03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

49. mál, framkvæmd skrefatalningarinnar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það var á orðum hæstv. samgrh. að heyra að hann væri tiltölulega ánægður með framkvæmd skrefatalningarinnar. Það var ekki að heyra, a. m. k. gat ég ekki heyrt það á hans orðum, að fram hafi komið að Póstur og sími hafi orðið fyrir tekjutapi vegna skrefatalningarinnar eða um fækkun skrefa hafi verið að ræða. Sú till. sem hér er flutt er mikið byggð á hvernig framkvæmdin hafi tekist fram til 1. nóv. s. l. og ekki síst þeim upplýsingum sem flm. fengu, þ. e. þeirri grg. sem Póstur og sími lagði fram til samgrn. og gjaldskrárnefndar sem rökstuðning fyrir hækkun á gjaldskrá Pósts og síma 1. ágúst s. l. Ég tel rétt að vitna orðrétt í þá grg., með leyfi forseta, en þar kemur eftirfarandi fram hjá Pósti og síma í bréfi til samgrn.:

„Nú hefur verið gerð ný greiðsluáætlun fyrir árið 1982, dags. 7. júlí 1982, þar sem fram kemur m. a. að greiðsluhalli ársins 1982 verður með óbreyttri gjaldskrá um 41.7 millj. kr., en samkv. útreikningi gefur hvert prósentustig í gjaldskrárhækkun 1. ágúst n. k. fyrir símaþjónustu og 1. sept. fyrir póstþjónustu um 1.4 millj. kr. á ári. Þarf því 30% gjaldskrárhækkun til þess að mæta þessum greiðsluhalla.“ Síðan segir orðrétt: „Þegar skrefatalning var sett á í þéttbýli 1. nóv. s. l. voru langlínutaxtar frá sama tíma lækkaðir verulega eða um 30% að meðaltali. Var talið að þessi breyting mundi þýða sem næst óbreyttar tekjur hjá stofnuninni, en mjög erfitt er að gera nákvæma útreikninga varðandi hluti sem þessa. Nú liggur fyrir veruleg fækkun umframskrefa innanlands,“ segir Póstur og sími. Hér er það viðurkennt að fyrir liggi veruleg fækkun umframskrefa innanlands eða rúmlega 13%, sem hefur orðið við þessa breytingu, eða um 40 millj. skrefa á ári sem samsvarar 22.8 millj. kr. á ársgrundvelli. „Nauðsynlegt er að bæta stofnuninni þennan tekjumissi án þess að það sé talin gjaldskrárhækkun heldur leiðrétting gjaldskrár.“ Og í bréfi til gjaldskrárnefndar, sem undirskrifað er af Steingrími Hermannssyni, kemur fram eftirfarandi með leyfi forseta:

„Í erindi sínu bendir Póst- og símamálastofnun á a. m. k. tvær ástæður fyrir þessum yfirvofandi greiðsluhalla stofnunarinnar. Í fyrsta lagi hefur orðið verulegt tekjutap í kjölfar þeirrar breytingar á símagjaldskrá stofnunarinnar er gerð var í nóvember s. l. þegar skrefatalningu var komið á í þéttbýli og langlínutaxtar lækkaðir frá sama tíma um allt að 30%.“ Hér lýsir hæstv. samgrh. sig tiltölulega ánægðan með framkvæmd skrefatalningarinnar, en í þessu bréfi, sem undirskrifað er af honum er viðurkennt tekjutap vegna skrefatalningarinnar. Ég tel að skrefatalningin hafi hiklaust misheppnast þegar fram kemur að það er verulegt tekjutap hjá Pósti og síma í kjölfar skrefatalningarinnar og Póstur og sími telur sig þurfa að fá tekjutapið bætt með gjaldskrárhækkun. Ég tel líka að skrefatalningin hafi misheppnast, þar sem hún átti að verða til þess að bæta fólki úti á landsbyggðinni kostnað vegna símþjónustu, þegar það þarf líka að bera þennan halla uppi með gjaldskrárhækkun.

Hæstv. ráðh. telur ekki ástæðu til að skipa þessa nefnd. Ég tel ástæðu til að skipa nefndina og að úttekt verði gerð á framkvæmd skrefatalningarinnar. Það má vel vera að þær upplýsingar sem hæstv. samgrh. hefur nú frá Pósti og síma sýni fram á að frá því að gjaldskrárbeiðnin var lögð fram í ágúst hafi þetta breyst á einhvern hátt þannig að tapið sé ekki eins mikið og það var þá. Um þetta hef ég ekki upplýsingar, svo að ég tel nauðsynlegt að þm. fái greinargerðir og rökstuðning Póst- og símamálastofnunar fyrir gjaldskrárhækkunum, sem urðu 1. nóv. s. l., að mig minnir um 18 eða 19%, og síðan núna 1. febr., svo að fram komi hve mikinn hluta þeirra hækkunar, sem varð 1. nóv. og 1. febr., má rekja beint til skrefatalningarinnar.

Ég mun óska eftir því að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar, sem ég á sæti í, fái þær upplýsingar sem ég hér nefni, þ. e. greinargerð og rökstuðning Póst- og símamálastofnunar fyrir hækkun sem varð á símakostnaði 1. nóv. og 1. febr. En ég vil segja það, að ég varð fyrir vonbrigðum með þau svör ráðh. að hann telji ekki ástæðu til að skipa þessa nefnd, sérstaklega þegar fyrir liggur í gögnum að það hefur orðið verulegt tekjutap í kjölfar skrefatalningarinnar.