09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mig tekur sárt að þurfa að taka tregt í það hjá hæstv. forseta að fá aðeins að þakka svörin, vegna þess að ég tel ekki við hæfi að frummælandi, hvort sem er utan dagskrár eða með öðrum hætti, fái einvörðungu að tala í 15 mínútur, en sá sem svarið gefur, þ. e. hæstv. ráðh., fái að tala í 50 eða 55 mínútur. Ég vil því mælast eindregið til þess við hæstv. forseta að ég fái hér að segja örfá orð til viðbótar þakklætinu til hæstv. ráðh. (Forseti: Skiptir ekki máli ef það er nógu stutt.)

Ég ætla þá að byrja á því að þakka hæstv. ráðh. þau svör sem hann hér gaf, svo langt sem þau ná, en þau eru víðs fjarri að vera viðhlítandi svör við þeim spurningum sem hann var spurður að. Hann fór að drepa málinu á dreif og saka einstaka fjvn.-menn og fjvn. sem heild um það hvernig þessu fjármagni væri ráðstafað. Ég minni hæstv. ráðh. á það, að í fjvn. var óskað eftir yfirliti um með hvaða hætti þessu fé var skipt á árinu 1982 og hvað væri fyrirhugað á árinu 1983. Það fékkst ekki. Ég minni hæstv. ráðh. einnig á það, að við hverja einustu afgreiðslu fjárlaga eftir að þessi lög voru samþykkt hefur stjórnarandstaðan borið fram brtt. um að öllu þessu fjármagni yrði varið til jöfnunar orkuverðs. Hæstv. ráðh. hefur verið í broddi fylkingar um að fella þær tillögur. Hann leikur því tveim skjöldum í þessu sem öðru. Það er hrein fásinna að ætla að koma sökinni í þessu tilfelli yfir á einstaka fjvn.-menn. Hér ber hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. og stjórnarliðið sem heild ábyrgð á því að ekki hefur verið farið að lögum. Heitið eitt á þessu gjaldi, orkujöfnunargjald, ber það með sér að það er til þess ætlað að jafna orkuverð í landinu. Það er ekki einvörðungu verið að tala um jöfnun á húshitunarkostnaði að því er varðar olíustyrki. Það er verið að tala um almennan jöfnuð orku með þessu gjaldi. Og af hverju halda menn að í fjárlagafrv. fyrir árið 1983, sem lagt var fram á síðasta hausti, og í fjárlögum yfirstandandi árs sé búið að strika þetta heiti, orkujöfnunargjald út úr fjárlögunum? Af hverju skyldi það vera? Kynni að vera að það væri ákvörðun hæstv. iðnrh. og fjmrh. að það heiti, orkujöfnunargjald, skyldi ekki lengur standa í aðgreindum plöggum hér á hv. Alþingi til að minna fólk á til hvers sá skattur var ætlaður á sínum tíma sem allir þm. voru sammála um að leggja á?

Hæstv. iðnrh. talaði um að það ætti að leggja hluta af þessu gjaldi til rekstrar ríkissjóðs. Allur málflutningur um þetta mál á Alþingi, þegar það var hér til meðferðar, gekk út á það að öllu andvirði þessa gjalds yrði varið til jöfnunar á orku. Hins vegar kæmi til álita, ef menn teldu þetta það mikið fjármagn að þeir vildu ekki ganga lengra en svo að einhverjir fjármunir yrðu eftir, að nýta það til annarra hluta. En meðan þetta geigvænlega verkefni blasir við með þeim hætti sem það hefur gert alveg frá 1980 og raunar fyrr, þá er engin heimild til handa hæstv. iðnrh. eða ríkisstj. til að grípa þetta fé ránshendi og nýta í eyðsluhít ríkissjóðs á öðrum sviðum en þeim sem þetta var ætlað til.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma þó að full ástæða hefði verið til þess að gera í þessum umr. að frekara umræðuefni á hvern hátt hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis hefur í raun og veru gerst lagabrjótur hér að því er varðar framkvæmd þessa lagaþáttar. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis, stjórnarliðið, hefur ekki einvörðungu orðið Alþingi í raun og veru til minnkunar, heldur hefur það brugðist allri þjóðinni með því að fara ekki að eigin lögum að því er þetta ákvæði varðar, að jafna búsetumun að þessu leytinu til, þó að hægt væri að benda á miklu fleiri dæmi um að fólk úti á landsbyggðinni víðast hvar er þrúgað af miklu meiri kostnaði en gerist hér á því svæði sem við erum á.

Ég taldi að það ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. iðnrh. að veita svör við svo sjálfsögðum spurningum sem þeim, til hverra hluta hæstv. ríkisstj. hefði varið því fjármagni, 160 millj., á síðasta ári sem átti að fara til jöfnunar orkuverðs en var ekki gert. Og einnig að því er varðar þann þátt ársins í ár, 248 millj. sem eftir eru að því er best verður séð, til hverra hluta á að verja þessum 248 millj.? Engin svör hafa fengist við þessu. Það er athyglisvert að í umr. hér á Alþingi skuli hæstv. iðnrh. ekki sjá sér fært að segja til um það, með hvaða hætti hann eða ríkisstj. öll ætlar sér að ráðstafa þessum ránsfeng sínum frá skattþegnum. Hér er um hreinan ránsfeng að ræða og það er af og frá að hæstv. ríkisstj. með iðnrh. í broddi fylkingar fái þm. almennt, ég tala nú ekki um skattþegnana almennt, til að fallast á frekari skattlagningu í þessum efnum án þess að skila ránsfengnum, sem hún hefur tekið undangengin ár og á að fara til þessa verkefnis. Að tala um enn aukna skattlagningu nú til að jafna orkuverð án þess að skila þessum fjármunum til baka, það er um tómt mál að tala að menn taki þátt í slíkum leik. Væri hæstv. ríkisstj. og iðnrh. réttur litli puttinn í þeim efnum, í frekari skattlagningu til þessa verkefnis, væri hún fyrr en varði, fengi hún líf sitt svo lengt, búin að ráðstafa því til allt annarra hluta. Ég a. m. k. treysti hæstv. ríkisstj. ekki — og enn síður hæstv. iðnrh. einum til að feta þann stíg sem þarf til að koma þessu máli heilu í höfn. Og það er út í hött að blanda hér saman þeim þætti og orkuverði til stóriðju, sem ég út af fyrir sig tel sjálfsagt að hækka, en það verður ekki að mínu viti gert meðan núv. hæstv. iðnrh. er látinn ráða ferðinni í þeim efnum. Þar verður svipað uppi á teningnum undir hans forsjá eins og verið hefur í því að koma til skila til almennings þeim skattpeningum sem búið er að taka af honum til að jafna orkuverð undangengin þrjú ár. Meðan sú stefna ræður ferðinni sem hæstv. iðnrh. og raunar ríkisstj. öll hefur að leiðarljósi í þessu efni sem öðrum er ekki neins góðs að vænta.