08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

114. mál, veðurfregnir

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Í ákaflega stuttu máli: Það hefur aldrei hvarflað að mér og hvarflar alls ekki að mér að hægt sé að ganga þannig frá vélbúnaði á radíóstöðvum að ekki geti bilað. Það er ekki það sem ég ræddi um, heldur var það hitt, og því vék ég að þessu, að hér var þrætt, hér í hv. Sþ., úr þessum ræðustól, fyrir ákveðnar staðreyndir vegna þess að upplýsingar frá yfirstjórn Pósts og síma fengnar í hendur hæstv. samgrh. reyndust vera rangar. En ég ítrekaði það, að ég er ekki þeirrar skoðunar að þær hafi verið vísvitandi rangar af hálfu Pósts og síma, og alls ekki af hálfu hæstv. ráðh., heldur vegna þess að þessari stofnun virðist, a. m. k. stundum, vera stýrt á þann veg að hún sé orðin eins konar upphafin skepna í sjálfu sér. Meginatriðið sé að hún sé rekin til vaxtar og viðgangs, höfuðsjónarmiðið það að hafa lokaðan hring í fjárhagslegum rekstri, en ekki það að halda uppi þjónustu við fólkið í landinu. Þetta hefur komið ákaflega oft fyrir. Ég er síður en svo að bera yfirmenn Pósts og síma þeim sökum að þeim sé sama um fólkið í þessu landi. En hitt er ljóst mál, og mun ég, ef Alþingi því er nú situr endist aldur til, gera nánari grein fyrir því í sambandi við þáltill. sem ég flyt hér ásamt fleiri mönnum, að stofnuninni hefur með einhverjum hætti gleymst til hvers henni var upprunalega komið á fót og það löngu áður en til urðu A-hluta og B-hluta stofnanir hjá íslenska ríkinu. (Gripið fram í: Og gjaldþrota stefna.) Ég ítreka aðeins þetta. Og það að nefna gjaldskrána í sambandi við öryggisþjónustu Pósts og síma er eiginlega ekki nógu gott.