08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

145. mál, votheysverkun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Af gefnu tilefni vildi ég taka fram, að ég er sammála hæstv. landbrh. um að það þýði ekki að Alþingi setji fyrirmæli til bænda um hvernig þeir eiga að verka sín hey. Ég hef aldrei gert ráð fyrir því eða gefið tilefni til að ætla að það vekti fyrir mér, heldur það, að sköpuð væru þau skilyrði að bændum væri auðveldað eftir eigin ákvörðun að taka upp þessa heyverkun.

Hæstv. ráðh. gerði aths. við það, að ég beindi orðum mínum sérstaklega til hans um það efni að hann ætti að gerast forgöngumaður í þessu máli, forustumaður. Hann líkti þessu við það, að ég væri að þrýsta honum til þess að ganga út á völlinn, eins og hann orðaði það. Hann vildi færast undan því. Mér þykir miður ef hæstv. ráðh. hefur minni trú á sjálfum sér til forustu í gagnlegum málum fyrir landbúnaðinn en ég hef. Ég ber það traust til hæstv. landbrh. að þá sé vel farið ef hann taki forustu í þessu máli.