10.02.1983
Efri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Ég skal vera trúr hefð Ed. og ekki fara að setja á langar ræður svo að mál geti haft eðlilegan framgang. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að stjórn og meiri hl. hafa fullt vald á máli þessu. En við látum sem eðlilegt er í ljós í nál. okkar efasemdir og álit á því, að þarna sé ekki verið að fara rétta leið. Það má segja að í hvert skipti sem rætt hefur verið um olíugjald síðan ég kom hér á þing hafi verið gefnar yfirlýsingar um að þetta skuli endurskoðað og fundin ný og heilbrigðari leið til úrlausnar á þessu vandamáli, en enn hefur ekkert gerst í því máli. Ég skal vissulega fyrstur manna viðurkenna það vandamál sem þarna er á ferðinni. Í mínum huga er ekki endilega um olíugjald að ræða, heldur tel ég að hér sé um að ræða kostnaðarhlutdeild í útgerð. Að skapa olíusjóð og greiða niður olíu tel ég vera mjög til hins verra og skref í ranga átt, þó það sé að vísu rétt að t. d. togararnir hafa gífurlega mikinn olíukostnað að bera, en við skulum ekki gleyma því, að bátaflotinn hefur að sama skapi oft mun meiri veiðarfærakostnað. Oft á tíðum fylgist það að. Þegar olía hækkar hækka veiðarfæri um leið, því að flest veiðarfæri eru framleidd úr olíuvöru. Við nefndarmenn, ég og Egill Jónsson, teljum að betra hefði verið að um kostnaðarhlutdeild hefði verið að ræða en ekki olíugjald.

Þá leyfum við okkur að bera fram brtt. í þá átt að gera veika tilraun til þess að færa frv. til sama vegar og áður var. Við teljum óeðlilega þá breytingu, sem var gerð í Nd., um að ekki skuli greiða útflutningsgjöld af ferskum fiski sem fluttur er á erlendan markað. Við teljum að þarna sé um mjög mikið misræmi að ræða. Við teljum óeðlilegt að borga útflutningsgjald af framleiddu vörunni hér innanlands með áföllnum kostnaði og allri þeirri verðmætaaukningu sem verður. Má segja að við séum þarna að borga útflutningsgjald af vinnulaunum íslensks verkafólks og af ýmsum þeim innlendu kostnaðarliðum sem á leggjast við framleiðsluna. Aftur á móti greiðum við ekki útflutningsgjald af þeim fiski sem fluttur er ferskur á erlendan markað.

Þá vil ég líka benda á það, sem mér þykir mjög óeðlilegt og varhugavert, að talsvert er um siglingar íslenskra skipa, einkum frá suðurströndinni og austurströndinni, til Færeyja. Mér skilst að þetta hafi verið 30–40 siglingaferðir á ári. Búast má við, ef ekkert sérstakt breytist á næstu árum, að þetta haldi áfram. Mér þykir líklegt að þetta muni frekar ýta undir þær siglingar en hitt, og þá erum við að greiða niður framleiðsluvörur Færeyinga sem þeir selja í samkeppni við okkur, bæði á saltfiskmörkuðum og á frystimörkuðunum í Bandaríkjunum. Það þykir okkur mjög skref til hins verra.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta. Ég geymi mér það til seinni tíma til þess að málið geti haft eðlilegan framgang.