08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 88 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.: „Hvernig hafa lífeyrissjóðirnir staðið skil á kaupum skuldabréfa af opinberum fjárfestingarlánasjóðum í samræmi við lánsfjáráætlun þessa og síðasta árs? Ef um vanskil er að ræða, hverjir eru þá stærstu aðilarnir, sem ekki hafa staðið í skilum á þessum skuldabréfakaupum, og hversu háar upphæðir er þar um að ræða?“

Fyrirspurnin þarfnast ekki skýringa. Hún er fyrst og fremst fram komin vegna fjármögnunar Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Fjármögnun þessara sjóða beggja og reyndar fleiri er svo háð því að lífeyrissjóðirnir taki þar í sinn fulla þátt, að ekki þarf að segja það hér hverjar afleiðingar slíkt hefur ef um veruleg vanskil er að ræða varðandi lánsfjáráætlun hverju sinni. Spurningin snýst þá sérstaklega um það hvort einstakir stórir og öflugir sjóðir jafnvel skeri sig þar úr, svo sem oft heyrist, eða hvort hér er um það eitt að ræða að almennt vanti upp á skil lífeyrissjóðanna eins og þau eru ákveðin hverju sinni varðandi lánsfjáráætlun.

Hér og nú skal ekki dregið úr mikilvægi góðrar þjónustu og góðrar stöðu lífeyrissjóðanna, fyrst og fremst auðvitað til að tryggja bótaþegum sínum sem bestan rétt. Og vissulega ber ekki heldur að vanmeta hjálp þeirra við húsbyggjendur sem margir lífeyrissjóðir rækja. Öllu fremur er um það spurt, ef skuldabréfakaupin eru í lágmarki, til hvers þeir fjármunir renna þá sem sannanlega eru þarna til staðar, því örugglega fara þeir eitthvað, og eitthvað annað þá en annars vegar í beinar lífeyrisgreiðslur og hins vegar í bein húsbyggingarlán til þeirra sem þarna eiga rétt. Þarna er um meiri fjármuni að tefla en svo að það geti verið öll skýringin. Að öðru leyti skýrir þessi fsp. sig sjálf.