orðnar, fyrst og fremst vegna þess að það er ekki til aðstaða að geyma þær að næturþeli, verja þær fyrir veðrum, fyrir skemmdum af völdum m. a. særoks. Ég hygg að það kunni að stafa af því, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á sjaldnar en við ýmsir hverjir leið með langferðabílunum okkar að hann hefur ekki veitt því athygli í hvers konar ástandi bílstjórarnir mega taka við þessum bílum fyrir allar aldir að morgni dags áður en lagt er upp í erfiða ökuferð, og kem ég nánar dálítið að því síðar.

Ég hef grun um að meginástæðan fyrir því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson tekur sig til og fer að ýfast við þessari till., ekki hallmæla eða gera lítið úr þessari þáltill., því það gat hann ekki, heldur fer að ýfast við henni, sé sú, að hér er um Borgarnes að ræða.

Við höfum, og ég verð að játa að ég tók þátt í því á sínum tíma, amast dálítið við stórum fjárveitingum í brúna yfir Borgarfjörð — brúna sem vísar veginn og leiðir veginn inn í Borgarnes — þar sem ég taldi að of miklu fé væri varið til þeirra framkvæmda samanborið við það fé sem veitt var m. a. til samgöngubóta í mínu kjördæmi. Svo heyrir maður þessa sömu menn og ég hef ekki tekið þátt í því, — þessa sömu menn sem mest öbbuðust upp á þessa merkilegu, ég viðurkenni það núna, samgöngubót, sem brúin var, vera að skopast að því þótt víðs vegar um landið standi skilti, sem á stendur kannske: 150 km til Borgarness, 14 km til Borgarness, 600 km til Borgarness eða, eins og hérna upp á Ártúnsbrekkunni, 147 km til Borgarness, og eru að kvarta undan því að í Borgarnesi skuli hvergi vera skilti sem stendur á: 147 km til Reykjavíkur, heldur aðeins: Velkomin til Borgarness.

Ég tel þá ekki aðeins þörf fyrir umferðarmiðstöð í Borgarnesi, heldur m. a. aðstöðu til að þrífa þau dýrmætu tæki sem bílarnir eru. Mér skilst að verð einnar nýtísku rútu sé nú komið upp í 1.8 millj. nýkróna. Það er engin smáræðis upphæð. Við vitum að í fyrsta lagi er höfuðnauðsyn, til þess að halda þessum bílum í lagi, að geta hýst þá og þvegið þá, og má út af fyrir sig segja að það sé eitt af hinum minni vandamálum hvernig sjávarseltan sest á rúður þessara bíla þar sem þeir standa og bíða brottferðar. Það sem veldur fyrst og fremst stórtjóni á þessum bílum er ryðið. (GJG: Á rútubílunum?) Alveg gasalega, Guðmundur, sérstaklega hér á Suðvesturlandi þegar vindur stendur af hafi. Það hef ég fyrir satt og ber fyrir mig sérfræðinga í þeirri grein, — þá menn sem stúdera það og hafa kynnt sér málmtæringu hér á Suðvesturlandi. Þar bætir álið ekkert um, þó ekki setjist ryð í það, það tærist einnig af völdum sjávarseltu. Við getum reiknað með því að endingartími þessara bíla sé um það bil 1/3 hluti af því sem verið hefði ef hægt hefði verið að verja þessa bíla milli notkunar í rokheldum húsum og seltuheldum húsum. Þetta snertir náttúrlega ekki síður bílana hérna á Reykjanessvæðinu, hérna megin við Faxaflóann. Hér er um að ræða trassaskap sem veldur okkur peningalegu stórtjóni og meðferð á farþegum er fyrir neðan allar hellur.

Ég skil vel að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson megi ekki til þess hugsa að þurfa að skipta um bíl í Borgarnesi ef hann er að flýta sér til Stykkishólms, það mundi náttúrlega tefja hann, en ég fullyrði að það er meira en tímabært að taka þessi mál, þ. e. fólksflutninga á landi, til mjög alvarlegrar athugunar og búa betur bæði að fólki og tækjum.