09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að taka undir þau orð sem féllu hér í þingskapaumræðu hjá hv. 7. landsk. þm. Mér þykir harla einkennilegt af hæstv. forseta, eftir að hv. 6. landsk. þm. hafði snuprað hæstv. iðnrh. sem talaði hér í 50 mínútur til að gefa svar við einföldum fsp. og hæstv. forseti hafði lýst því yfir að fresta ætti umr., að heimila þá ráðh. að gera fáeinar aths. sem síðan reyndust vera beinar árásir á ýmsa hv. þm., þar á meðal minnihluta menn í hv. fjvn. og stjórnarmenn í Landsvirkjun. Mér þykir þetta harla einkennileg ráðstöfun og tel hana gagnrýni verða hjá hæstv. forseta. Jafnframt þykir mér einkennilegt til viðbótar að hæstv. forseti skuli fresta umr. áður en fulltrúar allra stjórnmálaflokka, sem vilja taka hér til máls, hafa fengið tækifæri til þess. Mér er kunnugt um að einn hv. þm. Framsfl. er á mælendaskrá og mér þykir einkennilegt að hæstv. forseti skuli ekki, fyrst hann er að breyta röð á ræðumönnum, gefa þeim hv. þm. tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri nú á fyrri hluta þessa þingfundar í dag.

Svo er annað sem ástæða er til að nefna hér þegar rætt er um þingsköp. Ég hef margoft beðið um að fá að ræða hér mikilvæg mál, sum hver orðin harla gömul, þ. á m. 77. mál þingsins, sem var lagt fram á Alþingi miklu fyrr en brbl., sem mest virðist liggja á að afgreiða hér í dag. Þetta mál tafðist vegna þess að hæstv. menntmrh. treysti sér ekki til að taka þátt í þeim umr. framan af. En síðan lýsti hann því yfir rétt fyrir jól að hann væri tilbúinn að taka þátt í þeim umr. hvenær sem væri. Ég hef ekki fengið tækifæri til að flytja framsöguræðu í þessu máli og koma þannig málinu til nefndar. Þetta er brýnt mál, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að nú um þessar mundir er búið að taka ákvörðun um að opna aðra rás hjá Ríkisútvarpinu, og í skúffu hæstv. menntmrh. liggur frv. sem hann ætlar sér greinilega ekki að flytja á yfirstandandi þingi.

Í öðru lagi hef ég ásamt fleiri hv. þm. flutt frv. til breytinga á lögum um verðlag og samkeppnishömlur. Þar er um mjög brýnt mál að ræða. Ég fékk fyrir nokkrum dögum leyfi hæstv. forseta til að tala fyrir því máli, en það fórst fyrir af ástæðum sem óþarfi er að rekja hér. Málið fjallar um það, að sveitarfélög fái að verðleggja sjálf þá þjónustu sem er niðurgreidd. Auðvitað er ástæðan fyrir flutningi þessa máls sú, að Reykjavíkurborg á í málaferlum við ríkisvaldið vegna slíks máls og þess vegna er afar brýnt að yfirstandandi Alþingi fái að fjalla um málið og samþykkja lög um þetta efni.

Tvö önnur mál á ég hér á dagskránni og er 1. flm. að. Á sama tíma er verið að þvinga fram umr. hér á hv. Alþingi um lög sem eru búin að vera í gildi í hálft ár. Og allt er þetta gert vegna þess að hv. þm. Páll Pétursson hefur birt bréf, nýtt Pálsbréf ef svo má að orði komast, til forseta þess efnis að hann heimti að þetta mál verði hér á dagskrá í dag vegna þess að Framsfl. treysti sér ekki til þess í gær að taka afstöðu til kjördæmamálsins. Um þetta snýst umr. í dag. Hún snýst um það að einn stjórnmálaflokkur neitar að horfast í augu við það að náðst hefur meiri hluti á Alþingi um kjördæmamálið. Við ætlumst til þess alþm. að við fáum tækifæri til að koma því stóra máli í höfn áður en verið er að tala um mál sem engin ástæða er til að flýta með þessum ósköpum, einkum og sér í lagi vegna þess að það eru lög sem eru í gildi í landinu. Mér finnst þess vegna, herra forseti, full ástæða til að endurskoða þá afstöðu sem hefur verið tekin hér varðandi dagskrá, og ef á að fara að ræða hér dagskrá að byrja þá á þeim málum sem mest liggur á að afgreiða.