11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég mundi vilja óska eftir því við hæstv. 2. varaforseta deildarinnar að leitað verði eftir því hvort aðalforsetar, sem hafa verið á fundum með okkur þingflokkaformönnum, gætu ekki verið hér við. Ég sé að hv. 1. varaforseti er kominn. Ég kom hér upp fyrr í dag, eftir að í ljós kom að hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson hafði látið svo ummælt hér úr þessum ræðustól, að þó að hann neitaði beiðni um að ræða það sem hann ræddi við blaðamenn í hádeginu nú í dag hér á Alþingi, þegar hann var um það beðinn, þá sagðist hann skyldu vera reiðubúinn til þess áður en fundi lyki hér. Ég óskaði þá eftir því við hæstv. forseta að hann beitti sér fyrir því að okkur gæfist ein klukkustund til þess að ræða málið frá kl. 6 til kl. 7, en ljóst er að fundi lýkur hér kl. 7 vegna þess að um það hefur verið gert samkomulag milli þingflokksformanna og forseta þessarar deildar, forseta Sþ. og forseta Ed. að kvöldfundir verði ekki boðaðir nema með talsverðum fyrirvara, svo að mönnum gefist kostur á að gera ráðstafanir til að geta verið viðstaddir. Kunnugt er að þessi fyrirvari var ekki gerður, enda er einn af stjórnarflokkunum, Alþb., búinn að boða í kvöld mikilvægan miðstjórnarfund. Allir þm. Alþb. og ráðherrar verða því fjarverandi og geta engu svarað og engan þátt tekið í umr. á þessu kvöldi. Ég hef ekkert svar fengið við þeirri beiðni minni, að álmálið svokallaða yrði tekið fyrir, eins og hæstv. iðnrh. var búinn að lofa okkur í dag, ég hef ekkert svar fengið við því enn. Nú eru eftir 14 mínútur af þessum fundi og ég spyr hæstv. forseta deildarinnar: Er það tilgangurinn að verða ekki við ósk, sem hæstv. iðnrh. var þó búinn að samþykkja, eða er það tilgangurinn að brjóta samkomulag, sem búið var að gera á fundum forseta og þingflokksformanna um kvöldfundi og boðun þeirra, þó að fyrir liggi að vegna þess að kvöldfundur hefur ekki verið boðaður á tilskildum tíma, eins og samið var um, þá verður einn stjórnmálaflokkurinn fjarverandi frá fundi þó að reynt verði að halda kvöldfundi í kvöld?