03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

49. mál, framkvæmd skrefatalningarinnar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt nokkrum þm. úr Alþfl., Sjálfstfl. og Alþb. að flytja till. til þál. á þskj. 50 um úttekt á framkvæmd skrefatalningarinnar. Það er nú vel á annað ár liðið frá því að skrefatalningunni var komið á og því ætti að vera hægt að draga nokkrar ályktanir af framkvæmdinni. Nokkrar umræður urðu um skrefatalninguna á síðasta þingi í tilefni þáltill. þess efnis að áður en skrefatalningin kæmi til framkvæmda yrði könnuð afstaða símnotenda til þess hvor leiðin yrði farin til að jafna símakostnað landsmanna, skrefatalning innanbæjarsímtala eða hækkun á gjaldskrártaxta umframskrefa. Till. þessi náði ekki fram að ganga og mætti mikilli andstöðu margra þm. Kjarninn í gagnrýninni sem fram kom vegna þeirrar till. var að flm. till. voru ásakaðir um að bregða fæti fyrir jöfnun símkostnaðar í landinu, þeir vildu ekki jöfnun. Auðvitað var það fjarstæða að halda slíku fram því hér var einungis um að ræða afstöðu til mismunandi valkosta við að jafna símkostnað.

Að mati okkar flm. var það raunhæfari leið til að jafna símkostnaðinn að hækka gjaldskrártaxta umframskrefa en að koma á skrefatalningu. Við bentum á að hækkun gjaldskrártaxta umframskrefa gæfi miklu öruggari tekjur til að standa undir jöfnun símkostnaðar. Hefur nú komið í ljós að ábendingar okkar höfðu við rök að styðjast.

Í grg. Pósts og síma fyrir beiðni um hækkun gjaldskrár fyrir símaþjónustu frá 1. ágúst s. l. er gert ráð fyrir að greiðsluhalli ársins verði með óbreyttri gjaldskrá 41.7 millj. kr. Bendir Póstur og sími í þeirri grg. á tvær ástæður fyrir þessum greiðsluhalla. Í fyrsta lagi hafi orðið verulegt tekjutap í kjölfar skrefatalningarinnar 1. nóv. 1981, þ. e. þegar skrefatalningunni var komið á í þéttbýli og langlínutaxtar lækkaðir frá sama tíma um allt að 30% að meðaltali. Í öðru lagi bendir Póstur og sími á að ýmsir kostnaðarliðir hafi hækkað nokkuð frá fyrri áætlunum og útgjaldaforsendur því raskast. Einnig var upplýst í sömu grg. að Póstur og sími hefði áætlað að skrefatalningin mundi þýða óbreyttar tekjur hjá stofnuninni en annað hefði komið á daginn. Kom fram í grg. að nú liggur fyrir rúmlega 13% fækkun umframskrefa sem samsvarar 22.8 millj. kr. tekjutapi á ársgrundvelli. Til þess að mæta þessu tekjutapi hefur Póstur og sími nú orðið að hækka gjaldskrár sínar, sem ekki er sýnilegt annað en komi niður á öllum símnotendum, einnig langlínunotendum.

Ef miðað er við áðurnefndar tillögur Pósts og síma má ætla að 4% heildarhækkun póst- og símgjalda gefi sama og 13% hækkun skrefagjalds, sem mundi taka til baka 1/3 hluta þeirrar 30% meðallækkunar sem gerð var á langlínutöxtum frá 1. nóv. 1981. Auk þess er ljóst að þeir sem ekki nota umframskref verða einnig að standa undir tekjutapinu vegna skrefatalningarinnar þar sem almenn hækkun, bæði á fastagjaldi og umframskrefum, varð á gjaldskrá Pósts og síma 1. ágúst s. l. um 18% til að standa undir hluta hallans. Markmiðið með skrefatalningunni hefur því ekki náðst því jöfnunin varð ekki sú sem að var stefnt. Í grg. með þessari þáltill. um úttekt og framkvæmd skrefatalningarinnar eru dregin fram rök sem eru fyllilega þess eðlis að endurskoða ber framkvæmd skrefatalningarinnar og athuga hvort ekki séu aðrar sanngjarnari og réttlátari leiðir til að ná fram jöfnun símkostnaðar.

Í fyrsta lagi er bent á að hún skili ekki Pósti og síma nauðsynlegri tekjuaukningu til að standa undir lækkun langlínugjalda vegna þess að símanotendur hafa hafnað henni á þann hátt að minnka mikið notkun símans meðan skrefatalningin er í gangi.

Í öðru lagi verður að ætla að Póstur og sími verði að standa undir lækkun langlínugjalda með almennri gjaldskrárhækkun eins og fram hefur komið í grg. Pósts og síma til gjaldskrárnefndar. Hún er ekki réttlætanleg ef á það er litið að undir henni standa bæði langlínunotendur, sem leikurinn snýst þó um að lækka símkostnaðinn hjá, og einnig þeir sem lítið nota síma, þ. e. þeir sem nota aðeins innifalin skref í ársfjórðungsgjaldi. Benda má á að miðað við upplýsingar Pósts og síma á s. l. ári eru u. þ. b. 21% notenda á höfuðborgarsvæðinu og 22% notenda dreifbýlisins sem nota aðeins innifalin skref. Þeir notendur slyppu við slíka atmenna gjaldskrárhækkun ef hækkunin kæmi aðeins fram í hækkun gjaldskrártaxta umframskrefa.

Í þriðja lagi kemur skrefatalningin illa niður á gömlu fólki og sjúku og þeim sem ekki eiga heimangengt og helst þurfa að nota símann á þeim tíma sem skrefatalningin er í gangi en veigra sér við því vegna hættu á umframkostnaði.

Í fjórða lagi má benda á að það er í hæsta máta óeðlilegt að stjórnvaldsákvörðunum sé beitt til þess í raun að þvinga fólk til að nota símann á vissum tímum sem oft henta ekki þörfum þess. Hjá því er hægt að komast með annarri leið, sem bent hefur verið á, sem bæði nær því markmiði sem er að stefnt, að jafna símkostnað landsmanna, og er einnig sanngjarnari og réttlátari.

Í fimmta lagi er það nú staðfest, sem andstæðingar skrefatalningarinnar hafa margoft haldið fram, að skrefatalningin gefur miklu óvissari tekjur en gjaldskrárhækkun umframskrefa til að mæta lækkun langlínugjalda, en gjaldskrárhækkun varð 1. ágúst s. l. til að standa undir hluta hallans og 19% 1. nóv. s. l.

Í þessari þáltill. er ekki lagt til að fella niður skrefatalninguna á þessu stigi heldur að fram fari úttekt á framkvæmd hennar og samgrh. skipi nefnd til þess. Það er ljóst að mjög skiptar skoðanir eru á meðal þm. um réttmæti skrefatalningarinnar og ekki síst að hún nái því markmiði sem að var stefnt. Til þess verði skipuð fimm manna nefnd, sem í eigi sæti einn fulltrúi skipaður af samgrn., og verði hann formaður, einn tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn tilnefndur af borgarstjórn Reykjavíkur og einn af Pósti og síma.

Eins og fram kemur í þáltill. á verkefni nefndarinnar að vera:

1. Að leita orsaka fyrir verulegum halla Pósts og síma í kjölfar skrefatalningarinnar.

2. Að kanna að hve miklu leyti hallinn kemur til með að minnka þá jöfnun símkostnaðar sem fyrirhuguð var.

3. Að kanna með hvaða hætti Póstur og sími hefði fengið bættan tekjumissinn vegna skrefatalningarinnar.

4. Að kanna hvaða aðrar leiðir en skrefatalning innanbæjarsímtala komi til greina til að ná sömu jöfnun símkostnaðar og fyrirhuguð var með skrefatalningunni.

Að lokinni slíkri úttekt mundi Alþingi fá málið á ný til umfjöllunar og þá yrði metið hvort ástæða sé til að fella niður skrefatalninguna og setja fram nýjan valkost sem nær því markmiði að jafna símkostnað landsmanna án þess að breyta heildartekjum Pósts og síma.

Herra forseti. Það er von mín að við umfjöllun um þessa till. á hv. Alþingi verði því ekki enn einu sinni haldið fram að þeir þm. sem að till. standa séu að bregða fæti fyrir jöfnun símkostnaðar landsmanna. Því það er alrangt. Þvert á móti er hér bent á að skrefatalningin hafi ekki skilað tilættuðum árangri, jafni ekki símkostnað landsmanna eins og að var stefnt, og því sé nauðsynlegt að taka málið að nýju upp á Alþingi. Ég er sannfærð um að enginn flm. þessarar þáltill. er á móti jöfnun símkostnaðar. Þvert á móti viljum við leita réttlátra og sanngjarnra leiða til að ná fram jöfnun sem nær því markmiði sem að var stefnt með skrefatalningunni.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til allshn.