08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er aðeins út af lokaorðum hæstv. fjmrh. Það var sú tíð að hæstv. ráðh. var ekki hlynntur harðri löggjöf varðandi greiðsluskyldu lífeyrissjóða til hinna ýmsu framkvæmdasjóða. (Gripið fram í: Kaupskyldu.) Kaupskyldu. Það er gott að hafa forseta Nd. til leiðréttingar hér. Væri vel að hann væri oftar viðstaddur til slíks. En ég man þá tíð þegar hæstv. fjmrh. var hér í stjórnarandstöðu að hann gagnrýndi mjög harkalega löggjöf um kaupskyldu lífeyrissjóða og ég var honum sammála þá. En nú er ég honum ósammála. Hann sagði hér áðan að það þyrfti greinilega að herða löggjöfina að því er varðar kaupskyldu lífeyrissjóða. Ég er honum ósammála um þetta. Ég held að það sé komið nóg þegar í raun og veru er farið að taka 40–45% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða til þessara hluta. Við afgreiðslu lánsfjáráætlunar fyrir árið 1982 held ég að þær áætlanir sem upp voru settar um kaupskyldu lífeyrissjóða til hinna ýmsu sjóða hafi verið víðs fjarri því að vera raunhæfar. Þær voru miklu hærri en í raun og veru var nokkurt útlit fyrir að gæti átt sér stað. Og enn kemur inn í þetta dæmi að það er engu líkara en þeir aðilar sem hlut áttu að samningu lánsfjáráætlunar hafi gleymt því að lífeyrissjóðirnir eru núna komnir með verðtryggðu lánin, þannig að það fjármagn kemur miklu seinna inn heldur en áður var meðan það var óverðtryggt. Ég tek út af fyrir sig undir það með hæstv. ráðh. að auðvitað eiga þessir aðilar eins og aðrir að standa við lög. Það er ekki það sem ég meina. En til að hægt sé að standa við greiðslu frá lífeyrissjóðunum þarf auðvitað áætlunin, sem lögð er til grundvallar, að vera raunhæf. Því fór víðs fjarri. Ef ég man rétt þá vantaði nokkra tugi milljóna á árinu 1982 til þess að hægt væri að telja raunhæfa þá áætlun í lánsfjáráætluninni sem kaupskyldan átti að hljóða upp á hjá lífeyrissjóðunum. Það var því gersamlega vonlaust, það voru í raun og veru vitlausar tölur sem lagðar voru til grundvallar fyrir kaupskyldu lífeyrissjóðanna þá. Og það tekur auðvitað steininn úr ef svo má segja að undangengin ár hafi það verið Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem hvað verst hefur staðið í stykkinu í þessum efnum. Þar ætti hæstv. fjmrh. að geta haft hönd í bagga, að sá aðili sæi um að fylgja lögum og reglum varðandi kaupskyldu hjá hinum ýmsu sjóðum eins og Byggingarsjóði ríkisins og öðrum sem ætlast er til að þetta fjármagn renni til sem lífeyrissjóðirnir kaupa fyrir.