10.02.1983
Sameinað þing: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

131. mál, heimilisfræði í grunnskólum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er rétt að gera þá játningu strax að ég er allra manna verst að mér í heimilisfræðum, enda ekki lærður í þeim á neinn máta nema það litla sem mér hefur verið kennt heima fyrir. Ég finn hins vegar oft sárt til þess og get þess vegna tekið undir meginmálið í því sem kom fram hjá hv. 1. flm., að það er sannarlega ástæða til að þetta mál sé athugað gaumgæfilega. Þó að þetta sé frítt lið sjálfstæðismanna, sem þarna eru flm., þá vona ég að fleiri en ég taki undir meginefni þessarar till. utan þess annars stóra og samstillta flokks.

Ég kem hér upp aðeins til að greina frá því í fyrsta lagi, að ég hef nokkra reynslu af þessu sem skólamaður áður. Ég get meira að segja hælt mér af því að koma slíkri kennslu á í mínum grunnskóla á nokkru árabili. É g man eftir því að þetta var mikið fagnaðarefni hjá stúlkunum, þeim gekk þar mjög vel, en mikil tregða hjá drengjunum aftur að taka þátt í því námi, þó að nokkrir þeirra gerðu það fyrir sérstök tilmæli skólastjórans. Kennsluaðstaðan var vitanlega frumstæð. En ég varð vitni að því þá mjög glögglega að þetta hafði sín áhrif líka inni á heimilunum. Heimilin fögnuðu því að þetta skyldi vera upp tekið. Auðvitað byggðist þetta á því að þarna var um áhugasaman kennara að ræða sem vildi taka kennsluna að sér og gerði það mjög vel. Síðan hvarf þessi kennari frá skólanum og erfitt um vik að fá einhvern í staðinn. Þannig hygg ég að sé víða ástatt, að vandamálið sé kannske ekki síst að fá einhvern til að leysa kennsluna sómasamlega af hendi.

Austfirðingar hafa um nokkurt skeið leyst þetta mál að nokkru, aðeins að takmörkuðu leyti með námskeiðum á Hallormsstað, mjög vinsælum námskeiðum, að ég held vikunámskeiðum fyrir hvern hóp, þar sem bæði drengir og stúlkur hafa einhent sér í ýmsa þætti heimilisfræði, kannske fyrst og fremst matargerð en að vísu fleira. Mér er kunnugt um að þetta er mjög vinsælt og þykir til fyrirmyndar. Ég drep á þetta vegna þess að hv. 1. flm. minntist sérstaklega á það að húsmæðraskólana ætti svo sannarlega að nýta til þess arna. Það hefur verið gert austur þar. Ég vildi koma því að um leið og ég lýsi stuðningi við þessa till.

Ég er ekki endilega viss um að þessi fræðsla eigi að ná um alla bekki grunnskólans. Ég er ekki alveg búinn að gera mér grein fyrir því hvernig að þessu skuli staðið í neðstu bekkjunum. En a. m. k. eftir að komið er yfir níu og tíu ára aldurinn finnst mér það einsýnt að taka skuli upp vissa lágmarkskennslu í þessari grein. Ég veit að þarna er víða pottur brotinn og því sem þegar er jafnvel áskilið er ekki sinnt, eins og kom glögglega fram í máli hv. 1. flm. En ég vil líka leggja áherslu á það að ég held að í mörgum tilfellum muni einnig vera vandkvæðum bundið að fá hæfa og góða kennslukrafta til þess að sinna þessu á þann veg sem mér heyrðist hv. 1. flm. hafa í huga og ég tel að sé nauðsynlegt. Því það er verr af stað farið en heima setið ef þarna er um hreint kukl að ræða og jafnvel ranglega á málum tekið.

Ég vænti þess, þó að skammt lifi nú þessa þings væntanlega, að menn geti tekið á þessu máli á einhvern þann hátt að menntmrn. fái einhverja vísbendingu um hvernig það skuli haga sér við endurskoðun aðalnámsskrár grunnskóla varðandi lágmarksstundafjölda í þessari námsgrein.