08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

145. mál, votheysverkun

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur lagt fram hér fsp. í þremur töluliðum um votheysverkun. Tveir fyrstu tölul. fsp. eru að miklu leyti shlj.:

„1. Hvað hefur verið gert til að kynna bændum reynslu þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að mestu eða öllu leyti á votheysverkun?

2. Hafa bændum verið kynntar nýjungar og tækniframfarir í votheysverkun og votheysfóðrun?“

Landbrn. hefur óskað umsagnar Búnaðarfélags Íslands um þessa þætti fsp., en Búnaðarfélag Íslands fer með upplýsingamiðlun í landbúnaði með ráðunautaþjónustu, bæði ráðunauta Búnaðarfélags Íslands og eins ráðunauta búnaðarsambandanna. Í svari Búnaðarfélags Íslands, sem er stutt mörgum fylgigögnum og skrá yfir ritgerðir og greinar um þetta efni, segir m. a. varðandi 1. tölul:

„Margt hefur verið gert til þess að kynna bændum reynslu þeirra sem byggt hafa heyöflun sína á votheysverkun. Sumt af því kemur fram í yfirliti því sem fylgir hér með um störf heyverkunarhóps Búnaðarfélags Íslands og greinar um heyverkun. Héraðsráðunautar og ráðunautar Búnaðarfélagsins hafa notað þau tækifæri sem bjóðast í samtölum við bændur og á fundum til að kynna votheysverkun. Ekki er óalgengt að farnar séu kynnisferðir bænda milli héraða, og er þá jafnan leitast við að kynna aðkomumönnum búskaparaðferðir heimamanna sem best. Það á jafnt við um heyverkun sem annað.

Varðandi 2. tölul. fsp. segir svo í bréfi Búnaðarfélags Íslands:

„Nýjungar eru kynntar þegar þær koma fram og oft áður en þær hafa sannað ágæti sitt. Fjöldi þeirra greina sem taldar eru upp á meðfylgjandi listum getur nýjunga við votheysverkun. Nefna má að búvélainnflytjendur eru sífellt að kynna nýja tækni við búskap, sjálfsagt í þeirri von að geta selt tæki, vélar og jafnvel byggingar (sbr. Harvistorturna).

Í Handbók bænda 1983 er allstór kafli helgaður votheysverkun. Íslenskir bændur hafa því góða möguleika til að fylgjast með nýjustu tækni við votheysgerð. Þess má einnig geta, að votheysverkun hefur að undanförnu farið vaxandi og að votheyshlöður eru nú byggðar í hlutfallslega langtum meira mæli áður.“

Þetta er meginefnið í svari Búnaðarfélags Íslands, en eins og áður er getið fylgir þessu svari skrá yfir greinargerðir og ritsmíðar varðandi þetta efni, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, en að sjálfsögðu er unnt að afhenda fyrirspyrjanda, ef hann óskar þess.

3. liður þessarar fsp. er svohljóðandi:

„Hafa reglur um stofnlán verið endurskoðaðar í því skyni að auðvelda bændum að breyta yfir í votheysverkun?“

Landbrn. spurðist fyrir um þetta efni hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Í svari Stofnlánadeildar landbúnaðarins, sem er undirritað af forstöðumanni deildarinnar, Stefáni pálssyni, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við endurskoðun á útlánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins fyrir yfirstandandi ár var lánshlutfall hækkað úr 40% í 50% út á votheyshlöður. Styrkir koma síðar til viðbótar og munu nema um 20% af byggingarkostnaði flatgryfja. Því mun heildarfyrirgreiðsla í votheyshlöður vera um 70% byggingarkostnaðar.

Til samanburðar lánar Stofnlánadeildin til þurrheyshlöðubygginga 55%, en styrkir eru þar ekki nema um 7% byggingarkostnaðar. Eins og yður er kunnugt er starfandi nefnd sem kannar þessi mál vegna þáltill. frá síðasta þingi.“

Þetta segir í svari Stofnlánadeildar landbúnaðarins og til þess að það komi skýrt fram við hvaða lánareglur er átt, þá er þetta bréf ritað 16. des. s. l.

Í framhaldi af þessu svari Stofnlánadeildar skal það tekið fram að deildin hefur enn ekki lagt fyrir landbrn. drög að lánareglum fyrir yfirstandandi ár, þannig að ekki er ljóst á þessari stundu hvernig þær munu hljóða varðandi lánsfé til votheyshlaðna annars vegar og þurrheyshlaðna hins vegar.

Ég tel víst, sem raunar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að þessi fsp. sé flutt í framhaldi af ályktun Alþingis, sem samþykkt var hinn 27. apríl s. l., þar sem ríkisstj. var falið að beita sér fyrir ráðstöfunum til að stuðla að aukinni votheysverkun frá því sem nú er. Í framhaldi af þeirri ályktun Alþingis skipaði landbrn. nefnd til að vinna að þessu verkefni og voru skipaðir í nefndina Tryggvi Eiríksson sérfræðingur, tilnefndur af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Stefán pálsson forstöðumaður, tilnefndur af Stofnlánadeild landbúnaðarins, og Magnús Sigsteinsson ráðunautur, tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar. Nefnd þessi er að starfi og stefnir að því að ljúka störfum sínum hið fyrsta eða snemma á þessu ári. Enn hef ég þó ekki fengið álit frá nefndinni, en vænti þess að það líði ekki margir mánuðir þangað til niðurstöður nefndarinnar berast landbrn.

Í raun og veru tel ég þar með svarað fsp. hv. þm. Ég vil aðeins ítreka það og staðfesta sem mína skoðun, sem fram kom í hans máli, að fóðuröflun er auðvitað undirstaða landbúnaðarframleiðslu hér á landi — þeirrar landbúnaðarframleiðslu sem við sækjum til búfjárræktar. En þær stjórnvaldsaðgerðir, sem gerðar verða til að hafa áhrif á fóðuröflun, hvort bændur hverfa að því í auknum mæti að framleiða vothey í stað þurrheys, verða auðvitað ekki fólgnar í fyrirmælum, heldur verða þær að vera fólgnar í því, að þær hvetji til þess að nýta þær fóðurframleiðsluaðferðir sem hagkvæmastar eru hverju sinni, og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að þannig eigi að vinna að þessu máli væntanlega í framhaldi af áliti þeirrar nefndar sem nú er að starfi til að sinna þessu verkefni.

Ég vil svo jafnframt láta þess getið, að að ýmsu leyti er unnið að eflingu fóðurframleiðslu og fóðuröflunar í landinu, og ég vænti að sá þáttur sem snertir votheysgerð verði tekinn þá sérstaklega til athugunar þegar störfum hinnar stjórnskipuðu nefndar lýkur.