09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þetta voru svo hlýjar kveðjur sem ég fékk hér fyrir svör mín, að það er nú kannske ekki þörf á að koma hér aftur nema þá til að þerra tárin ef maður hefur komist við. Það eru aðeins fáein orð til þeirra hv. alþm. sem hér hafa tekið til máls og haft býsna hátt um þessi efni. Þeir tala um þennan gjaldstofn æ og aftur og leita skýringa á til hverra þátta þeim fjármunum hafi verið varið sem ekki hafi verið með beinum hætti greiddir til orkujöfnunar. Ég tók það fram í mínu svari áðan að slík sundurliðun á gjaldinu hefur ekki verið gerð. Gjaldið er ekki markaður tekjustofn. Það var öllum hv. alþm. ljóst, sem samþykktu þessi lög, að hér var ekki um markaðan tekjustofn til þessara verkefna að ræða. Það er því eðlilegt að ekki hafi verið greitt um svör innan hv. fjvn. þegar hv. fjvn.-maður Karvel Pálmason var að leita þar upplýsinga um til hvaða annarra þátta tekjum af þessu gjaldi hafi verið varið. Og þó að hann vísi til þess að fluttar hafi verið brtt. um þetta efni af hv. stjórnarandstæðingum við fjárlagaafgreiðslu, þá er nú fróðlegt að fletta því upp í þeirri afgreiðslu hvar átti að lækka útgjöldin á móti í sambandi við þessi efni. Hér var að sjálfsögðu spurningin um það eins og ella, þegar um er að ræða tekjur og gjöld ríkisins, að endar standist á.

Ég hefði kosið að afgreiðsla Alþingis 1980 hefði verið með þeim hætti að hér hefði verið um markaðan tekjustofn að ræða til orkumála almennt. En það var ekki einu sinni til orkumála sem slíkra sem þessi tekjustofn var markaður. Læt ég það nægja varðandi þennan gjaldstofn og fullyrði að hér er um blekkingatal að ræða hjá hv. stjórnarandstæðingum. En ég tek undir með hv. 6. landsk. þm. að þörfin á tekjum til jöfnunar er fyrir hendi. Nú liggur hér fyrir álit nefndar með tengsl við alla þingflokka um tekjuöflun í þessu skyni.

Þar er fyrst og síðast vísað til þess að hækka þurfi orkuverð til stóriðju í landinu. Og þó að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson telji að að sé röng áhersla, þá á hann eftir að heyra það aftur og með skýrari hætti heldur en ég hef nú tíma til að ræða hér að þessu sinni, að verðlagningin á orku til stóriðju í landinu er grundvallaratriði til að tryggja til frambúðar að þeir sem nota innlenda orkugjafa búi við viðunandi orkuverð og viðunandi kjör í þeim efnum.

Við heyrðum að hv. 6. þm. Reykv. var ekki reiðubúinn að mæla með því að jafnað yrði innan orkugeirans, sem við köllum svo, í ríkum mæli. Hann treysti sér alls ekki til að styðja þá hugmynd að 0.3% orkuskattur eða sem því svaraði legðist á Hitaveitu Reykjavíkur, gjald sem mundi svara til 5% hækkunar á gjaldskrá hennar að hann taldi. Ætli það sé ekki svona 250 kr. á ári sem þar var um að ræða? En hann er ófáanlegur til að færa þannig á milli til jöfnunar. Það tók hann mjög skýrt fram í þessu máli um leið og hann, stjórnarmaðurinn í Landsvirkjun, leggur ekki ríka áherslu á að það skipti máli að fá orkuverðið til stóriðju hækkað. En ég fagna því sem fram kemur í fyrirvara hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um það efni og hér var vitnað til áðan, að raunar sé mest um vert, eins og hann orðaði það, að láta einskis ófreistað til að ná hækkun raforkuverðsins til Íslenska álfélagsins hf. Það er mál sem ég vænti að hv. alþm. geti sameinast um og tengist vissulega þessu máli með skýrum hætti.