09.02.1983
Efri deild: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

148. mál, notkun fasteignamats til viðmiðunar eignarskatts

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um notkun fasteignamats til viðmiðunar eignarskatts á árinu 1983.

Samkv. auglýsingu um nýtt fasteignamat, sem tók gildi 1. des. 1982, hækkar matsverð fasteigna almennt um 65%. Matsverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkar hins vegar um 78%. Þessi hækkun fasteignamats er langt umfram almennar tekjubreytingar milli ára. Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir og þar sem um er að ræða æðsta úrskurðarvald í málinu, yfirfasteignamatsnefnd, sem hafði komist að þessari niðurstöðu, var það rætt í ríkisstj. að koma yrði í veg fyrir að fasteignaskattar hér á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu svo mjög sem þessi mikla hækkun á matinu felur í sér. Þess vegna var ákveðið að flytja hér frv. sem takmarkaði hækkun fasteignaskatta við þá almennu hækkun fasteigna sem orðið hefur í landinu eða um 65%.

Jafnhliða því að frv. þetta var flutt þótti þá eðlilegt að flytja frv. um takmörkun á hækkun fasteigna til viðmiðunar eignarskatts á árinu 1983. Þannig er þetta frv. tilkomið, þar sem óbreyttar álagningarheimildir hefðu leitt til gjaldtöku sem hefði orðið mun þyngri fyrir gjaldendur á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu, ef ekkert yrði að gert.

Nú hefur það að vísu gerst, að Alþingi hefur hafnað hugmyndum ríkisstj. um takmörkun á heimildum til hækkunar á fasteignaskatti, og varð ljóst skömmu fyrir áramót að Alþingi vildi ekki fallast á þá takmörkun. Kemur þá til álita hvort þetta frv. hverfur úr sögunni, úr því að Alþingi tók þá afstöðu gagnvart fasteignaskattinum. Á þetta verður að sjálfsögðu að reyna og er því eðlilegt að málið fái umfjöllun í nefnd. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til fjh.- og viðskn.