09.02.1983
Efri deild: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um þjóðsöng Íslendinga. Nokkrar umr. urðu um þetta frv., þegar það kom til l. umr. í þessari hv. deild, og sýndist mönnum sitt hvað, einkanlega um ágæti 3. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upphaflegu gerð höfunda hans. Á það jafnt við um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall þjóðsöngsins.“

Eftir nokkrar umr. í allshn. og samráð m. a. við Jón Þórarinsson tónskáld - hann var kvaddur á fund n. — varð það niðurstaða n. að leggja til að 3. gr. frv. yrði breytt lítillega frá því sem er í upphaflegri gerð og raunar verði sameinaðar 3. og 4. gr. þannig að ný 3. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upphaflegu gerð.“ Síðan komi það sem nú er 4. gr.: „Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.“

Um þetta síðastnefnda var enginn ágreiningur, en sú breyting sem nefndin leggur til er sem sé að niður verði felld orðin „á það jafnt við um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall“. Mönnum þótti óþarfi að tiltaka þetta, það nægði að segja: „Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en í upphaflegri gerð höfunda hans.“

Auðvitað nýtur þjóðsöngurinn eins og önnur verk þeirrar réttarverndar sem höfundalög veita, þótt ýmsir séu nú á því að sú vernd hafi í raun reynst næsta haldlítil, en þau ákvæði höfundalaga nr. 73/1972, sem við þetta eiga, eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skemmt geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en allshn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt með þessari breytingu, sem ég hef gert grein fyrir.