13.10.1982
Sameinað þing: 2. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Embættisfærsla sýslumanns á Höfn í Hornafirði

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þó að ég sé ósammála þeim hv. þm. sem óskaði eftir að koma þeirri fsp. á framfæri sem hér er til umr. í öllum meginatriðum í málflutningi hans í þessu máli, þá tel ég að hann hafi fyllsta leyfi samkv. þingsköpum þessarar virðulegu stofnunar til að koma á framfæri fsp. sinni. Ég tel að með þessari neitun séum við í raun og veru að stíga nokkurt skref aftur á bak í okkar þingræðisvenjum og hefðum. Ég tel það mjög slæmt, að menn skuli ekki fá að bera fram fyrirspurnir hér á hinu háa Alþingi, þó að einhverjum hv. þm. eða hæstv. forsetum þyki þær vitlausar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að hér hafi verið svarað mörgum miklu vitlausari fsp. heldur en þessari og ég harma að flokkur, sem m.a. kennir sig alfarið við lýðræði og berst fyrir því, eins og Sjálfstfl. skuli taka þá afstöðu til þessa máls sem hann gerir. Hér er um mjög mikilsvert formsatriði að ræða í okkar þinghaldi og það er af þeim sökum sem ég segi já.