10.02.1983
Efri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til l. um Olíusjóð fiskiskipa og olíugjald. Hér þarf í sjálfu sér ekki mörg orð um þetta frv. Hæstv. sjútvrh. ræddi frv. altítarlega þegar hann mælti fyrir því í þessari ágætu deild.

Erfiðleikar útgerðar, þessarar undirstöðuatvinnugreinar okkar Íslendinga, eru margvíslegir í dag. Samdráttur í aflaverðmæti hefur verið mikill, talinn vera um 16% milli áranna 1981 og 1982 og segir það okkur meiri sögu en mörg orð. Olíukostnaðurinn einn frá árinu 1973 til dagsins í dag er mikill. Hann er talinn hafa verið um 11.5% af aflaverðmæti minni skuttogara árið 1973, en er sjálfsagt á bilinu 28–30% í dag. Fjármagnskostnaður þessarar atvinnugreinar eins og svo margra annarra hefur einnig margfaldast.

Nefndin hefur athugað frv. á fundum sínum og kvatt til fundar við sig þá Ingólf Stefánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Jón Júlíusson frá viðskrn. og Gunnar Þorsteinsson frá Verðlagsstofnun. Á fundi n. kom einnig Jón L. Arnalds, ráðuneytisstjóri í sjútvrn.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kemur breytt frá Nd. Undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Guðmundur Bjarnason, Geir Gunnarsson og Gunnar Thoroddsen.