11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

Um þingsköp

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég heyrði ekki hádegisfréttir í dag og mér var því ekki ljóst fyrr en ég varð þess áskynja af umr. hér og nú að tveir ráðh. hefðu tekið það upp hjá sjálfum sér — ef ríkisstj. hefur ekki samþykkt það, sem ég reikna þó frekar með — að leggja nýjan skatt á álverksmiðjuna í Straumsvík. Án þess að vera kunnugur málunum geri ég ráð fyrir, ef sú leið hefur verið valin, að sá nýi skattur komi í staðinn fyrir þá hækkun orkuverðs sem mikið hefur verið rætt um að þurfi að ná samkomulagi um við Svisslendingana. Á einhverju stigi fyrri umræðna var talað um það, ef ég man rétt, að til greina gæti komið að Svisslendingarnir legðu niður sín störf hér, færu héðan í burtu, rækju verksmiðjuna ekki lengur.

Nú segir virðulegur forseti þessarar deildar að hann telji ekki rétt að rjúfa dagskrárumræður nema um stórmál sé að ræða sem krefjist slíkra aðgerða. Ég veit ekki í augnablikinu um neitt stærra mál en það að vinnumarkaði, sem er svo stór þáttur af vinnumarkaði á suðvesturhorni landsins, er stefnt í voða. Ég held að það sé ekki auðvelt að finna öllu stærra mál. Við vitum að hluti af vinnumarkaðinum, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, er í í miklum vanda. Fólki hefur verið sagt upp þar. Við vitum líka að Hafnarfjörður var ekki blómleg byggð. Hafnarfjörður var í miklum efnahagsvanda í langan tíma. Uppbygging og sú blómlega byggð sem þar er nú og velgengni byggðarlagsins hefur byggst mikið á þessum nýja vinnumarkaði. Sem sagt, hér er á dagskrá velmegun, áframhaldandi velmegun og áframhaldandi vinnumarkaður á suðvesturhorninu og ef þeim vinnumarkaði er stefnt í voða get ég ekki ímyndað mér að vinnumarkaðurinn í Reykjavík eða í nágrannasveitarfélögum gæti bætt þann skaða. Þess vegna lít ég svo á að hér sé um slíkt stórmál að ræða sem forseti taldi þurfa til til þess að forsvaranlegt væri að rjúfa dagskrárumræður. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram sem krafa frá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að umr. fari fram um þetta mál nú þegar.