09.02.1983
Efri deild: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um frv. þetta til l. um þjóðsöng Íslendinga lét ég í ljós með svipuðum hætti og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson efasemdir um nauðsyn þess að setja sérstök lög um þjóðsönginn og var, svo sem fleiri nm. allshn., efins um að þótt sett væru slík lög væri rétt að kveða svo strangt að orði tæknilega eins og gert var í 3. gr. lagafrv. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að með brottfalli ákvæðanna, og á það jafnt við um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall þjóðsöngsins, sé alls ekki skaði skeður með því að kveða á um það í lögum, sem rétt er í vitund langflestra Íslendinga, að lofsöngurinn „Ó, guð vors lands“ sé þjóðsöngur okkar. Ég tel að með brottfalli niðurlags 3. gr. og sameiningu við 4. gr. verði 7. gr., um viðurlög vegna brota, okkur ekki til vansa eða athlægis, svo sem ella kynni að verða.

Það sannast enn hér í Ed., sem menn hafa lengi vitað, að því betur sem greindir og góðgjarnir formenn nefnda íhuga málið, því betur vinnast þau. Hv. þm. Eiður Guðnason, formaður allshn., veitti því athygli undir ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar að niðurlag 5. gr. á ekki lengur við eftir þessa breytingu. Ég er honum sammála um það og flyt hér í fullu samráði við hann og samkv. ábendingu hans þá brtt. að niðurlag 5. gr. falli niður. Þar standi aðeins: „Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðsöngsins og sker þá forsrh. úr“, en niður falli: „Getur ráðh. veitt undanþágu frá ákvæðum 3. gr., þegar sérstaklega stendur á.“

Ég mun bera þessa brtt. fram skriflega og þarf að vísu afbrigði til þess að taka hana fyrir.

Fleira hef ég ekki um málið að segja. (Gripið fram í.) Ég dreg þessa brtt. til baka til 3. umr.