10.02.1983
Sameinað þing: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

131. mál, heimilisfræði í grunnskólum

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 135 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um eflingu heimilisfræða í grunnskólum. Flm. auk mín eru hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, Halldór Blöndal, Egill Jónsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Steinþór Gestsson, Jósef H. Þorgeirsson og Geir Hallgrímsson. Till. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að við endurskoðun aðalnámsskrár grunnskóla verði ákveðinn lágmarksstundafjöldi í heimilisfræðum í öllum bekkjum grunnskóla.“

Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að menntmrn. setji grunnskólum námsskrá, þar sem m. a. er gert ráð fyrir kennslu í heimilisfræðum og heimilisrækt. Menntmrn. ákveður námsefni, magn þess, skiptingu milli námsgreina og skipan á námsár.

Með breyttum þjóðfélagsháttum og nýjum viðhorfum hefur nám í heimilisfræðum orðið æ víðtækara. Heimilisfræðin spanna í raun margar námsgreinar, svo sem matreiðslu- og framreiðslufræði, matvælaefnafræði, hreinlætisfræði, heimilishagfræði, vörufræði, áhaldafræði, vinnufræði, híbýlafræði og ungbarnameðferð, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar námsgreinar fléttast saman í námsstarfi nemenda, þó hlutfall einstakra þátta fari að sjálfsögðu eftir aldri þeirra og þroska.

Öll þessi námssvið snerta daglega tilveru einstaklingsins og mörg þeirra eru stórir þættir í lífi hans og starfi. Að geta búið til hollan og næringarríkan mat, kunna að hirða heimili sitt og annast rekstur þess á hagkvæman hátt ætti að vera metnaðarmál hvers og eins. Það er mikilvægt bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og þjóðarbúskapinn.

Meginmarkmið heimilisfræðináms eru samkvæmt námsskrá að efla skilning nemenda á hlutverki heimilisins, auka þekkingu þeirra og leikni á heimilisstörfum, auka skilning og áhuga nemenda á hollustu og heilbrigði, vekja skilning og áhuga á góðri nýtingu og umhirðu verðmæta, hagsýni í heimilisrekstri og hagsmunamálum neytenda, glæða áhuga nemenda á gildi góðrar vinnutækni, veita nemendum innsýn í vistfræðileg lögmál og glæða áhuga þeirra á umhverfisvernd, glæða sjálfstæði, samstarfsvilja og samábyrgð nemenda.

Þegar rætt er um nám í heimilisfræðum þarf að hafa hugfast að búsýsla og heimilisstörf eru viðfangsefni sem varða jafnt karla sem konur og að allir þurfa að njóta fræðslu um mikilvægustu úrlausnarefni í sambandi við heimilisrekstur. Má þar til nefna hyggilegt fæðuval, rétta meðferð matvæla og matreiðslu í samræmi við næringarfræðilega þekkingu og viðurkennda hollustuhætti, hagkvæma öflun, nýtingu og viðhald þeirra verðmæta sem tengd eru búsýslu, hvort sem um er að ræða persónulega muni eða sameign neytenda.

Á síðustu árum hefur aukist skilningur bæði meðal ráðamanna menntamála og almennings á að stækka beri hlutverk mennta á öllum skólastigum. Vaxandi áhugi er fyrir því að nám í heimilisfræðum verði tekin upp í öllum grunnskólum, einnig í neðri bekkjum þeirra. Töluvert vantar þó á að heimilisfræði njóti jafnréttis við aðrar skyldunámsgreinar grunnskólans.

Með grunnskólalögunum 1974 urðu heimilisfræði fyrst skyldunámsgrein. Heildarstundafjöldi í greininni er lítill miðað við aðrar skyldunámsgreinar, því að þegar best lætur fá nemendur 7. og 8. bekkjar aðeins tvær kennslustundir á viku hvort skólaár, en valmöguleikar eru í 9. bekk.

Í þeirri viðmiðunarstundaskrá sem nú gildir eru heimilisfræði sett í „pakka“ með öðrum námsgreinum og því engin skýr ákvæði um lágmark vinnustunda. Áhugi forráðamanna hvers skóla ræður þar m. a. úrslitum. Á fskj. I, sem fylgir þessari þáltill., er yfirlit yfir skiptingu kennslustunda á milli námsgreina í 1.–9. bekk grunnskóla. Þar kemur fram hvaða námsgreinar eru settar saman í þennan pakka með hámarksstundafjölda sem síðan á að skipta á milli hinna einstöku námsgreina. Í sjálfu sér væri það ágætt fyrirkomulag, þar sem kennsla í heimilisfræðum er þannig námsgrein, að mjög auðvelt er að flétta marga þætti hennar inn í aðrar námsgreinar og gera þær meira lifandi og áhugaverðar fyrir nemanda. En hættan er sú, að heimilisfræðin verði út undan vegna of fárra kennslustunda í pakkanum, sérstaklega ef áhugi forráðamanna og skilningur á þýðingu þessarar kennslu er takmarkaður. Heimilisfræðikennslan er háð því, að húsnæðisaðstaða, kennslukraftar og síðast en ekki síst áhugi forráðamanna fræðslumála sé fyrir hendi. Víða er kennaraskortur, einkum í dreifbýli, og er vissulega nauðsynlegt að efla valnámsgreinina heimilisfræði í Kennaraháskóla Íslands. Ennfremur þarf að leggja áherslu á að þar sem völ er á heimilisfræðikennara gangi hann að öllu jöfnu fyrir kennslu í greininni.

Enn er það svo að heimilisfræði er aðeins kennd í um 80 af um 220 grunnskólum landsins. Þetta segir að vísu ekki alla söguna því að hér er yfirleitt um fjölmennustu skólana að ræða. Hins ber að geta, að í sumum þessara skóla eru kenndar mjög fáar stundir í greininni og kennslan því stundum varla nema nafnið. Það er rétt að skjóta því hér inn, að grg. sem fylgir með þessari þáltill. er byggð á niðurstöðum könnunar sem unnin var á vegum starfshóps í heimilisfræðum. Þessar upplýsingar, eins og t. d. þær sem koma fram á fskj. III, ná ekki fram til yfirstandandi skólaárs og mundu, ef svo væri, sýna nokkru betri stöðu varðandi þennan þátt mála. Þangað til árið 1970 fengu stúlkur víðast í þéttbýli, m. a. í Reykjavík, 4 stundir á viku í heimilisfræðum, bæði í 7. og 8. bekk grunnskólans. Þá fóru drengirnir að koma inn í þessa kennslu til jafns við stúlkur. En þá gerðist það að kennsla stúlknanna er skert um helming í stað þess að láta alla nemendur grunnskólans fá sama stundafjölda og verið hafði.

Allir grunnskólar í Reykjavík, sem hafa til þess aðstöðu, eru búnir að koma á kennslu í heimilisfræðum fyrir 1.–6. bekk, en aðeins er um fáar stundir að ræða eða 2x2 kennslustundir á heilu skólaári. Utan Reykjavíkur er heimilisfræðikennsla yngri barna í aðeins um 20 grunnskólum. Flestir grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu hafa nú eigið kennsluhúsnæði fyrir heimilisfræði, en í dreifbýli vantar víða kennsluaðstöðu og sums staðar eru til bráðabirgða notuð eldhús mötuneyta og félagsheimila. Það þarf vissulega stórt átak til að endurbæta eða byggja frá grunni kennsluaðstöðu fyrir heimilisfræði. Til þess að flýta fyrir að hægt sé að koma þessari kennslu á í neðri bekkjum grunnskóla hafa t. d. verið smíðaðar sérstakar innréttingar sem hægt er að nota í venjulegri kennslustofu. Það er rétt að geta þess, að menntmrn. hefur látið hanna slíkar einingar og er hægt að fá teikningar af þeim í rn. Í þessu sambandi má einnig benda á að framhaldsnemendur Fjölbrautaskólans í Breiðholti í málm- og tréiðnaðardeildum taka að sér smíði á slíkum eldhúseiningum og hefur námsstjóri í heimilisfræðum í menntmrn. milligöngu um upplýsingar og útvegun á þeim og einnig innkaupastjóri Fjölbrautaskólans. Þarna hefur verið farið inn á athyglisverða braut varðandi hagnýta kennslu í verkmenntun, sem vissulega ber að fagna.

Kennsla í heimilisfræðum nýtur mikilla vinsælda hjá öllum hlutaðeigandi, bæði nemendum og foreldrum þeirra. Það er mikil þörf fyrir kennslu í næringar- og hollustuháttum, ekki hvað síst í nútíma þjóðfélagi þar sem ungmenni þurfa oft á tíðum að sjá sjálf um fæðuval sitt mikinn hluta dagsins.

Í neyslukönnun meðal 10–14 ára skólabarna, sem Manneldisráð Íslands gerði á árunum 1977 og 1978 í fjórum grunnskólum í Reykjavík, kom í ljós að mataræði barna var í mörgu ábótavant. Röskun á venjum heimilanna hefur leitt til þess, að börn og unglingar neyta sælgætis og gosdrykkja sem svokallaðar sjoppur bjóða. Þau fá þannig allt að 1/4 hluta orkuþarfarinnar fullnægt án þess að mikilvæg næringarefni fylgi. Í þessu sambandi má benda á fskj. II.

Það er einróma álit sérfræðinga í næringar- og hollustuháttum að nauðsynlegt sé að gera átak til úrbóta og fyrirbyggja heilsutjón sem hlotist getur af gölluðu mataræði. Næringar- og hollustuhættir eru meðal stærstu þátta í heimilisfræðinámi. Grunnskólinn er því kjörinn vettvangur til þess að veita þá fræðslu, sem að haldi kemur á þessu sviði, þar sem hann nær til allra ungmenna.

Það er augljóst að í nútíma þjóðfélagi verða allir að hafa undirstöðuþekkingu í næringar- og neytendafræðum, í algengri matreiðslu og heimilisstörfum og ekki síst í því að skipuleggja vinnu sína. Að þeim markmiðum stefnir nám í heimilisfræðum jafnframt því sem grunnur er lagður að verkmenntun fyrir ýmis störf. Hins vegar er staðan í þessum málum sú, að stór hluti grunnskólanna hefur ekki neina kennslu í heimilisfræðum og margir skólar eru með skerta kennslu miðað við þær fáu vikustundir sem gert er ráð fyrir samkv. viðmiðunarstundaskrá. Við svo búið má ekki standa öllu lengur. Þess vegna þurfa að koma til skýr ákvæði um námstíma í greininni svo að allir nemendur grunnskólans búi sem fyrst við jafnræði í þessu námi. Lágmarksstundafjöldi í heimilisfræðum í grunnskólum þarf að vera sem hér segir: 1.–5. bekkur 1 stund á viku hvert skólaár, 6.–7. bekkur 2 stundir á viku hvert skólaár og 8.–9. bekkur 1 1/2 stund á viku hvert skólaár.

Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík svo og kvenfélög um land allt berjast sífellt fyrir aukinni kennslu í heimilisfræðum eins og fram kemur í fskj. IV. Það eru ályktanir frá landsþingum Kvenfélagasambands Íslands og þar segir með leyfi forseta:

„22. landsþing Kvenfélagasambands Íslands hvetur ungt fólk til að hagnýta sér sem best alla fræðslu um heimilisstörf og hússtjórn svo að það geti beitt verkhyggni og hagsýni er það stofnar eigin heimili. Landsþingið skorar á menntmrn. að sjá um að lögum um heimilisfræðslu í grunnskóla verði framfylgt og ætlað enn meira rúm í námsskrá en nú er. Þingið leggur áherslu á nauðsyn þess að koma upp eða bæta aðstöðu slíkrar kennslu í grunnskólum.“

„23. landsþing Kvenfélagasambands Íslands styður tilmæli frá Sambandi vestfirskra kvenna um að Kvenfélagasamband Íslands beiti sér fyrir því, að fylgt verði lögum um kennslu í heimilisfræðum í grunnskólum. Framkvæmd á þeim ákvæðum grunnskólalaga er mjög ábótavant í dreifbýlinu, og bendum við á að meðan þetta ástand ríkir væri hægt að nýta betur húsmæðraskólana um landið og annað kennsluhúsnæði sem fyrir hendi er á hverjum stað.“

Úr ársskýrslu Bandalags kvenna í Reykjavík 1978– 1979 segir:

„Aðalfundurinn skorar á yfirvöld fræðslumála að auka veg heimilisfræðslu á grunnskólastigi og njóti hún jafnréttis á við aðrar námsgreinar. Þær greinar sem einkum skal leggja áherslu á eru: Undirbúningur að stofnun heimilis, hlutverk og ábyrgð foreldra, matreiðsla, vöruþekking, næringarfræði o. fl.“

Þá hefur mér einnig borist bréf, dags. 1. febr., frá Kvenfélagasambandi Íslands. Þar segir með leyfi forseta:

„Stjórn Kvenfélagasambands Íslands lýsir ánægju sinni með fram komna till. til þál. á þskj. 135 um eflingu heimilisfræða í grunnskólum. Stjórn KÍ telur mikilvægt að sá lágmarksstundafjöldi í heimilisfræðum í öllum bekkjum grunnskólans, sem fram kemur í grg., verði ákveðinn með lögum, en með því stefnir í þá átt sem KÍ telur nauðsynlegt að verði. Eins og fram kemur í fskj. IV hefur mál þetta hvað eftir annað verið til umræðu á landsþingum KÍ og munu héraðssambönd og aðildarfélög Kvenfélagasambandsins fylgjast af áhuga með framgangi þessarar till. og óska þess eindregið að hún verði samþykkt af Alþingi hið fyrsta.“ Undir þetta ritar María Pétursdóttir, formaður Kvenfélagasambands Íslands.

Herra forseti. Viðhorfin til heimilisstarfa og barnauppeldis hafa breyst að því leyti að nú er ekki algild regla að líta á heimilis- og uppeldisstörf sem kvenmannsstörf eingöngu og eflaust á þróun í þá átt enn eftir að aukast. Með aukinni menntun kvenna og breyttum þjóðfélagsháttum vinna æ fleiri konur utan heimilis og taka aukinn þátt í alls konar félagsstörfum, m. a. á vettvangi stjórnmálanna og annars staðar sem fram að þessu hefur verið vettvangur karlasamfélagsins. Það mun því færast í vöxt að foreldrar skipti með sér heimilis- og uppeldisstörfum. Þessi breyting í þjóðfélaginu gerir það enn brýnna að skólarnir leggi rækt við kennslu í heimilisfræðum. Hvort sem menn telja þessa þróun vera til góðs eða ekki er hún staðreynd og því ber að bregðast við henni á réttan hátt.

Það er einnig orðin staðreynd að skólarnir taka á sig í auknum mæli uppeldishlutverk foreldranna sem vegna síaukins vinnuálags eru fjarvistum frá heimilum meiri hluta dags. Þeir verða því að setja allt sitt traust á þá og dagheimilið. Aukin áhersla á kennslu í heimilisfræðum er því nauðsynleg til að koma til móts við jafnréttisþróunina svo að feður jafnt og mæður framtíðarinnar verði betur undir það búin að taka á sig það ábyrgðarhlutverk sem uppeldis- og heimilisstörf eru.

Herra forseti. Eftir að þessari umr. hefur verið frestað legg ég til að till. verði vísað til allshn.