08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagnaði því á sínum tíma þegar þm. Vestfjarða stóðu saman að þeirri þáltill. sem seinna var samþ. hér á Alþingi. Ég fagna því sömuleiðis að þessi fsp. er fram komin. Það fer ekki milli mála að boltinn er hjá hæstv. ríkisstjórn og með nýjum skipum Skipaútgerðar ríkisins liggur ljóst fyrir að það er tómt mál um það að tala að hægt sé að þjóna þessu svæði með þeim skipum. Ég tel þess vegna að þetta verkefni, hafnargerðin á þessum stað, sé eitt brýnasta verkefnið í byggðamálum Vestfjarða. Miðað við þann mikla mannfjölda sem á sínum tíma bjó í Árneshreppi og galt fjármuni í sameiginlega sjóði þjóðfélagsins, þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig, hvort ekki sé rökrétt að líta svo á, að þeir séu búnir að bíða það lengi að röðin hljóti að fara að verða komin að þeim. Þess vegna vil ég skora á hæstv. ráðh. að fylgja þessu máli fast eftir í ríkisstjórninni og ég ætlast til þess að eitthvað verði aðhafst í þessu máli svo framkvæmdir geti hafist í sumar.