03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

49. mál, framkvæmd skrefatalningarinnar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að segja örfá orð í sambandi við þetta mál. Þannig vildi til að þetta mál var til umræðu á fundum fjvn. s. l. haust þegar verið var að ræða um fjármál Pósts og síma. Kom þá í ljós í sambandi við þá þáltill. sem hér er til umr., að sú grg. sem fylgir þáltill. er í mótsögn við sjálfa túlkun till. Það kom einnig í ljós í þessum umræðum að einn meðflm. till. hafði alls ekki lesið grg. þáttill. Þær upplýsingar sem póst- og símamálastjóri gaf sönnuðu hið gagnstæða við það sem sagt er hér í grg. og raunar kom fram að hluta til í ræðu hv. frsm. Þær upplýsingar sem gefnar voru í sambandi við áhrif skrefatalningarinnar sem slíkrar virka jákvætt fyrir Póst og síma en ekki öfugt.

Jafnframt þessu er það ekkert vafamál að þessi breyting, skrefatalningin, varð til þess að verulegur árangur náðist þá þegar í áttina að jöfnun símkostnaðar, sem er náttúrlega aðalatriðið. Það finnst mér vera meginmálið í þessu öllu saman, að þessi aðferð, sem upp var tekin, hefur verkað þannig og gerði það strax, að hún varð til þess að ná þeim umtalsverða árangri sem sannanir liggja fyrir um í tölum, sem ekki verða hraktar. Þetta finnst mér ákaflega mikilvægt mál, ekki síst þegar maður hefur þá grundvallarskoðun, sem raunar hefur komið fram áður hér í umr. á hv. Alþingi, að algjör jöfnun símgjalda um landið sé það sem stefnt skal að. Það er það réttlætismál sem allir íbúar landsins eiga rétt á. Og þessi aðferð sem er byggð á alþjóðlegri reynstu, sannast hér að vera það vopn í þessu sem náði strax árangri miðað við allt annað sem reynt hefur verið í þessum málum. Auðvitað þarf að halda áfram að vinna að þessu og lenging skrefa í langlínusamtölum er vissulega rétt spor í þessum málum.

Ég vildi ekki láta hjá líða, af því að ég tók til máls í þessu máli, að minna á eitt stærsta framfaraskrefið sem ég tel að hafi verið stigið á myndarlegan hátt með samþykkt Alþingis, þ. e. lagningu sjálfvirks síma um landið allt eftir 5 ára áætlun. Þetta er gífurlega stórt framfaramál, sem þegar er farið að gæta í auknu öryggi fyrir íbúa þessa lands og aukinni þjónustu, þó að langt sé í land að það sé komið til allra, en innan tveggja til þriggja ára verður þetta orðið að veruleika. Í sambandi við þetta mál tel ég ástæðu til að minna á það enn, sem raunar hefur verið minnt á hér áður í umr. um þessi mál, að framkvæmd þessa atriðis hefur valdið talsverðum truflunum, aðferðin við að koma þessu á. Þar á ég við hinar svokölluðu hnútstöðvar, sem auka á vissan ójöfnuð í þeim héruðum þar sem Póstur og sími notar þetta millistig. Um þetta hefur verið rætt og þetta þarf að jafna út um leið og gengið er að því að ná algerri jöfnun símgjalda. Það þarf að ná því í áföngum með því að ákveða að sama gjald og sama skrefalengd verði innan hvers svæðis.

Ég vil í leiðinni minna á að það er ýmisleg gagnrýni uppi höfð á þessa ágætu stofnun Póst og síma. Sumt er á misskilningi byggt, en sumt á rétt á sér. Við erum væntanlega allir hv. þm. sammála um það, að auka þarf þjónustu í sambandi við þennan mikilvæga þátt í okkar þjóðfélagskerfi. Við þurfum að fá aukna þjónustu. Það hefur komið fram ýmis réttmæt gagnrýni á þessa framkvæmd. Ég tel að það þurfi að vinna skipulega að því að bæta þessa þjónustu og samræma hana nútíma kröfum á flestum sviðum. En aðalatriðið er að þetta mál, skrefatalningin, hefur orðið til þess að ná á skömmum tíma verulegum árangri í því sem mestu máli skiptir: að jafna símakostnaðinn í landinu hvort sem við búum í þéttbýli eða dreifbýli. Það er mál málanna.