09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er nú að nálgast hálfs árs afmælið og kannske ekki að ófyrirsynju að það er komið til 2. umr. í seinni deild eftir svo langan tíma, en á ýmsu hefur gengið og gengur enn að því er þetta mál varðar eins og mörg hin fleiri sem hér ættu nú að vera til umr.

Það hefur margoft komið fram í umr. um þetta mál, og var því raunar lýst yfir strax, að brbl. frá því í ágúst s. l. eru fyrst og fremst kjaraskerðing, launalækkun, tilfærsla á fjármagni frá launafólki til atvinnuveganna. Og það sem er kannske enn þá verra, og er þetta þó nógu slæmt, er að enn einu sinni er hér gripið inn í löglega gerða kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og þeir ógiltir. Það þarf ekki að taka það fram hér, að alta tíð hefur verkalýðshreyfingin og forsvarsmenn hennar á hvaða tíma sem er mótmælt slíkum afskiptum löggjafans af löglega gerðum kjarasamningum verkafólks og vinnuveitenda. Og það gekk svo langt, þegar þetta gerðist 1978 með febrúarlögunum margumtöluðu, sem voru, ef ég man rétt, með svipuðum hætti og efnisinnihald þeirra laga sem hér um ræðir er, að forustulið verkalýðshreyfingarinnar, og þá fyrst og fremst forustulið Alþb. í verkalýðshreyfingunni, beitti jafnt ólöglegum sem löglegum aðgerðum til að brjóta niður þá lagasetningu sem þá var um rætt og var framkvæmd. Þessi brbl. eru því sambærileg við febrúarlögin frá 1978, sem aðatforustulið Alþb. í verkalýðshreyfingunni taldi ástæðu til að brjóta niður með þeim hætti sem raun varð á. Eina breytingin á meginatriðum, sem átti sér stað með þeim brbl. sem út voru gefin í ágúst s. l., er sú, að nú er það forustusveit Alþb. sem ekki er bara þátttakandi í þessu, heldur hefur forustu um kjaraskerðingu, um launalækkun, um tilfærslu á fjármagni frá launafólki til atvinnurekenda og ógildingu kjarasamninga. Alþb. er núna aðili og raunar má segja frumkvöðull að vissu leyti að þessum málum. Það er í raun og veru eina breytingin frá 1978, en er eigi að síður ærið mikil breyting miðað við liðna tíð. Það gerðist í ágústmánuði s. l. að forustusveit Alþb. varð virkur þátttakandi í kjaraskerðingu og jafningi þeirra forustuafla í íslenskum stjórnmálum sem framkvæmt hafa hvað mestu kjaraskerðingu sem um getur. Hér er sem sagt enn farin sú leið sem alllengi hefur verið kölluð „gömlu íhaldsúrræðin“. Ekki hefur staðið á því að Alþb. tæki þátt í að fara þá leið, fylla flokk þeirra sem fyrst og fremst vilja beita þeim lausnum sem „gömlu íhaldsúrræðin“ gerðu ráð fyrir og gera ráð fyrir enn.

Nú skal því ekki leynt að því er varðar efnahagsmálin og þann vanda sem var við að glíma og er við að glíma, að auðvitað þurfti að leita úrræða til lausnar þeim vanda. En því hefur verið lýst yfir af hálfu Alþfl., það skal ítrekað hér, að sá vandi, sem fyrir er í efnahagsmálum, verður ekki leystur svo að viðunandi sé einvörðungu með þeim ráðum að ganga alltaf á launafólk. Það er yfirlýst stefna Alþfl. og það er yfirlýst stefna almennings í landinu, að ég hygg, að þessir aðilar eru reiðubúnir að taka þátt í lausn efnahagsvanda og láta sitt af mörkum til þess að það megi takast, en það verður ekki gert einvörðungu með kjaraskerðingu hjá launafólki, — ég tala nú ekki um kjaraskerðingu hjá þeim sem síst skyldi og minnst mega sín.

Auk hinnar beinu kjaraskerðingar, ógildingar á gerðum samningum og beinu lækkunar launa hjá almenningi í landinu, þá er einnig í brbl. frá því í ágúst s. l. enn frekari launaskerðing, eða kjaraskerðing kannske frekar, en hin beina launalækkun gerir ráð fyrir. Það er einnig gert ráð fyrir því að vörugjald ekki bara hækki frá því sem var áður en lögin tóku gildi, heldur og einnig að nú skuli bætt við vörutegundum sem vörugjald skal lagt á. Þetta eitt og sér, vörugjaldið, er að mínu viti einhver óréttlátasti skattur sem á hefur verið lagður og þá fyrst og fremst gagnvart almenningi úti á landsbyggðinni og rýrir enn frekar launakjör fólks þar en á þessu svæði. Enn er haldið áfram að íþyngja launafólki úti á landi með hækkuðu vörugjaldi og fjölgun þeirra vörutegunda sem vörugjald er nú lagt á.

Þetta er gert, að sagt er af hálfu stjórnvalda, til þess að leysa þann vanda efnahagslífsins sem verið hefur. Engu að síður, þrátt fyrir að þessi lög hafi nú verið í gildi allan þennan tíma, liggur fyrir spá um það frá þeim spádómssérfræðingum sem stjórnvöld hafa yfirleitt tekið hvað mest mark á, sem er seðlabankavaldið í landinu, að verðbólga muni verða miklum mun meiri, þrátt fyrir þessa lagasetningu, kjararýrnun og kaupskerðingu, heldur en nokkurn hefur e. t. v. órað fyrir miðað við það ástand sem menn hafa verið að ræða um. Og það er vitað að sama ástand og var þegar lögin voru sett í ágúst, sama ef ekki verra ástand efnahagsmála, verður komið strax 1. mars við næstu ákvörðun verðbóta á laun, þannig að það sannast enn, það sem haldið hefur verið fram af talsmönnum Alþfl. um langan tíma, að þær lausnir sem hér er boðið upp á eru skammtímalausnir, sem leysa engan vanda til lengri tíma og eru einvörðungu til þess framkvæmdar að láta þær bitna á launafólki og þá ekkert síður á því launafólki sem síst skyldi en hinum sem betur mega sín.

Að sjálfsögðu var verkalýðshreyfingin andvíg slíkri lagasetningu. Strax einum eða tveimur dögum eftir að brbl. voru gefin út mótmælti miðstjórn Alþýðusambands Íslands harðlega þessari lagasetningu, en það furðulega gerðist, að hæstv. núv. félmrh. og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, bæði tvö úr herbúðum Alþb., túlkuðu mótmælin í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands sem jákvæð til lagasetningarinnar. Ef ég man rétt fagnaði hæstv. félmrh. því sérstaklega, að sá sem nú stendur hér í ræðustól skyldi taka þátt í þeim mótmælum. Slík er nú hundalógíkin í hugsunarhætti þeirra sem þannig fjalla um mál og taka afstöðu til þeirra, eins og hæstv. ráðh. og hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Beinlínis og vísvitandi halda þessir aðilar fram algerlega andstæðum hugsunarhætti við það sem í raun og veru er verið um að tala. Það er vissulega tímanna tákn að því er þetta varðar, að forustulið Alþb. í verkalýðshreyfingunni sem nú á oddvitann í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, skuli opinberlega og á ótvíræðan hátt mótmæla þeirri kjaraskerðingu sem hið pólitíska forustuafl þessa sama flokks lætur yfir þjóðina og verkalýð þessa lands ganga. Það hefur ekki gerst fyrr á jafnótvíræðan hátt og það gerðist með samþykkt ályktunar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, sem allir voru sammála um, og þar er engin undantekning.

Ég taldi nauðsynlegt að koma því alveg skýrt á framfæri að verkalýðshreyfingin hefur harðlega mótmælt þessu, þó svo menn þar hafi metið stöðu hreyfingarinnar svo að því er þessa tíma varðar að ekki væri fært vegna annarra kringumstæðna í þjóðfélaginu að brjóta þetta á bak aftur á eðlilegan hátt. En það sem er verst við þetta er að hin sífelldu inngrip löggjafans í gerða kjarasamninga framkalla ekki bara kjaraskerðingu í hvert skipti. Þau rýra með þessum hætti og þessum vinnubrögðum svo traust á verkalýðshreyfingunni, samningsgerð hennar allri og áhrifum, að það er vandséð hvort eða þá hvenær verkalýðshreyfingin ber sitt barr eftir að hafa þurft við þetta að búa svo árum skiptir. Það er augljóst mál, og ætti ekki að þurfa að ræða það sérstaklega, að álit almennings innan verkalýðshreyfingarinnar á samningsgerð hverju sinni hlýtur að rýrna við það að staðið sé í samningum svo vikum eða svo mánuðum skiptir eða allt að ári til þess að reyna að fá lagfæringar á launakjörum og öðru fyrir launafólk, en á einni nóttu svo að segja grípur ríkisvaldið inn í og ógildir þessa hina sömu samningsgerð og er búið að taka til baka meira en þær kjarabætur eru sem um var samið á hverjum tíma. Það sem er óskiljanlegast í þessu öllu er að þarna á hlut að máli ríkisvald sem sjálft hefur staðið að því að ná samningum á hverjum tíma, en notar svo tækifærið sjálft nokkrum dögum síðar til að ógilda hina sömu samninga.

Í yfirlýsingu, ef ég man rétt, upp á 20 eða 21 tölulið, sem fylgdu brbl. ríkisstj. eru frómar óskir, en fyrirsjáanlegt að engar líkur voru til þess, þó að engan vilja hefði skort hjá hæstv. ríkisstj. til, að framkvæma mörg hinna góðu mála sem voru upptalin í þessum yfirlýsingum. Ljóst var að engin aðstaða var fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að framkvæma það.

Ein af þessum yfirlýsingum var um að verja lægstu launin með svokölluðum láglaunabótum. Nú þarf ekki að fara mörgum orðum um þann þátt mála, hann er öllum í svo fersku minni vegna þeirra geysilega miklu ágalla sem voru á ákvörðun og útborgun láglaunabótanna nú um áramótin að allir hljóta það að muna. En það er eitt í þeim efnum sem ég vil taka alveg skýrt fram. Æðimargir halda því fram, að forusta verkalýðshreyfingarinnar hafi skrifað upp á þetta mál hjá hæstv. ríkisstj. Nú veit ég ekki hverja telja skal í forustusveit verkalýðshreyfingarinnar hér á landi. Ég á t. d. sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. En ég frábið mér alla ábyrgð á þeim reglum sem ákveðnar voru að því er varðaði útborgun láglaunabóta. Ég vísa því frá að hægt sé að álykta að forustulið verkalýðshreyfingarinnar, nema þá einhverjir tilteknir einstaklingar sem þar kunna að eiga hlut að máli, beri ábyrgð á því sem þar gerðist. Ég vil hins vegar segja að í mínum huga er mikið vafamál hvort það svarar kostnaði, ekki síst í ljósi galla sem komið hafa fram á reglunum um láglaunabæturnar, hvort það er í raun og veru þess vert að reyna að smyrja með einhverjum hætti á þær kjaraskerðingar sem var verið að framkvæma með brbl. ríkisstj. frá því í ágúst. Öllum var auðvitað ljóst og er ljóst að þessi lög voru kjaraskerðing og það verður aldrei hægt að ganga fram hjá því að þau voru fyrst og fremst kjaraskerðing í þeim skilningi að færa til fjármuni frá launafólki til atvinnurekenda.

Ég held að þær reglur megi breytast mikið, sem eftir kann að verða farið við næstu útborgun láglaunabóta, verði einhvern tíma af því, ef það á að vera hægt að sannfæra launafólk um að með þessum reikningskúnstum sé í raun og veru verið að bæta eitthvað hag þess frá því sem var í sambandi við þessa löggjöf. Ég er alveg viss um það, og það hefur raunar komið margoft fram, að ekki síst launafólk er reiðubúið að taka þátt í lausn vandans sem við er að glíma, svo fremi sem menn sjá einhvern tilgang, einhvern árangur og að byrðunum sé réttlátlega skipt meðal þegnanna. Á það skortir svo sannarlega varðandi brbl. sem hér eru nú til umr.

Einnig var í þeim yfirlýsingum sem fylgdu frá hæstv. ríkisstj. m. a. fyrirheit um lengingu lána til húsbyggjenda, sem er eitt af stærri málum sem við er að fást í þjóðfélaginu í dag, því að í orðsins fyllstu merkingu talað er sá klafi, sem launafólk bindur sér með þeirri sjálfsögðu tilraun til að koma þaki yfir höfuðið, orðinn svo þungur að það er gersamlega vonlaust að almennur launamaður geti undir honum risið, enda liggur fyrir að aldrei hefur verið verra ástand hjá launafólki að því er varðar að standa undir skuldbindingum vegna íbúðarhúsnæðis en það er í dag.

Enn eitt fyrirheitið var gefið í yfirlýsingum sem fylgdu brbl. frá hæstv. ríkisstj., og ég ætla þó ekki að fara að tína þau öll upp, en það var fyrirheitið um jöfnun húshitunar hjá almenningi. Það mál var hér til umr. fyrr í dag og ég skal ekki eyða tíma í langa tölu um það, en ég ítreka enn að það er krafa þess fólks, sem þetta loforð átti að ná til, að við þetta verði staðið og þeim fjármunum, sem hefur verið aflað í þessu skyni, sem er orkujöfnunargjaldið, sé skilað til réttra aðila, en þeir ekki nýttir til allt annarra þarfa.

Það þarf ekki að ítreka það hér, það hefur margoft komið fram, að Alþfl. er andvígur bráðabirgðalausnum eins og hér um ræðir — lausnum sem eru til skamms tíma augsýnilega, leysa tiltölulega lítinn vanda, en eru allar á kostnað launafólks. Það er margyfirlýst stefna Alþfl. að hann vill breyta um í allri meðferð, stefnu og þróun efnahagsmála með langtímasjónarmið fyrir augum, með leiðum sem skila árangri og ekki síst með leiðum sem eru réttlátar og leggja byrðar réttlátlega á þjóðfélagsþegnana, fyrst og fremst með það í huga að hlífa þeim sem síst skyldi íþyngja, þeim sem verst eru settir og minnst hafa.

Ég skal ekki hafa uppi hér langt mál eða telja upp það sem lagt hefur verið fram af hálfu Alþfl. til lausnar vanda sem við er að glíma og hann er reiðubúinn að taka þátt í lausn á. En ég ítreka að margar tillögur um leiðir til úrbóta hafa verið fluttar hér inn á Alþingi í formi þingmála, en lítið sem ekkert á þær verið hlustað, þó hins vegar svo hafi brugðið við að einstaka flokkur er þó farinn að sjá að það er raunverulegt sem bent hefur verið á af hálfu Alþfl., raunverulegt og þess eðlis að það er hægt að leysa málin með þeim hætti, og ég skal ítreka að það verður að gerast.

Það kom fram í umr., sem urðu fyrir um viku muni ég rétt einmitt um þetta mál, æðieinkennileg afstaða hv. 4. þm. Reykv. að því er þetta mál varðar. Hann lýsti þeirri skoðun sinni þar, að hann mundi greiða atkv. gegn þessu frv., hér væri fyrst og fremst um kjaraskerðingu að ræða, tilfærslu fjármagns, en hann lýsti jafnframt ábyrgð á hendur öðrum stjórnarandstæðingum ef þeir gerðu slíkt hið sama. Þetta finnst mér æðimikill ruglingur í hugsanaganginum hjá þessum hv. þm. Það sem hann sjálfur ætlar að leyfa sér fordæmir hann að aðrir fái að gera. En þetta er alveg þvert við þá afstöðu hv. 4. þm. Reykv., sem hann lýsti við umr. um annað álíka frv., sem er til meðferðar á hv. Alþingi, sem er um Olíusjóð fiskiskipa og útflutningsgjald. Þar er einnig verið að breyta kjarasamningum sjómönnum í óhag, en hv. þm. lýsti yfir því að hann ætlaði að tryggja framgang þess máls með hjásetu. Síðar kom á daginn að ekki þurfti á henni að halda, þannig að hv. þm. hefði getað haft sömu skoðun í báðum þessum málum, sem eru sambærileg. En skoðanir hv. 4. þm. Reykv. stangast greinilega á að því er þetta varðar, og ekki verður betur séð en í uppsiglingu sé klofningur í skoðanamyndun innan hins fyrirhugaða Bandalags jafnaðarmanna.

Það væri vissulega þess virði að ræða nokkru lengur um allan þann málflutning sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur haft uppi hér á Alþingi undangengið, þar sem hann hefur ásakað fyrst og fremst „varðhunda valdsins,“ eins og hann orðar það, fyrir að gæta hagsmuna hinna ýmsu klíkna flokksgæðinga, en ég sé ekki betur, verði áframhald á þeirri göngu sem hv. þm. Vilmundur Gylfason er þegar farinn að ganga, væntanlega undir merkjum Bandalags jafnaðarmanna, en að þar sé í uppsiglingu eitt mesta flokksræði í ákvarðanatöku sem ég a. m. k. veit til hér á Íslandi. Auðvitað er það mál hv. þm., en hins vegar er lágmarkskrafa, sem verður að gera til hans eins og annarra, að hann leyfi samþingsmönnum sínum góðfúslega að hafa sambærilega eða sömu afstöðu til mála hér á Alþingi og hann sjálfur ætlar sér að hafa. Það sé ekki fordæmanlegt að einhver einn annar þm. eða fleiri hafi sömu afstöðu til mála og hann.

Nú er ekkert um það vitað á þessu stigi máls hver kann að verða niðurstaðan að því er varðar afgreiðslu brbl. frá því í ágúst hér á Alþingi. Þeir sem neituðu að þing yrði kallað saman þegar í ágúst og málið tekið til afgreiðslu þá knýja nú á sumir hverjir að málið fái endanlega afgreiðslu hér með mismunandi tilhneigingu sjálfsagt og á mismunandi forsendum til þess sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag. Nú mun það vera hluti Framsfl. sem krefst þess að málið sé afgreitt nú þegar, og forsendur munu vera þær, að þessi hluti flokksins vill losna úr hæstv. ríkisstjórn, vill efna til kosninga án þess að stjórnarskrármálið verði til lykta leitt á þessu þingi. Út af fyrir sig er þetta sjónarmið, en ekki er það stórmannlegt að bregðast þannig við þeim vanda sem fyrir er. Ólíkt stórmannlegra hefði verið af þessum aðilum, eins og raunar öllum öðrum, að taka þátt í að leysa ekki bara þetta mál, heldur og öll hin brýnustu mál sem fyrir þinginu liggja og verður að leysa ef ekki á að stefna í enn frekara óefni en þegar hefur gerst.

Það er ekki ástæða til þess, herra forseti, að fara að ræða hér sérstaklega um stjórnarskrármálið. Það kemur hér vonandi til umræðu áður en langur tími líður og þá fá menn að sjá og heyra afstöðu hinna einstöku þm. og þingflokka til þess. Ég skal ekki ræða það frekar hér. En í meginatriðum er afstaða mín til brbl. þessi: Hér er fyrst og fremst um að ræða kjaraskerðingu, tilfærslu fjármagns frá launafólki til atvinnurekenda, ógildingu gerðra kjarasamninga, sem eiga að standa hvaða stjórnvöld sem við lýði eru hverju sinni. Sú lausn, sem menn töldu sig hér. vera að leggja til á vanda efnahagslífsins, dugar mjög skammt, hún dugar einvörðungu til tveggja eða þriggja mánaða og síðan er allt komið í sama farið aftur ef ekki verra. Slíkum bráðabirgðalausnum er Alþfl. andvígur og telur það hvað brýnast, ekki síst nú, að gripið sé til róttækari breytinga á efnahagskerfinu öllu, uppskurðar á því í raun og veru, þannig að valdar séu leiðir sem hægt er að sýna fram á að séu til varanlegrar lausnar og bóta og þess eðlis að ekki sé bara verið að rýra kjör, framkvæma kjaraskerðingu hjá launafólki einu og sér, en það hafa þessi lög haft í för með sér eins og svo margar aðrar ráðstafanir sem stjórnvöld hafa gert á undangengnum árum þegar menn hafa talið ástæðu til að grípa til aðgerða til lausnar efnahagsvandanum.

Ég hefði, ef hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefði verið í salnum, freistast til þess að spyrja hv. þm. að gefnu tilefni um það, hvað liði þeim fyrirvörum sem hann lét eftir sér hafa varðandi stuðning við þessi brbl. Hvað líður t. d. ákvörðuninni um lánskjaravísitöluna, sem er stór þáttur í þessu máli og liggur hér fyrir þinginu frv. um frá þm. Alþfl.? Eru líkur á því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson greiði atkvæði með þessum brbl. án þess að fyrir liggi örugglega að breytt verði til hins betra í sambandi við lánskjaravísitöluna? Ótalmargar fleiri spurningar hljóta að kom upp í hugann ef litið er til baka og rifjaðir upp þeir fyrirvarar sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, hafði þegar hann var inntur álits og afstöðu til þess máls sem hér er nú til umræðu, en ekki skal frekar út í það farið þar sem hv. þm. er ekki til staðar.