11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

Um þingsköp

Forseti (Alexander Stefánsson):

Vegna ummæla hv. 6. þm. Reykv. vil ég upplýsa það hér, sem raunar allir hv. alþm. vita, að það hefur verið föst venja í sambandi við utandagskrárumræður að þær eru í byrjun funda, eftir að samkomulag hefur orðið um það við viðkomandi ráðh. sem gert er ráð fyrir að taki þátt í slíkum umr. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um hér innan þingsins hefur það ekki verið venja að rjúfa dagskrárumræður á þann hátt sem hér er farið fram á, nema eitthvað stórkostlegt liggi við, og eru sennilega ekki dæmi um slíkt í þingsögunni. Þess vegna voru viðbrögð mín sem forseta þau að ég taldi að ekki væri eðlilegt að verða við þessum tilmælum þegar einnig lá fyrir að viðkomandi ráðh., sem þetta mál átti fyrst og fremst að heyra til, hafði neitað að taka þátt í efnislegum umr. um málið á þessu stigi. Ég hef þess vegna gert ráð fyrir því að hægt væri að verða við þessum óskum á þann veg að í lok þessarar umr., sem væntanlega tekur senn enda, yrði hægt að koma því við að hafa sérstakar utandagskrárumræður um þetta mál. Þess vegna hef ég ekki viljað fallast á að rjúfa hér dagskrárumræður um ákveðið mál á þann hátt sem farið var fram á. Og ég hef ekki breytt þeim úrskurði. Það var ekki hugmyndin að þetta yrðu maraþonumræður um þingsköp, en fyrst þær hafa hafist vil ég gefa hv. 3. þm. Vestf. orðið.