08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

137. mál, Sjóefnavinnslan

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil út af þeim orðum sem hér féllu frá hv. 3. landsk. þm. geta þess, að um nýiðnað sem þennan er auðvitað aldrei 100% vissa um einstaka þætti, það er okkur eflaust báðum ljóst og þar taka menn alltaf einhverja áhættu. Til undirbúnings þessa fyrirtækis hefur hins vegar verið reynt að vanda eins og föng eru á undirbúning og verið farið ofan í einstaka þætti. Það ber líka að hafa í huga að hér er um að ræða frumraun, sem getur orðið undirstaða víðtækari saltvinnslu og sjóefnavinnslu á þessu svæði, og það held ég að hljóti að skipta það kjördæmi, sem hv. fyrirspyrjandi kemur frá þótt landskjörinn sé, ekki litlu máli að reynt sé að koma fótum undir nýja atvinnuþróun af þessu tagi, enda efast ég ekki um áhuga hans þar að lútandi.

Varðandi þá ábendingu að einkaaðilar og sveitarfélög hafa ekki lagt fram ýkja mikið fjármagn enn sem komið er til verksmiðjunnar, þá er það rétt, eins og fram kom raunar í mínu svari. Það er nú svo, að það er ekki alltaf sá áhugi á því að leggja fjármagn í atvinnurekstur, a. m. k. nú á þessum árum eins og æskilegt væri, m. a. af hálfu sveitarfélaga, auk þess sem þau telja sig vanbúin mörg hver að leggja fram fjármagn í verulegum mæli í rekstur af þessu tagi. Því er það að ríkið hefur hlaupið þarna undir bagga. Það hefur komið fram sem aðalfjárfestingaraðilinn í sambandi við þetta fyrirtæki eða leitast við að hafa sem víðust samtök við sveitarfélög á svæðinu, svo og einstaklinga, sem komu inn í undirbúningsfélagið fjölmennir eins og kunnugt er.

Þetta vildi ég aðeins segja vegna þeirra aths. sem hér féllu, en við hljótum að vænta þess að þetta fyrirtæki, sem þarna er að rísa, verði stoð í atvinnulífi á Suðurnesjum. Af því veitir áreiðanlega ekki og markaðurinn er fyrir hendi. Það er eðlilegt að spurt sé hvert verðið verði. Undir því er auðvitað mikið komið og hafa heyrst efasemdir þar að lútandi, en við skulum vona að þetta fari allt á betri veg eins og til er stofnað.