08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. var að gera því skóna að ég væri að slá mig til riddara á þessu máli. Það er fullkominn misskilningur ef hæstv. ráðh. telur að þó að ég hafi áhuga á þessu máli sé ég að slá mig til riddara.

Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að við þm. Vestfirðinga höfum allir haft — við skulum bara segja það, ég veit ekki annað, — jafnmikinn áhuga á þessu máli og þá auðvitað hæstv. ráðh. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur skenkt þessu máli hugsun, eins og við fleiri, áður en þessi þáltill. var samþ. í maí s. l. Ég vil ekki á nokkurn hátt kasta nokkurri rýrð á hæstv. ráðh., en þessi þm. Vestf., hæstv. samgrh., er í þeirri aðstöðu að við hljótum að ætlast til þess að hann hafi það vinnulag í þessu máli að uppi séu tilburðir til að fylgja þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað og gera það á þann hátt, að það væri hægt að hefja framkvæmdir á þessu ári. Það er þetta sem um er að ræða og það er þetta sem ég vil leggja áherslu á með þessum orðum mínum, og þetta er höfuðatriðið.

Mér þykir slæmt ef þessar framkvæmdir eiga að dragast um eitt ár og ég óttast að það sé ekki séð fyrir endann á þessu, ef slík vinnubrögð, sem hafa verið, eiga að viðgangast áfram. Ég vænti þess, að þessi orðaskipti okkar verði til þess að við þm. Vestf. sameinumst um að hrinda þessu máli í framkvæmd, eins og ég hef talið að við værum sammála um.