11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

Um þingsköp

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Um þrjúleytið í dag barst mér beiðni um það frá þingflokki Sjálfstfl. að taka þátt hér í umr. utan dagskrár um tiltekið málefni. Ég taldi ekki eðlilegt að taka undir það, vegna þess fundar sem hér var kvatt til á föstudegi um efnahagsráðstafanir, og er þó almennt reiðubúinn til þess að taka efnislegan þátt í umr. utan dagskrár hér þegar það er fram borið með eðlilegum fyrirvara og um það getur verið góð samstaða, en vegna þess að svona háttar til taldi ég ekki eðlilegt að verða við þessu. Ég er reiðubúinn til þess, þegar að lokinni þessari umr. hér eða við lok hennar, að taka hér efnislegan þátt í umr. utan dagskrár um það efni sem hv. 6. þm. Reykv. nefndi hér áðan. En ég tel ekki eðlilegt að slík umr. trufli það dagskrármál sem er á dagskrá og er búið að vera lengi og menn hafa væntanlega þörf á að sjá fyrir endann á.