09.02.1983
Efri deild: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. allshn. gat þess, að við 1. umr. þessa frv. hefðu orðið nokkrar umr. hér í Ed. Ég tók þátt í þeim umr. og lét þess þá m. a. getið, að ég vissi ekki til að í öðrum löndum, sem sambærileg eru við okkar í þessum efnum, væru sérlög um þjóðsöng þeirra ríkja. Ég benti á þá vernd sem þjóðsöngurinn hefði samkv. 4. gr. höfundalaganna og hv. frsm. n. vék núna að. En þegar talað væri um að veita þjóðsöngnum meiri vernd en hann nú hefur risi upp sú spurning hvort ætti að setja sérlög um það eða breyta höfundalögunum í þá átt.

Ég ítreka það sem ég sagði við hina fyrri umr. Ég hallast að því, að það sé rétt að setja sérlög, eins og hér er gert ráð fyrir, frekar en breyta höfundalögunum í þessum tilgangi.

En það sem ég varaði sérstaklega við var orðalag 3. gr. frv. Ég benti á að í þeirri upptalningu, um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall þjóðsöngsins, virtust mér vera of þröng mörk sett, en einmitt til að mæta þessu sjónarmiði virtist mér að væri 5. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að veita undanþágu frá lögunum. Ég vil segja það nú, eins og ég sagði áður, að ég tel að þetta undanþáguákvæði sé þess eðlis og málið þess eðlis, að ég fæ ekki skilið hvernig á að beita því í raun.

En nú mælir hv. allshn. með samþykkt þessa frv. með þeirri breytingu sem gerð er till. um á þskj. 291 og hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir. Sú brtt. fer saman við það sjónarmið, sem ég setti fram við 1. umr. málsins. Ég vil því segja það hér, að ég er samþykkur þessari brtt. Þegar 3. gr. frv. hefur verið breytt á þennan veg, eins og n. leggur til, þykir mér sýnt að það sé minni ástæða eða e. t. v. engin ástæða til þess að hafa undanþáguákvæði í 5. gr. Það má kannske segja að það sé meinlaust að láta það standa, eins og gert er ráð fyrir í afgreiðslu allshn., og ég mun ekki við þessa umr. bera brtt. fram um það efni, sem mér hefur komið til hugar, að greinin félli niður. Ég hef ekki gert það upp við mig hvort það er ástæða að gera slíkt og mun hugleiða það uns 3. umr. fer fram.

En ég endurtek: Ég er samþykkur brtt. allshn. og mun greiða atkv. með frv.