08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. á þskj. 147 til hæstv. samgrh. um hafnargerð samkv. þál. frá 3. maí 1982 um aðgerðir til að tryggja eðlilega byggðaþróun í Árneshreppi í Strandasýslu.

Þessi þál., sem vitnað er til frá 3. maí 1982, er þannig til komin, að 1. flm. hennar var 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason og meðflm. hans vorum við allir aðrir þm. Vestfjarða. Till. okkar Vestfjarðaþingmanna var samþykkt í maí s. l.

Þetta mál varðar byggðastefnu og jafnvægi í byggð landsins og er þýðingarmikill þáttur í þeim málum varðandi byggðarlagið sem hér um ræðir. Þetta byggðarlag er líka sérstætt í þeim efnum að hér er um svokallaða jaðarbyggð að ræða og þar er mest hættan á að þróunin verði sú, að byggðin grisjist eða leggist með öllu niður. Við höfum hryggileg dæmi þess einmitt á Vestfjörðum.

Þróunin í Árneshreppi hefur líka á síðustu áratugum verið mjög slæm að því leyti til að byggðin hefur þar dregist mjög saman, fólkinu hefur fækkað. Árið 1940 voru í þessum hreppi, nyrsta hreppi Strandasýslu, 515 manns, en 1981 voru þar 175. Það er mikil saga hér á bak við og ég ætla ekki að rekja þá sögu, en hin allra síðustu ár hefur verið veitt viðnám í þessum hreppi með markvissum og skipulegum aðgerðum.

Ég nefni í því sambandi að hreppurinn var tengdur samveiturafkerfi landsins á árunum 1975 til 1977 og það hafði grundvallarþýðingu til þess að tryggja byggð á þessum slóðum. g nefni það ennfremur, að á þessum árum var líka gerð markviss áætlun, hliðstæð svokallaðri Inndjúpsáætlun, um uppbyggingu landbúnaðarins í þessari sveit. Þessar landbúnaðarframkvæmdir tókust vel að allra áliti sem til þekkja.

En það er eitt sem sérstaklega kallar að nú í Árneshreppi. Það er að þar eru ekki hafnarskilyrði sem fullnægja nútímakröfum. Árneshreppur er eini hreppur landsins sem býr við slíkar aðstæður, að þar geta skip ekki lagst að hafnarmannvirkjum með varning, heldur verður að nota gamla lagið, uppskipunarbáta. Með tilliti til þessa lögðum við þm. Vestf. höfuðáherslu á að nú yrði tekið til höndum í hafnarmálum hreppsins og því fjallaði þáltill. frá maí s. l. um það efni, en þá ályktaði Alþingi að fela ríkisstj. að láta framkvæma undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum í Árneshreppi í Strandasýslu og gera kostnaðaráætlun um þessar framkvæmdir og tillögur til fjáröflunar til að standa undir þeim, og verði stefnt að því að vinna geti hafist vorið 1983.

Ég þarf ekki að rekja þetta mál lengur því að það vill raunar svo til að hæstv. samgrh. er jafnvel ljóst og mér hvað hér er um að ræða. En fsp. mín fjallar um það, að í fyrsta lagi er spurt um hvað ríkisstj. hafi látið framkvæma við undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum í Árneshreppi. Í öðru lagi er spurt að því, hvort kostnaðaráætlun hafi verið gerð um þessar framkvæmdir og hvort það hafi verið gerð tillaga um fjáröflun til þess að standa undir þeim. Og í þriðja lagi er spurt að því, hvort nú sé stefnt að því að vinna við framkvæmdir þessar geti hafist vorið 1983. Það er einmitt eins og gert var ráð fyrir í þáltill.