11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt strax í upphafi að taka það skýrt fram, því að það virðist vera þannig þegar litið er á störf þingsins undanfarið að menn séu búnir að gleyma því, að þau brbl., sem hér er verið að ræða, hafa verið í gildi allt frá því í ágústmánuði og það er þess vegna furðulegt þegar því er haldið fram hér á hv. Alþingi að bráðnauðsynlegt sé að flýta afgreiðslu þessa máls og meira að segja gengur svo langt að ætlast er til þess að hv. þm. í hv. Nd. verði á fundum á föstudagskvöldi, þegar ljóst er að einn stjórnarflokkurinn, Alþb., ætlar að halda miðstjórnarfund þar sem allir þm. eiga að vera þátttakendur og ræða þar mikilvægt mál. Ég held að það þurfi að leita lengi til að finna annað dæmi um það sem hér er að gerast, svo mikill er þrýstingur hæstv. ríkisstj. á að fá þetta mál afgreitt með sérstökum hraða.

Það var einmitt þetta sem kom berlega fram fyrr á þessum fundi, þegar hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, óskaði eftir að fá að ræða utan dagskrár um það stórmál, sem kom fram í hádeginu, þegar tveir hæstv. ráðh. boðuðu til blaðamannafundar vegna skattgreiðslna Íslenska álfélagsins og það vitnaðist, hvort sem það er rétt eða rangt, að það hefði verið gert án þess að öll hæstv. ríkisstj. hefði vitað af eða væri með í ráðum.

Hæstv. forseti bar þá því við, að ekki væri hægt að efna til slíkra umr. vegna þess að siður væri að hefja fundi með slíkum umr. og fá til þess leyfi ráðh. fyrir fram og ekki væri hægt að slíta í sundur umr. um brbl. Ég gæti nefnt fjölda dæma um að umr. hafa verið slitnar í sundur um ýmis mál, bæði stjfrv. og önnur frv., í deildum eða um þáltill. í Sþ. svo að koma mætti að málum sem eru miklu smávægilegri en það mál sem óskað var eftir að ræða í dag á þessum þingfundi.

Það mál, sem stjórnarandstæðingar báðu um að fá að ræða, varðar atvinnumál og efnahagsmál þjóðarinnar. Það er jafnvel ekki óviðeigandi að ræða það sérstaklega í þeim umr., sem hér fara fram um brbl., því að af stjórnarinnar hálfu er því haldið fram að þessi brbl. séu sett til að tryggja atvinnu og koma skikki á efnahagsmálin.

Eitt af því sem hefur stefnt atvinnulífi þjóðarinnar í hættu eru einmitt vinnubrögð hæstv. iðnrh. í álmálunum. Aðferðir hans hafa verið með þeim hætti, að hann getur fyrr eða síðar orðið ábyrgur fyrir því að atvinnurekstur stöðvist — atvinnurekstur sem hefur hingað til veitt 600–700 mönnum vinnu í landinu. Hæstv. ráðh. kýs fremur að eiga orðastað við blaðamenn, boða þá á sinn fund, eins og hann gerði í hádeginu í dag, en tala við Alþingi, og minnir þessi aðferð mjög á það þegar sami hæstv. ráðh., í des. 1980, kallaði saman blaðamannafund á sjálfum þingtímanum til að birta ásakanir um sviksamlegt athæfi Íslenska álfélagsins og álhringsins Alusuisse.

Eins og margoft hefur verið sagt og bent á var það einmitt þessi aðferð og það sem á eftir kom sem hefur gert það að verkum að enginn árangur hefur orðið í því máli. Þvert á móti tókst hæstv. ráðh. að eyðileggja svokallaða álviðræðunefnd, sem sprakk í loft upp þegar hann hunsaði tillögur viðræðunefndarinnar. Má benda á orðræður hv. 12. þm. Reykv. og hæstv. ráðh. í þeim efnum. Þá hefur hæstv. iðnrh. hafnað samstarfi um meðferð málsins, en honum hefur verið boðið upp á að mynduð yrði nefnd sem þingflokkarnir skipuðu. Hann gæti valið formann nefndarinnar og haft forræði málsins, svo framarlega sem nefndin hefði með bæði viðræðurnar við Alusuisse að gera og mótaði þá stefnu sem þarf að fylgja í slíkum umræðum. Hæstv. ráðh. kýs að fara ekki þá leið. Hann vill sjálfur ráða stefnunni. Hann vill að aðeins sé mynduð samstaða um eitt, samstaða um hann sjálfan. Og hver trúir því, eftir að hafa reynslu af þessum hæstv. ráðh., að hægt sé að mynda þjóðarsamstöðu um hæstv. ráðh. í þessu máli?

Ástæðan fyrir því að ekki fékkst að ræða þetta mál hér í dag var auðvitað sú, að innan hæstv. ríkisstj. er mjög mikill ágreiningur í þessu mikilvæga atvinnu- og efnahagsmáli. Þess vegna var komið í veg fyrir þessar umr. Það mátti ekki opinberast að þessi ágreiningur var fyrir hendi. Og það hlýtur að vera einsdæmi þegar hæstv. forseti kemur í veg fyrir að leyfðar séu slíkar utandagskrárumr., jafnvel þótt ráðherra hafi ekki fallist á að taka efnislega þátt í umr. Hæstv. ráðh. var hér viðstaddur og hafði örfáum tímum áður gefið upplýsingar um þetta mál á blaðamannafundi úti í bæ. Með slíkum vinnubrögðum er að sjálfsögðu verið að rjúfa þann frið sem verið hefur um störf þessa þings, þrátt fyrir það þrátefli sem ríkt hefur í þinginu í vetur.

Það hefði vissulega, þegar rætt er um efnahags- og atvinnumál, verið ástæða til að spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvernig á því standi að fyrstu 10 mánuði s. l. árs hafi 4.1 millj. íslenskra króna verið varið til eftirlits með starfsemi álversins og athugana á starfsemi þess. Það er kominn tími til að hæstv. ráðh. svari því og leggi á borðið hvað hann hefur greitt í herkostnað gegn þessu fyrirtæki og að þessu leytinu til. Það er á fimmtu milljón kr. utan við lagastoð. Þetta er gert með aukafjárveitingum. Þá eru að sjálfsögðu ekki taldar með aðrar fjárveitingar sem til þessa máls hafa farið, en eiga stoð í fjárlögum fyrir 1982. Ég held að hæstv. ráðh. vilji ekki ræða þetta mál á Alþingi. Málstaðurinn er ekki góður. Ég held jafnframt að ýmsir hæstv. samráðherrar hans hafi lagst gegn því að hæstv. ráðh. fengi að tala í málinu vegna þess mikla ágreinings sem um málið er.

Þau lög, sem hæstv. ríkisstj. setti í sumar, brbl. sem tóku gildi seint í ágúst, fjalla fyrst og fremst um þrjú atriði: Í fyrsta lagi, sem er kannske mikilvægasta efnahagsaðgerðin, eru laun skert um helming verðbóta og gekk það atriði í gildi hinn 1. desember s. l. Í öðru lagi eru lagðir á þjóðina miklir skattar í formi vörugjalds. Og það er ekki nóg með að vörugjald hafi verið hækkað með brbl., heldur leyfir hæstv. ríkisstj. sér að setja í brbl. í ágústmánuði ákvæði þess efnis að vörugjaldið, sem er tímabundið, verði í gildi fyrir árið 1983 eða m. ö. o.: hæstv. ríkisstj. ber því við í ágústmánuði að það beri brýna nauðsyn til að setja í brbl. ákvæði þess efnis að lögin haldi áfram að vera í gildi frá 1. jan. til 31. des. 1983. Þetta er furðulegt þegar það er haft í huga að fastur samkomutími Alþingis er samkv. lögum 10. okt., og það hlaut hverju mannsbarni að vera ljóst að auðvitað hafði hæstv. ríkisstj. þá, eins og ætíð áður í þessu máli, nægan tíma til að koma málum í gegn fyrir jól. Það var ekki gert. Þvert á móti var ákvæðið sett í brbl. einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstj. vissi, þegar hún setti brbl., að hún hafði ekki lengur starfhæfan meiri hl. á hv. Alþingi. Það hefur komið fram, að þegar þau lög voru sett í sumar lá það fyrir að einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hafði sent hæstv. forsrh. bréf og lýst því yfir að hann væri ekki lengur stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. Nú efast ég ekkert um að minnihlutastjórn getur gefið út brbl., ef brýna nauðsyn ber til, en það hljóta að vera forkastanleg vinnubrögð að setja í brbl. undir slíkum kringumstæðum ákvæði sem eiga ekki að taka gildi fyrr en mörgum mánuðum eftir að Alþingi kemur saman.

En brbl. fjalla ekki eingöngu um kjaraskerðingu og skattahækkanir, heldur jafnframt um afleiðingar gengisfallsins, en gengið var fellt um 13% um leið og brbl. voru sett seint í ágústmánuði. Það eru ýmsir sem spyrja hvað gerist ef brbl. falla. Augljóst er að þá verða, samkv. áliti prófessors Sigurðar Líndals, launahækkanir umsvifalaust í landinu um 7.7%, en það er sú verðbótaskerðing sem átti sér stað vegna brbl. hinn 1. des. s. l. Jafnframt er ljóst að úr gildi falla lög um vörugjald, sem þýðir stórkostlega vörulækkun. Við slíkar aðstæður hlýtur hæstv. ríkisstj. að segja af sér. Hæstv. ríkisstj. getur ekki setið þegar slíkt gerist. Þá mundi ný stjórn taka við og gera nýjar ráðstafanir strax, en sú ríkisstj. mundi að sjálfsögðu hafa það verkefni fyrst og fremst að rjúfa þing og efna til kosninga, enda er núv. hæstv. ríkisstj. stærsta efnahagsvandamál þjóðarinnar í dag. En hæstv. ríkisstj. á annan kost. Hún gæti rofið þing og efnt til nýrra kosninga. Um það atriði liggja fyrir skýrar yfirlýsingar frá formanni Alþb., hæstv. ráðh. Svavari Gestssyni, en hann hefur lýst því að það þurfi að rjúfa þing um leið og brbl. falla og efna þar með til kosninga innan tveggja mánaða samkv. stjórnarskránni, enda gæti ríkisstj. ekki starfað við þau skilyrði að þessi gífurlega launahækkun fari strax út í verðlagið á sama tíma og stórkostleg vörulækkun ætti sér stað, en gera má ráð fyrir að vörur lækkuðu frá 20 og upp í 30 til 40% ef vörugjaldið væri numið úr lögum. Sjá þá allir hvers konar útsala yrði á ýmsum gæðum sem eru á boðstólum í búðum. Þess vegna hefur hæstv. ráðh. sagt að auðvitað yrði þing rofið og strax að loknu þingrofi yrðu sett ný brbl., sem hefðu sams konar afleiðingar og þau lög sem enn gilda.

En hver er þá afstaða stjórnarandstöðunnar? Afstaða stjórnarandstöðunnar var sú, þegar ljóst var að meiri hluta skorti hjá hæstv. ríkisstj., að eðlilegt væri að kalla þing þá þegar saman, ganga frá nauðsynlegum málum, en þar er átt við bæði kjördæmamálið, sem nú er komið á lokastig, og eins nauðsynlegum efnahagsaðgerðum, og efna til kosninga strax í haust. Ný ríkisstj. hefði þá getað tekið við og gert nauðsynlegar framhaldsráðstafanir fyrir 1. des. Við þessu varð ekki orðið, eins og margoft er búið að taka fram. Frá þeim tíma að hæstv. ríkisstj. hafnaði þessu tilboði stjórnarandstöðuflokkanna hafa formenn beggja stjórnarflokkanna, hæstv. sjútvrh. og félmrh., viðurkennt að það hefði að sjálfsögðu verið rétt og eðlilegt að haga málum með þeim hætti sem stjórnarandstaðan fór fram á í ágústlok. Meginandstaðan við brbl. byggist nefnilega á því, að það sé ekki eðlilegt að hér sitji í landinu ríkisstj. sem hefur misst þingmeirihl., en þráast við að sitja án þess að geta stjórnað. Að auki hefur verið bent á það allrækilega að ekki hefur tekist, þótt nú séu liðnir tæplega sex mánuðir frá setningu brbl., að knýja fram þau markmið sem tilgangur brbl. mótaðist af. Árangurinn er harla lítill, nánast enginn, a. m. k. miklu minni en efni stóðu til. En ég mun víkja að þeim efnisatriðum síðar í ræðu minni.

Næst má spyrja, hvers vegna lögin hafi ekki verið afgreidd strax í haust. Svarið er ósköp einfaldlega: Frv. kom ekki fram fyrr en talsvert var liðið á þingið. Og ástæðan fyrir því að frv. kom ekki fram var ofureinfaldlega sú, að hæstv. ríkisstj., og sér í lagi hæstv. forsrh., gerði að sjálfsögðu ráð fyrir því að með frv. kæmu önnur frv., svokölluð fylgifrv., en í þeim var að finna efnisatriði sem koma fram í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. sem fylgdi brbl. Tvö frv. eru mjög veigamikil í þessu sambandi. Það eru orlofið og vísitölumálið. Auk þess þurfti hæstv. ríkisstj. að koma sér saman um láglaunabætur. Það er einhver sú vitlausasta efnahagsaðgerð sem um getur. (Gripið fram í: Það er nú ekki rétt.) Með þeim vitlausari, og er þá tekið inn í myndina ýmislegt sem hæstv. ríkisstj. hefur dottið í hug að láta ganga yfir þjóðina. (GJG: Það er líka rangt.) Það skyldi þó ekki vera, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fékk hæstv. ríkisstj. til að samþykkja að leggja fram lagafrv. um orlof á Alþingi og hann náði þeim merka áfanga að fá þau lög afgreidd fyrir jól. Ég óska hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni til hamingju með þann árangur. En hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er formaður í Verkamannafélaginu Dagsbrún og forseti Verkamannasambands Íslands, auk þess að njóta stuðnings sterkustu afla Alþb., eins og svo glögglega mátti sjá í prófkjöri sem fór fram á vegum Alþb. fyrir skömmu. Þar náði hv. þm. þeim árangri að verða nr. 2 á lista, þvert ofan í áætlanir ýmissa annarra í hans flokki, og það manna sem hafa átt þar skjótan frama á undanförnum árum, þótt þeir hafi ekki hlotið það pólitíska uppeldi eða notið þeirrar náðar að hafa starfað í Alþb. einum stjórnmálaflokka á sínum litríka stjórnmálaferli. Á ég þá að sjálfsögðu við hv. formann þingflokks Alþb. Ólaf Ragnar Grímsson, sem orðaði þessar hugsanir ágætlega þegar hann lýsti vonbrigðum sínum með úrslit forvalsins fyrir nokkrum dögum í dagblöðum. (Gripið fram í.)

Ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á eftir að tala í þessari umr. Þá getur hann ugglaust gefið haldbetri skýringar og lýsingar á því hvað fram hefur farið innan Alþb. í þessum málum. En það er ástæða til þess að hvetja hv. þm., hv. fulltrúa verkalýðsins, til að koma hér í ræðustól og gera grein fyrir skoðun sinni og sinna samtaka varðandi láglaunabæturnar. Mér finnst ekki óeðlilegt að hv. þm., sem á sæti í þessari hv. deild, geri sínum eigin flokksmönnum og geri sínum umbjóðendum, bæði í flokki sem hann starfar í og eins í verkalýðshreyfingunni, grein fyrir því hver hans afstaða sé til láglaunabótanna, en láglaunabæturnar eru það fyrirbrigði þegar hæstv. ríkisstj. ætlar að koma til móts við það fólk sem minnst má sín í þjóðfélaginu með þvt að hæstv. fjmrh. fer í jólasveinabúninginn og afhendir alþýðunni jólagjafir með þeim hætti sem honum er lagið. (Gripið fram í.)

Ég vonast til þess að hv. þm. komi hér í ræðustól og geri skýra grein fyrir því, hvað hann vill í þessum málum. Ég vonast jafnframt til þess að hv. þm. segi frá því, af því ég efast um að hæstv. ráðh. úr hans eigin flokki eigi erindi í þennan ræðustól, — ferðir þeirra í þennan ræðustól hafa verið heldur fátíðar að undanförnu, — hvaða tillögur Alþb. hafi gert sem hæstv. ríkisstj. hefur hafnað í vísitölumálunum.

Í dag kemur fram í dagblaðinu Þjóðviljanum að það sé ágreiningur í vísitölumálinu. Haft er eftir aðstoðarmanni hæstv. fjmrh. að ekki hafi verið fallist á tillögur sem miða að því að hægja á verðbólgunni án þess að það bitni á launafólki. Sé þessi frétt á útsíðu Þjóðviljans hins vegar lesin grannt er þeirri spurningu ekki svarað hvaða leiðir Alþb. vildi fara í stað þeirrar leiðar sem boðuð er af meiri hl. hæstv. ríkisstj. í þessu máli, sem er eitt af fylgifrv. brbl. og ýmsir stjórnarsinnar, sérstaklega úr röðum framsóknarmanna, lýstu yfir fyrir jól að yrði að koma fram áður en brbl. fengju endanlega afgreiðslu. Nú hillir undir að það gerist alveg á næstu dögum, kannske á morgun. Það er: ef þing verður hér á morgun. Það má búast við því, ef haldið verður áfram með sama ofstopa og hingað til, að þm. verði kallaðir á fund í hv. Nd. á morgun, kannske fyrir hádegi og eftir hádegi og fram eftir öllum degi og um kvöldið líka, jafnvel þótt Alþb.-menn séu á fundi út í bæ, ef hæstv. ráðh. þá mega vera að því fyrir blaðamannafundum. En kannske verður frv. lagt fram á mánudag. Þá hefur vissulega verið staðið við að koma vísitölumálinu inn á Alþingi í þinglegu formi áður en brbl. voru endanlega afgreidd úr deildinni. Það er ástæða til að óska hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og hans flokksbræðrum til hamingju með það. (SV: Liggur ekkert á núna með brbl.?) Veit hv. þm. ekki að lögin eru í gildi?

Ég ræddi hér um vísitölumál. Vissulega væri ástæða til að fara mörgum orðum um þau. Auðvitað hefur það afar mikla þýðingu fyrir verðbólguþróun í landinu hvernig staðið verður að vísitölumálunum. Það kemur fram í Morgunblaðinu í dag og er haft eftir hæstv. ráðh. Pálma Jónssyni, að Alþb. hafi vanefnt loforð sem það gaf í hæstv. ríkisstj. í sumar. Eins og kemur fram í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., 1. lið, segir skýrt og skorinort að það eigi að koma fram nýtt viðmiðunarkerfi sem taki gildi eftir 1. des. 1982. 1. des. 1982 er liðinn eða svo er mér sagt. Ég veit ekki hvort hv. stjórnarsinnar hafa áttað sig á því. Loksins núna, um miðjan febrúar, er talið að hluti hæstv. ríkisstj. ætli að leggja fram vísitölufrv. og sýna eitt af fylgifrv. sem átti nauðsynlega að fylgja brbl. ríkisstj. Síðar í frétt Morgunblaðsins er haft eftir hæstv. fjmrh. að það væri einhver misskilningur að ákveðin niðurstaða hefði fengist í ríkisstj. í gær. g les, með leyfi forseta úr Morgunblaðinu: „. . . Þetta væri mál sem lengi hefði verið til umr. og væri ekki frágengið.“

Mér finnst full ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. hvernig þetta mál stendur, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að í þessari frétt í Morgunblaðinu koma fram tvö gersamlega ólík viðhorf til þess hvar málið sé raunverulega á vegi statt. Jafnframt hlýtur það að vera sjálfsögð krafa að talsmenn Alþb. lýsi hér í hv. Nd. í þessum umr. hverjar þeirra tillögur voru. Ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson tekur það hlutverk að sér þegar hann tekur til máls síðar í þessum umr. (GJG: Þetta er gagnmerk ræða.) Ég heyri að hv. þm. hefur gaman af ræðunni. Ég gleðst þegar ég get gert hann ánægðan. Það er allt of sjaldan. — Ég var bara að athuga hvort einhver sæti í forsetastól. Það fór meira fyrir hæstv. forseta fyrr á þessum fundi. (Forseti: Er ekki gott að fá kyrrð?)

Í Dagblaðinu og Vísi í dag er viðtal við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem er formaður þingflokks Alþb., og þar segir hann, með leyfi forseta:

„Það hefur aldrei verið samþykkt í þingflokki okkar að það ætti að fara að breyta vísitölukerfinu með þeim hætti sem nú er rætt um. Hverjir hafa svikið? Það er grundvallaratriði brbl. að sama hækkun skyldi verða á fiskverði, launum í landi og launum bænda. Þetta grundvallaratriði sviku þeir Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason í janúar. Þá var fiskverð hækkað um 20% og gengislækkun helmingi meiri en Seðlabankinn lagði til“, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., í viðtali við DV í morgun. „Þessu mótmælti Alþb. í ríkisstj. Við höfum ekki haft hátt um það, en fyrst farið er að saka okkur um svik er rétt að það komi fram.“ — Hér lýkur tilvitnun í orð formanns þingflokks Alþb., sem er annar tveggja stjórnarflokka núv. ríkisstj.

Ja, það er gott samkomulagið á þessu heimili. Þeir bera sakir hver á annan og tala um svik, segjast hafa mótmælt, lagst gegn málum, en það hafi farið leynt. Hver trúir því að fulltrúar Alþb., hæstv. ráðh. í hæstv. ríkisstj., hefðu þagað yfir þessu máli allan þennan tíma? Ég trúi því varla. En það er full ástæða til að fá staðfestingu á þessum ummælum formanns þingflokks Alþb. í þessum umr. Það getur hann því miður ekki annast sjálfur því hann situr í hv. Ed., en ég veit að ástkær vinur hans, hv. 7. þm. Reykv., mundi áreiðanlega taka það hlutverk að sér með mikilli gleði og skýra út hvað sé hæft í ummælum þingflokksformannsins eða ef einhver hæstv. ráðh., t. a. m. hæstv. sjútvrh. eða hæstv. viðskrh., sæi sér fært að skýra út hvort hér sé rétt með farið.

Í dagblaðinu Tímanum er fjallað um þetta mál. Þar er því lýst í stórum dráttum út á hvað þetta nýja frv. á að ganga. Vissulega væri fengur í því að fá upplýsingar um það hér og nú á þessum fundi, hvort þar sé rétt eftir haft, því að auðvitað hafa vísitölumálin, bæði nýr vísitölugrundvöllur, verðbótatímabilin og frádráttarliðirnir, ákaflega mikla þýðingu fyrir alla verðlagsþróun í landinu, en brbl. er einmitt ætlað að færa verðbólguna niður þótt það hafi ekki tekist eins og efni stóðu til. Það væri auðvitað algerlega út í bláinn að klára umr. um brbl. áður en það liggur fyrir hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að standa að vísitölumálinu. Vísitölumálið er svo mikilvægt. Það hefur sjálf hæstv. ríkisstj. viðurkennt með því að hafa þetta mál númer eitt í upptalningu þeirri í tuttugu og einum lið í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. sem fylgdi brbl.

Því miður vantar ýmsa hæstv. ráðh., sem vissulega hefði verið hægt að spyrja frekar út í þetta mál, en ég treysti á það, herra forseti, að séð verði fyrir því að hæstv. ráðh. fái tækifæri til að skýra út hvar vísitölumálið stendur í raun, hvernig á að afgreiða það og hvert efnisinnihald lagafrv. er, því það er svo stór þáttur í þeim efnahagsráðstöfunum sem nú er verið að fjalla um, þótt sjálf brbl. séu búin að vera í gildi í hartnær sex mánuði.

Herra forseti. Ég sagði það fyrr í minni ræðu að aðalefni brbl. væri tvenns konar, annars vegar launaskerðingin og hins vegar vörugjaldið. Ég hef gagnrýnt það harkalega, og ég efast um að það standist stjórnarskrárákvæðin, að setja brbl., sem byggja á brýnni nauðsyn, þegar haft er í huga það ákvæði sem fjallar um framlengingu tímabundins vörugjalds frá 1. janúar til 31. des. á þessu ári. Það getur enginn maður fært rök fyrir því, að það hefði í ágústmánuði s. l. borið brýna nauðsyn til að setja lög sem ekki taka gildi fyrr en fjórum mánuðum síðar — ekki síst þegar það er haft í huga að samkomutími Alþingis er 10. okt. og hv. Alþingi hefði þess vegna fengið næg tækifæri til að ræða slíka löggjöf. Þetta er algerlega út í hött. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður vogi sér að reyna að réttlæta að setja slíkt í brbl., þótt það megi vissulega réttlæta að sumt annað, sem í brbl. var, hefði átt heima í slíkri löggjöf. Má þar t. d. nefna gengismuninn, fyrst farið var að tala um hann.

Ef ríkisstj. var komin á þann höggstokk að þurfa að efna til aðgerða eins og skattahækkananna var auðvitað síðasta tækifærið fyrir hana að gera það á þessum tíma, enda hafði hún ekkert aðhafst í efnahagsmálum allt frá því snemma árs 1981, þegar hún setti brbl. um efnahagsráðstafanir í jólafríi þm.

Það var vitað mál að allt síðasta ár logaði í slagsmálum á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Strax í upphafi árs kom fram tillaga frá öðrum stjórnarflokknum um að rjúfa þing. Því var hafnað. Það kom fram tillaga frá hinum stjórnarflokknum um að beita brbl. Það fékkst ekki í gegn. Ákveðið var að bíða fram yfir sveitarstjórnarkosningar í þeirri veiku von að þær sýndu að styrkur ríkisstj. væri einhver. Í þeim kosningum sigraði Sjálfstfl. Það var beðið með þetta fram yfir kjarasamninga, og það tókst. Það var varla þornað blekið á kjarasamningunum þegar hv. stjórnarþm., þ. á m. sjálfur formaður Dagsbrunar og formaður Verkamannasambandsins, stóðu að því að taka 10% til baka. Og þetta er hv. 7. þm. Reykv. sáttur við. En hv. 7. þm. Reykv. var upphaflega kosinn á þing undir kjörorðinu „Kjósum gegn kaupránsflokkunum — samningana í gildi“. Nú fæst hv. 7. þm. Reykv. ekki til að tala í þessu máli. Hann þorir ekki einu sinni í ræðustólinn. Hver veit nema þessi frýjunarorð mín beri einhvern árangur. Þá er það vel.

Hver voru markmiðin með þessum brbl.? Þau koma fram á bls. 10 í því þskj. sem hér er til umr. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Aðgerðir ríkisstj. mótast af eftirfarandi fjórum meginmarkmiðum:

Í fyrsta lagi að draga verulega úr viðskiptahalla, þannig að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd.“

Hér geri ég hlé á lestrinum. Þetta er fyrsta markmiðið. Nú er ljóst að viðskiptahallinn á síðasta ári var ekki 9%, eins og hæstv. ríkisstj. hélt að hann yrði í lok ársins, heldur yfir 11%. Því er jafnframt spáð, að á yfirstandandi ári verði viðskiptahallinn 8–9% af þjóðarframleiðslunni. Þá á ég við nettóhalla, sem svo er kallaður, á yfirstandandi ári. Láta mun nærri að það svari til 3 þús. millj. kr. M. ö. o. er verið að taka lán erlendis fyrir þessum mun — lán í eyðslu hæstv. ríkisstj. upp á 3 þús. millj. Ef menn vilja hafa einhverja tölu til samanburðar, þá nema allir tekjuskattar landsmanna, bæði einstaklinga og fyrirtækja, og eignarskattar til samans aðeins 2 þús. og 400 millj. eða 2.4 milljörðum. Það er sem sagt talsvert lægri upphæð en sú upphæð sem safnast saman í aukaskuldir íslensku þjóðarinnar erlendis vegna rangrar stefnu í gengismálum, sem gerir það að verkum að viðskiptahallinn er jafnmikill og raun ber vitni. Allir tekjuskattar landsmanna og allir eignarskattar eru minni upphæð en safnast upp í erlendum eyðsluskuldum vegna þess að þjóðin eyðir um efni fram, fyrst og fremst vegna vanstjórnar í efnahagsmálunum. Þetta er staðreynd.

Það er jafnframt staðreynd, að sú hæstv. ríkisstj. sem hér situr á engan möguleika á því að vinna af einhverju viti í þessum málum. Það er þrátefli í þinginu. Stjórnarandstaðan getur ekki fellt ríkisstj. Stjórnarandstaðan getur ekki breytt lagafrv. Stjórnarandstaðan á þann kost einan að fella stjfrv. ef hún vill losa þjóðina við hæstv. ríkisstj. (ÓÞÞ: Ef hún vill það.) Ef hún vill það. Nú efast einn Vestfirðingur um það. En ég held að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þurfi ekki að tala við marga kjósendur sína á Vestfjörðum til að komast að hinu sanna. Flestallir ef ekki allir, kannske allir nema hann og hv. samþingismaður hans hæstv. sjútvrh., vilja vart halda lífinu í þessari ríkisstj. Þó hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir að hann telji að það hefði átt að fara að ráðum stjórnarandstöðunnar og kjósa strax í haust, enda gangi þetta ekki lengur. Það hefur þó hæstv. ráðh. fram yfir hv. þm. sem hefur starfað með honum undanfarið kjörtímabil á Vestfjörðum. (ÓÞÞ: Er þá ekki rétt að láta lögin koma til atkvgr.?) (Forseti: Ekki samtöl í þingsalnum.) Veit ekki hv. þm. að þessi lög eru í gildi? Hvar hefur hv. þm. verið? Þessi lög gengu í gildi í sumar, í lok ágústmánaðar. Ég vona að hv. þm. hafi efni á að kaupa sér útvarp. Hann kaupir alla vega Tímann. Hann hlýtur að lesa Tímann, jafnvel á sumrin. Ég tel að hv. þm. sé læs. Að sögn var hann skólastjóri eitt sinn og kenndi öðrum að lesa. Það skyldi þó ekki vera að hann gæti ekki lesið sjálfur. (ÓÞÞ: Má ekki greiða atkv. um lögin?) (Forseti: Ekki samtöl á fundinum)

Herra forseti. Ég var að lýsa markmiðunum með þessum brbl. og ég var að benda á að fyrsta markmiðið hafi verið að draga verulega úr viðskiptahalla. Þrátt fyrir að þessi ágætu lög, sem hv. þm. kalla svo, séu í gildi og verði áfram í gildi, það er gert ráð fyrir því, er viðskiptahallinn 8–9% af þjóðarframleiðslunni á þessu ári.

Í öðru lagi var það markmið með þessum lögum „að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum til að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja þannig öllum landsmönnum næga atvinnu“. Þetta er annað markmiðið með brbl. Það fyrsta sem hæstv. ríkisstj. gerði til að ná fram þessu markmiði, að auka framleiðni og framleiðslu, var að gefa launþegum lengra frí með því að leggja fram á Alþingi orlofslög. Sumarleyfi landsmanna lengist með þeim hætti að það hlýtur óhjákvæmilega að draga verulega úr framleiðni og framleiðslu, sérstaklega framleiðstu. Hvað skyldi þetta kosta? Það er erfitt að mæla það. Sumir segja að það kosti meira, aðrir minna. En sjálfur ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hefur sagt að ef ríkisstarfsmenn eiga að geta haldið úti sömu þjónustu og áður og ríkisvaldið á að geta gert nákvæmlega sama eftir að orlofslögin voru samþykkt kosti það 200 til 250 nýja ríkisstarfsmenn. Þetta eru tölur sem ekki eru búnar til út í loftið. Þetta er tölur sem eru fengnar hjá Höskuldi Jónssyni, sem er ráðuneytisstjóri í fjmrn. Þannig hyggst hæstv. ríkisstj. auka framleiðni og framleiðslu hjá þjóðinni. Auðvitað á það sama við annars staðar í atvinnumálum og hjá þeim atvinnufyrirtækjum sem skapa auðinn sem ríkið nærist af. En sannið þið til: Það verður ríkisvaldið sem verður í fyrirrúmi. Ríkið sér um sitt, enda hefur þessi hæstv. ríkisstj. verið skattaglaðasta ríkisstj. sem setið hefur að völdum á Íslandi frá upphafi. Er þá mikið sagt því hér á landi hafa setið hreinar vinstri stjórnir.

Þriðja markmiðið með setningu brbl. var „að verja lægstu laun, eins og unnt er, fyrir þeim samdrætti, sem orðið hefur í þjóðartekjum“. Þetta var gert með láglaunabótunum. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um láglaunabæturnar. Ég þykist vita að um þær verði frekari umr., og ég veit að hv. 7. þm. Reykv. ætlar að koma í ræðustól og segja sitt álit á þeim. Kinkar hann kolli og samþykkir það.

Í fjórða og síðasta lagi var það markmiðið með þessum brbl. að veita viðnám gegn verðbólgu. Hvernig skyldi það hafa tekist? Það hefur tekist með þeim ágætum að talið er að verðbólga á þessu ári, mæld í framfærsluvísitölu frá upphafi til loka árs, verði í kringum 70%. Þjóðhagsstofustjóri sagði fyrir jól milli 60 og 80%. Seðlabankinn hefur látið frá sér fara upplýsingar um að það láti nærri að hún sé 75%. Þetta er að veita viðnám gegn verðbólgu í munni þeirrar hæstv. ríkisstj. sem sagðist í upphafi starfsferils síns að yfirlögðu ráði og eftir að hafa kannað málin mjög rækilega, í febrúar 1980, ætla sér að koma verðbólgunni niður í sama stig og hún er í nágranna- og viðskiptalöndunum árið 1982. Skyldi hæstv. fjmrh. vita hver er verðbólgan í nágranna- og viðskiptalöndunum? Er hún 60% — eða 70%? Svarið er nei. Verðbólgan er þar á milli 5 og 10%. Samt sem áður situr hæstv. ríkisstj. Hún er búin að hafa þessi brbl. í gildi í sex mánuði með þeim gífurlega mikla árangri að koma verðbólgunni úr 60 stigum í 75. Menn þurfa að standa á haus til að skilja svona vísindi!

Herra forseti. Hinn 1. febrúar s. l. gaf Seðlabankinn út fréttatilkynningu sem innihélt yfirlit um stöðu efnahagsmála í upphafi ársins. Sú lýsing á efnahagsmálunum, sem í þessari fréttatilkynningu er, er með þeim hætti að allar hæstv. ríkisstj. í siðuðum löndum, sem fengju slíkan dóm, mundu umsvifalaust hafa sagt af sér. En sú hæstv. ríkisstj. sem hér situr heldur áfram að sitja, situr og situr, er þaulsætin án þess að geta stjórnað.

Í þessari fréttatilkynningu er staðfesting á því, sem ég hef fyrr sagt í ræðu minni, að ekkert hafi verið gert nægilega snemma til að veita það viðnám við verðbólgunni sem nauðsynlegt var strax í upphafi s. l. árs, en ekki í lok ágústmánaðar, eins og hæstv. ríkisstj. gerði loksins þegar hún gerði eitthvað.

Í yfirliti Seðlabankans, sem er helsta upplýsingastofnun hæstv. ríkisstj. ásamt Þjóðhagsstofnun, er jafnframt staðfest að viðskiptahallinn hafi farið yfir 11% af þjóðarframleiðslu á s. l. ári. Þar er gert ráð fyrir að enn aukist eyðsluskuldir erlendis vegna áframhaldandi gífurlegs viðskiptahalla og það kunni að gerast á yfirstandandi ári að skuldir íslensku þjóðarinnar erlendis nemi 50% af þjóðarframleiðslunni og greiðslubyrði, það sem þjóðin þarf að borga af þessum skuldum sínum erlendis, nálgist að vera þriðjungur af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þetta hefur stundum verið orðað svo, að þriðji hver fiskur sem við öflum fari í að greiða hinar gífurlegu skuldir. Nú gæti maður haldið að hæstv. ríkisstj. hafi bara ætlað sér að gera þetta með þessum hætti, hún hafi ekki haft nein önnur markmið. Nei, það er öðru nær. Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. segir, með leyfi forseta:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u. þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“

15% í stjórnarsáttmála, 30% í raun. Og áfram situr þessi hæstv. ríkisstj.

Í skýrslu Seðlabankans er það rifjað upp hvernig gengisþróunin hefur orðið í landinu, en það vita allir að Bandaríkjadollar hækkaði um tæplega 103% á s. l. ári frá áramótum til áramóta. Það er á þann lánamarkað, lánamarkaðinn í Bandaríkjunum eða lánamarkaðinn sem lánar í bandarískum dölum, sem hæstv. ríkisstj. hefur sent opinber fyrirtæki, bæði sveitarfélaga og hæstv. ríkisstj., ríkisfyrirtækin, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur þráast við og ekki leyft þær hækkanir sem þarf, og sagt: Takið þið bara lán. Þau lán voru á s. l. ári á vöxtum sem svara til 115% vaxta, sé miðað við íslensku krónuna, hvorki meira né minna.

Í seðlabankayfirlitinu er fjallað um fjölmörg önnur atriði. Það er í raun og veru furðulegt að það skyldi enginn hafa spurt að því hvers vegna stjórn Seðlabankans og bankaráð gáfu út þessa fréttatilkynningu einmitt á þessum tíma. Ég held að skýringin sé sú, að formaður bankaráðsins, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hafi gefist upp. Hann getur að vísu ekki sem einn af hv. þm. Framsóknarflokksins leyft sér þann munað að koma hér í ræðustól á Alþingi. Það er búið að setja tappa í kokið á þeim öllum. Þeir mega ekki tala. Þeir mega ekki hafa skoðun. Þeir verða að þegja. En þessi hv. þm. sá sér leik á borði og stóð fyrir því að Seðlabankinn, en hann er formaður bankaráðs þess banka, gaf út þetta álit sitt á ríkisstj. Auðvitað var þetta heppileg leið fyrir hv. þm. Þarna gat hann sagt sannleikann eins og hann lysti — þann sannleika sem hann má ekki segja hér í þingsölum.

Það er athyglisvert, að á sama tíma og verið er að krefjast afgreiðslu brbl., þrátt fyrir þær óskir að stjórnmálaflokkarnir geti komið sér saman um það mál, sem auðvitað er miklu stærra mál, sem er kjördæmamálið, skuli það gerast að lánsfjáráætlun, lánsfjárlög, koma ekki fram. Hæstv. fjmrh. sagði í þingræðu í haust, í okt. ef ég man rétt eða í byrjun nóv., að lagafrv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun kæmu fram eftir nokkrar vikur. Þá var hann þýfgaður um þetta mál vegna þess að það er lagaskylda að láta lánsfjáráætlun fylgja fjárlögum. Hann sagði „nokkrar vikur“. Síðan eru liðnar líklega 12 vikur. Og nú er ástæða til að spyrja hæstv. ráðh.: Hvað telur hæstv. ráðh. að „nokkrar vikúr“ séu margar vikur? Hvernig skilur hann „nokkrar vikur“? Ég vona að hæstv. ráðh. hafi heyrt þessa fsp. (Gripið fram í: Hann er að lesa Morgunblaðið.) Þá heyrir hann ekkert á meðan.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka þegar fjallað er um efnahags- og atvinnumálin í þeirri umr. sem hér fer fram, og það er nauðsynlegt að íslenska þjóðin fái að kynnast því hvernig ástand mála er í raun. Það er full ástæða til að gefa sér góðan tíma, ekki síst vegna þess að þessi lög eru í gildi, til þess að kanna rækilega hvernig til hefur tekist með þessum brbl., sem nú hafa verið í gildi í sex mánuði. Það er alveg bráðnauðsynlegt að rifja upp markmiðin og kanna hvernig þeim hefur gengið í raun, hvort lögin hafi náð tilgangi sínum. En það er jafnframt full ástæða til að átta sig á því, að hæstv. ríkisstj. gaf út yfirlýsingu í 21 lið með brbl. og þar er fullt af atriðum, sumum ákaflega gagnlegum og skemmtilegum hugmyndum, sem sjálfsagt hefði verið að styðja, en þegar þessi yfirlýsing er lesin kemur í ljós að ýmislegt, sem þar er sagt, hefur alls ekki verið framkvæmt. Það hlýtur þess vegna að vera krafa hv. þm.hæstv. ríkisstj. segi frá því hvernig mál standa samkv. þessum 21 lið. Ég veit að tvö eða þrjú mál eru komin fram, en 17–18 sitja eftir. Það er auðvitað algerlega ótækt að hér skuli þurfa að flytja fsp. um þetta atriði. Við 1. umr. málsins í Nd. var hæstv. forsrh. spurður margra spurninga, en hann vék sér frá því að svara. Og hvers vegna í ósköpunum gefa ekki hæstv. ráðh. svarað? Og ég spyr nú: Hvar í ósköpunum eru hæstv. ráðh.? Þeir virðast hafa gufað upp.

Það væri hægt að flytja langt mál um þróun efnahagsmálanna á þeim fimm árum sem senn eru liðin frá því að vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar tók við völdum hér á landi, en frá þeim tíma hefur flest gengið á afturfótunum, þrátt fyrir að a. m. k. tvö ef ekki þrjú þessara ára hafa verið mestu aflaár, fengsælustu ár, á Íslandsmiðum. Svo lánlaus hefur hæstv. ríkisstj. verið að henni hefur ekki tekist að nýta sér hinn mikla afla til þess að mynda þá fyrirstöðu í verðlagsmálum sem auðvitað er nauðsynlegt að gera. Það er aðeins þegar vel gengur að hægt er að skapa þá fyrirstöðu. Það hlýtur ávallt að vera erfiðara þegar slær í bakseglin að veita það viðnám sem þarf, því að það eru atkunn sannindi í þessu þjóðfélagi að það neita allir að gefa eftir þegar herða þarf mittisólina.

Hæstv. ríkisstj. hefur fyrst og fremst talið sig fylgja svo kallaðri niðurtalningarstefnu, en Framsfl. sigraði hann kallaði það a. m. k. sigur sjálfur — í síðustu kosningum og beitti sér þá fyrir svo kallaðri niðurtalningarstefnu. Það átti að gerast með þeim hætti að ákveða átti að verðbólgan dytti niður nánast af sjálfu sér, átti að setja einhver hámörk, sem áttu að taka gildi á nokkurra mánaða fresti, og svo hókus-pókus og verðbólgan úr sögunni. Þessari stefnu hefur verið fylgt með þeim árangri að verðbólgan er nú komin upp í 75%. Í tíð hæstv. ríkisstj. hefur verið rokkað til í gengismálum. Stundum hefur verið fastgengisstefna, stundum hefur allt verið gefið frjálst í þeim efnum. Niðurgreiðslur hafa stundum verið miklar og stundum litlar. Efnt hefur verið til verðbótaskerðingar á laun, ekki bara einu sinni heldur tvisvar í stórum skömmtum, og svo á þriggja mánaða bili samkv. íslenskum lögum, sem sett voru af ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og eru kölluð Ólafstög í höfuðið á honum. Skattar hafa verið hækkaðir meira en nokkru sinni fyrr. Hækkunin í ár frá 1977 nemur 5.7% af þjóðarframleiðslu, og þá er talað einvörðungu um skatta sem renna í ríkissjóð. Þetta þýðir 51 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu á landinu á verðlagi yfirstandandi árs. Hver fimm manna fjölskylda greiðir í dag 51 þús. kr. með ýmsum hætti. Þetta eru auðvitað ekki tekjuskattar. Þetta eru óbeinir skattar; söluskattur, verðjöfnunargjald, vörugjald og slíkir skattar. Hver fimm manna fjölskylda greiðir að meðaltali 51 þús. kr. meira í ár en 1977. Það er gjaldið fyrir að hafa hæstv. ríkisstj. við völd á Íslandi. Ég hef áður fjallað um eyðslu- og óreiðuskuldasöfnun erlendis. Ljóst er að þessari ríkisstj. hefur ekki tekist að halda uppi þeim kaupmætti sem að var stefnt við stofnunina og réði því að Alþb. kom til móts við Framsfl. við myndun þessarar ríkisstj.

Hæstv. ríkisstj. setti sér sáttmála í upphafi stjórnarferilsins, sem er margfrægur að endemum, en lítið er nú vitnað til hans. Í eina tíð var sagt að þetta væri plagg sem allir ættu að lesa eins oft og þeir gætu. Eftir því sem tímar hafa liðið vitna stjórnarliðar æ sjaldnar til stjórnarsáttmálans.

Ég hef minnst á það í minni ræðu hvert var markmiðið í verðbólgumálum samkv. stjórnarsáttmálanum. Í stjórnarsáttmálanum var sagt að það ætti að jafna lífskjör og bæta kjör. Það hefur mistekist. Í stjórnarsáttmálanum var sagt, strax árið 1980, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að hraðað yrði endurskoðun vísitölugrundvallarins. Í febrúar fyrir þremur árum settust niður núv. hæstv. ráðh. og fulltrúar Framsfl. og Alþb. og ákváðu, svo ég vitni í stjórnarsáttmálann: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir því að hraðað verði endurskoðun vísitölugrundvallarins.“ Í febrúarmánuði 1983 eða nánar tiltekið í dag birtist það síðan í blöðunum að hluti hæstv. ríkisstj. mundi flytja vísitölumálið á Alþingi. Það tók hæstv. ríkisstj. hvorki meira né minna en liðug þrjú ár að komast að þeirri niðurstöðu að hún gæti ekki komið sér saman um að endurskoða þetta mál. Hún hlýtur þess vegna að klofna um málið. Þetta er afrek. Þetta kalla ég mikið afrek.

Ég hef áður minnst á hvað sagði í stjórnarsáttmálanum um lántökur. Þar var minnst á staðgreiðslu skatta. Stjórnarskrárnefnd átti að afgreiða sitt mál fyrir árslok 1980. Hún skilaði fyrir skömmu af sér sínu pródúkti. Setja átti lög um framhaldsskóla. Hæstv. menntmrh. hefur haft þrjú ár til þess. Ég kannast ekki við að hafa séð það frv. Setja átti lög um umhverfismál, o. fl. mætti nefna sem ekki hefur gerst.

Herra forseti. Ég hafði í hyggju að spyrja hæstv. landbrh. nánar út í vísitölumálin, vegna þess sérstaklega að hann hefur fyrr á þessu þingi lýst afdráttarlausri skoðun sinni í því máli, en því miður gefst ekki tækifæri til þess hér, hann er ekki viðstaddur. En ég mun að sjálfsögðu, ef þörf krefur, koma aftur í ræðustól á mánudaginn, þegar þessari umr. verður haldið áfram, og óska eftir því að slíkum fsp. verði svarað.

Það er ljóst að þessi fundur, sem haldinn er hér í dag, hefði geta orðið merkilegur fundur ef fallist hefði verið á þá till. að ræða það mál sem efst er á baugi í dag, það sem gerðist á blaðamannafundi hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. Það fékkst ekki fram vegna óbilgjarnar kröfu um að ræða brbl. á þessum sérstaka aukafundi í hv. deild. Ástæðan fyrir því er eingöngu ein. Hún er sú, að þingflokkur Framsfl. getur með engu móti komið sér saman um kjördæmamálið. Það var þess vegna krókur á móti bragði af hálfu þingflokksins að senda formann þingflokksins, Pál Pétursson, með nýtt „Pálsbréf“ til hæstv. forseta og fara fram á að brbl., sem hafa verið í gildi í sex mánuði tæpa, yrðu rædd og útkljáð til þess að Framsfl. þyrfti ekki að taka afstöðu til kjördæmamálsins. Þetta er sannleikurinn í málinu. (Gripið fram í.) Það er stórkostlegt, hv. þm. Stefán Valgeirsson, að þetta skuli vera sami flokkurinn og stóð að því að leggja frv. ekki fram á hv. Alþingi í haust af því að það vantaði fylgifrv., þ. á m. það frv. sem enn er ekki komið í þingsali. Þetta veit hv. þm. jafnvel og ég.

Ástæðan fyrir því að menn þurfa að standa hér og ræðast einir við — og það er ekki einu sinni hægt að spyrja ráðh. því að þeir fást ekki til að svara einu einasta atriði, — er sú, að stjórnarandstöðuflokkarnir ætla sér að koma fram lausn á kjördæmamálinu áður en þessi brbl. verða endanlega afgreidd. Það hefur að sjálfsögðu meginþýðingu að ná samningum um að kjördæmamálið nái fram að ganga. Kjördæmamálið er mikið hagsmunamál og er jafnvel líka efnahagslegt mál þjóðarinnar, því að það færir til völd frá fáum til margra. Við ætlum okkur að ná því máli fram, þrátt fyrir að bolabrögðum sé beitt til að koma í veg fyrir það með þeim hætti sem þingflokkur Framsfl. hefur gengist fyrir að undanförnu.

Við ætlum jafnframt að sjá til þess, að staðið verði við þau fyrirheit, sem formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., hefur látið frá sér fara um að það verði boðað til kosninga þegar í aprílmánuði. Undir orð sjútvrh. hefur tekið hæstv. félmrh., formaður Alþb. Það er auðvitað aðalatriði málsins að hæstv. ríkisstj. fari frá, þannig að hægt verði að efna til kosninga fá skýrari línur í stjórnmálin, koma í veg fyrir þá upplausn sem hér ríkir og það þrátefli sem hefur verið í þingmálum í vetur á ábyrgð ríkisstj. Það verður auðvitað að sýna þjóðinni að Alþingi beri það mikla virðingu fyrir sjálfu sér að þingræðið sé virt í landinu með því að hæstv. ríkisstjórn, sem hefur misst þingmeirihl., fari frá, það verði kosningar og ný ríkisstjórn með þingmeirihluta taki við völdum, sem getur stjórnað í efnahagsmálum þjóðarinnar. Um þetta snýst þetta mál. Það snýst ekki um. hvort laun eigi að vera 7.7% hærri eða lægri. Það snýst ekki heldur um vörugjaldsmálið. Þetta mál snýst um miklu stærri mál. Það snýst um það, hvort þessari þjóð auðnast að koma fram lausn í kjördæmamálinu og hvort hægt verður að mynda stjórn sem getur tekið á málum. Það getur verið dýrt. En það er enn þá dýrara að sitja uppi með ríkisstjórn sem engu getur stjórnað. Það er þess vegna hrapalegt að hugsa til þess að heill þingflokkur skuli nota brögð af þessu tagi eins og þingflokkur Framsfl. hefur í raun gert.

Herra forseti. Það hefur nú heldur fækkað hér í þingsölum. Áhugi manna fyrir þeim brbl., sem þeir eru þó að reyna að knýja á um að verði afgreidd, virðist ekki vera mjög mikill. Þaðan af síður vilja þeir eða þora að skiptast á skoðunum um þetta mál. Hv. stjórnarsinnar koma hvorki hér í ræðustól til að samþykkja eða andmæla því sem sagt er. Þeir sitja — ég hugsaði: eins og heybrækur, en ætlaði mér ekki að segja það, — úti í horni og þora ekki að taka til máls. Og þegar þeir taka til máls gera þeir það með þeim hætti að láta stofnanir í bænum tala, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður seðlabankaráðs, lét Seðlabankann gera þegar hann þurfti að rassskella hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að lýsa fleiri atriðum og fara nánar út í þau fjölmörgu atriði sem þetta mál snýst um og almennt um efnahagsog atvinnumál þjóðarinnar. En þar sem ljóst er að hv. Alþb.-menn eru flestir hverjir gengnir af þingfundi til að geta tekið þátt í öðrum fundarstörfum síðar í kvöld sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Auðvitað hlýt ég að bíða eftir því að þeir hv. þm. sem í þeim flokki starfa fái tækifæri til að svara þeim fsp. sem til þeirra hefur verið beint. Læt ég þess vegna máli mínu lokið að sinni.