11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrstu rök hæstv. forseta, sem hann beitir gegn því að fallast á þau tilmæli sem til hans hefur verið beint um að heimila hér umr. um ákvörðun tveggja ráðh., er sú, að venja sé að þær umr. fari fram í upphafi þingfunda. Af eðlilegum ástæðum var það ekki hægt vegna þess að þm. var ekki kunnugt um hvað þessir tveir hæstv. ráðh. höfðu ákveðið þegar fundur hófst. Af þeim ástæðum gat þessi utandagskrárumræða ekki hafist í upphafi fundar eins og ella hefði verið gert. Í öðru lagi eru það ekki rök í málinu að ráðh. segir við Alþingi: Ég er ekki reiðubúinn til að skýra ykkur frá því sem ég var reiðubúinn til að skýra blaðamönnum frá í hádeginu í dag. Það er fyrir neðan, virðingu hæstv. forseta að beita slíkum röksemdum. Ef ráðh. er tilbúinn að skýra blaðamönnum frá ákvörðunum sínum, hvers vegna skyldi hann þá a. m. k. ekki sína löggjafarsamkundu þjóðarinnar sömu virðingu? Ég átti ekki von á því að heyra forseta Alþingis beita slíkum rökum.

Í þriðja lagi segir forseti að hann telji eðlilegt að umr. fari fram um ákvarðanir ráðh. nú í lok þessarar umr. Ég veit ekki betur en að þessari umr. sé að ljúka. Einn stjórnmálaflokkurinn hefur boðað flokksmenn sína til þýðingarmikils miðstjórnarfundar í kvöld. Þar að auki var búið að tilkynna okkur að ekki væri gert ráð fyrir því að fundur stæði á þessum degi miklu lengur en til kl. 7, þannig að það er alveg ljóst að fundartíma er nú að ljúka í dag. Það er líka ljóst að umr. um það mál sem hér er á dagskrá lýkur að líkindum ekki fyrir þann tíma því enn eru allnokkrir á mælendaskrá, þannig að ef á að heimila alþm. að beina fsp. til hæstv. ráðh. og fá upplýst það sem þeir eru reiðubúnir að upplýsa blaðamenn um, þá er annaðhvort að gera það núna eða fyrirskipa Alþingi að bíða þangað til eftir helgi með að fá það upplýst.

Ég skora á hæstv. forseta að endurskoða þessa ákvörðun sína. Það hefur verið friður um störf þingsins mikils til í vetur, sérstaklega eftir áramótin, þó að ríkisstj. hafi misst þingmeirihluta sinn. Hæstv. forseti gæti borið vitni um það, ef hann vildi, að þm. Alþfl. hafa ekkert gert til þess að tefja eða torvelda störf þessarar deildar eða þessa þings. Þvert á móti höfum við lagt okkur í líma um að gera allt sem við höfum getað til að greiða hér fyrir málum, og við tökum því hreint ekki að okkur sé tilkynnt úr forsetastóli að það sé ekki ástæða til að ræða á Alþingi og skýra alþingismönnum frá atburðum, sem orðið hafa í ríkisstjórn Íslands, sem tveir ráðh. hafa talið sig til þess búna að skýra blaðamönnum frá fyrir nokkrum klukkustundum síðan. Ég fer fram á við forseta að hann endurskoði þessa ákvörðun sína.