14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er mikið búið að ræða um það mál sem hér er til umr. og kvarta undan því síðustu daga að stjórnarandstaðan væri að bregða fæti fyrir framgang málsins. Fyrst og fremst hygg ég að skynsamlegast sé á hverjum tíma að ríkisstj., sem þarf að koma málum fram, reyni að hafa eins gott samstarf við Alþingi — og þá einnig stjórnarandstöðuna og unnt er hverju sinni. Ég minnist þess að á fyrstu árunum sem ég sat hér á hv. Alþingi, þá var ég stuðningsmaður ríkisstj., var viðhöfð sú regla að stjórnarþm. takmörkuðu ræðuhöld til þess að auka ekki á lengd umræðna stjórnarandstöðu. Þá voru einnig gerðar mjög virðingarverðar tilraunir til að hafa víðtækt samstarf við stjórnarandstöðuna til þess að greiða fyrir gangi mála. Ætla mætti að áður en brbl. voru gefin út í ágústmánuði hefðu það verið hyggileg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. að ræða við báða stjórnarandstöðuflokkana um framgang málsins. Viðbrögð stjórnarandstöðuflokkanna voru þau að þess var krafist að þing yrði kallað saman til að ræða þessi mál og afgreiða þau hér á réttan hátt. En ríkisstj. varð ekki við þeirri beiðni. Hún neitaði alfarið að kalla þing saman. Þing kemur svo saman á venjulegum tíma 10. okt. og það líður mánuður frá því að þing kemur saman þar til hæstv. forsrh. leggur brbl. fram til staðfestingar hér á hv. Alþingi. Það lá ekki meira á en þetta.

Hvað er það sem við setjum fyrst og fremst út á, annað en þessi vinnubrögð? Við setjum út á það að með þessum brbl. var ekki verið að rétta þjóðarbúskapinn af vegna þess að atvinnureksturinn í landinu var rekinn með stórfelldum halla. Þessar aðgerðir komu hálfu ári of seint til þess að þær kæmu að verulegum notum, þannig að eitthvað væri á þeim hægt að byggja fyrir þjóðarbúskapinn og atvinnulífið. Ástæðan fyrir því að þessar aðgerðir koma svona seint er sú, að í landinu situr ríkisstj. sem er ósamstæð og getur ekki náð saman.

Í yfirlýsingu sem fylgdi brbl. í ágústmánuði eru boðaðar margvíslegar aðrar aðgerðir, m. a. sú að að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál, þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982. Við töldum þá að slíkt frv. ætti að liggja fyrir þingi jafnhliða brbl. Við töldum líka að frv. um breytingu á orlofi ætti ekki að koma fram nema að þessar nýju viðmiðunarreglur væru komnar fram í frv.-formi. En það frv. kom fram. Þar lét Framsfl. Alþb. kúga sig. Framsfl. setti það á oddinn í haust að frv. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun kæmi fram jafnhliða. En hann hefur látið undan síðan og nú er svo komið að þetta frv. er flutt af forsrh. einum með stuðningi hans aðstoðarmanna í ríkisstj. og framsóknarmanna en gegn Alþb. innan ríkisstj. Þannig er nú málum komið. Þær ráðstafanir sem verið er að gera í þessum brbl. voru orðnar gagnslitlar þegar þær loksins birtust. Þessi lög hafa verið í gildi en þrátt fyrir gildistöku þeirra hefur verðbólgan ætt áfram. Það er því alveg ástæðulaust hjá hæstv. forsrh. að reyna að hella olíu á eldinn á milli stjórnar og stjórnarandstöðu eins og hann gerði s. l. föstudagskvöld. Þá kom reiður gamall maður fram í sjónvarpi en ekki hinn kurteisi stjórnmálamaður Gunnar Thoroddsen. Hann kom meira að segja verr út í fréttunum í litsjónvarpi en í svart/hvítu.

Það kann ekki góðri lukku að stýra fyrir eina ríkisstj. og fyrir forsrh. að koma svona þrútinn af reiði fram fyrir alþjóð. Sjáanlegt er af öllu að eftir 1. mars verður ekkert eftir af þessum brbl. annað en hækkunin á vörugjaldinu, sem var klúðrað þarna inn í á sínum tíma. Við höfum verið alfarið á móti henni því við teljum að á sama tíma og verðbætur eru skertar á laun í landinu sé gengið mjög á ráðstöfunarfé heimilanna og það er gengið mjög á atvinnureksturinn. Það var óþarfi að okkar dómi að hækka svo mjög tolltekjur ríkissjóðs eins og gert var með þessum lögum. Ég tel enga ástæðu til að vera með hávaða og læti út af þessum brbl. Þau eru búin í raun og veru. Það er svo litið eftir af þeim. En hverju bjargaði setning brbl.? Hefur þjóðlífið og atvinnureksturinn komist í réttar skorður? Nei, síður en svo. Allir vita að víðast hvar er ástandið þannig, að atvinnufyrirtækin í landinu eru að stöðvast vegna þess að tilkostnaðurinn hefur aukist miklu meira og hraðar en tekjur atvinnurekstrarins. Veikur atvinnurekstur gerir það að verkum að atvinna launþegans verður ótryggari. Þetta tvennt fer núna saman. Mér er því miklu meira í mun að spyrja ríkisstj., sem ennþá situr, ætlar hún að láta sem hún viti ekki neitt um erfiðleikana í landinu? Er hún ekki með neinar aðrar og nýjar ráðstafanir til þess að treysta atvinnugrundvöllinn? Um það heyrist ekki aukatekið orð að nýjar till. séu í undirbúningi. Hæstv. ríkisstj. er ekkert að gera. Alþingi er hér meira eða minna verklaust mánuðum saman þó að ástandið sé svo alvarlegt.

Svo hælir málgagn Alþb. sér af því að eiga fulltrúa í elstu ríkisstjórn í Evrópu, og það meira að segja þrjá, og hún er þriggja ára. Ef það er eina keppikeflið að stjórnin komist eitthvað á fjórða árið, þá er það lítil barátta fyrir framtíðarheill þjóðarinnar að laða í ráðherrastólana tíu menn sem eru á eilífri ferð og flugi út um öll lönd og álfur. Ég hefði haldið að eitthvað mætti fara að draga úr flakkinu og taka heldur til við að reyna að stjórna landinu og gera skynsamlegar ráðstafanir fyrir atvinnureksturinn.

Ég held að ekkert verði úr sögu þessarar ríkisstj. eftirminnilegra en sjálfur stjórnarsáttmálinn. Þegar við lesum hann yfir leynir sér ekki að í raun og veru hefur ekkert gerst. Allt sem átti að gera er enn ógert. Það hefur láðst að fara í allar framkvæmdir. Talað var um að stórauka framleiðsluverðmæti þjóðarinnar. Það hefur ekkert verið gert í því. Stjórnin virtist skilja það fyrst á árinu 1980 því á gamlársdag 1980 ákvað hún að festa gengið og segja: Verðbólgan skal verða þetta. Við höfum ákveðið það fyrir fram. Ríkisstj. gat ekkert ráðið við verðbólguna, verðbólguskriðið hélt áfram alveg skefjalaust. En genginu var haldið niðri á kostnað útflutningsatvinnuveganna og innflutningurinn, bæði þarfur og óþarfur, var aftur aukinn til landsins og eyðsla aukin. Hinn óþarfi innflutningur var í raun og veru niðurgreiddur á meðan útflutningsatvinnuvegunum var að blæða út.

Stór hluti þess mikla vanda sem þjóðin stendur núna frammi fyrir stafar einmitt af þeim röngu ákvörðunum sem þá voru teknar. Okkur er ljóst að samvinna okkar á sviði verslunar og viðskipta, aðild okkar að EFTA og samningur okkar við Efnahagsbandalag Evrópu veitir okkur margvísleg fríðindi, en við erum líka þar á móti skuldbundnir til að setja ekki háa tolla á vörur hinna. Hins vegar erum við ekki endilega skuldbundnir til að flytja alltaf inn allt erlendis frá og hunsa það sem framleitt er heima. Það er ekkert gert til að glæða hjá almenningi það hugarfar að láta það sem framleitt er hér heima ganga fyrir, örva okkur til að kaupa það. Hvers vegna erum við að flytja inn öl og gosdrykki erlendis frá þegar sú vara er framleidd í landinu? Hvers vegna látum við ekki íslenskan iðnað njóta þess og kaupum ekki aðrar vörur? Það hefði verið nær að taka upp nokkurs konar verðlaun til þeirra sem vörum dreifa, til þeirra sem afgreiða í verslunum, hvort sem er í einstaklingsverslunum eða samvinnuverslunum, og þeirra fyrirtækja sem auka sölu á innlendum iðnaði, að þessir aðilar hlytu einhvers konar verðlaun af hendi hins opinbera. Með því treystum við atvinnugrundvöll þess fólks sem vinnur að iðnaði. Ekkert af þessu hefur verið gert. Það er eins og stjórnin hafi ekki haft tíma til að hugsa um þessi atriði.

Ég ætla ekki að minnast á sjávarútveginn. Það yrði of langt mál og ég kæri mig ekkert um að bregða fæti fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég vil mjög gjarnan að það fái þinglega meðferð og afgreiðslu, því þetta er í raun og veru orðið svo lítið mál, eins og ég sagði hér áðan, að það er kominn tími til að hugsa fyrir öðrum aðgerðum til þess að halda atvinnulífinu gangandi. En mig langar að víkja að þeirri till. sem hæstv. sjútvrh. flutti um ráðstöfun gengishagnaðar. Ég tel þá till. fráleita. Ég tel að eins og komið er í sölumálum skreiðar veiti skreiðarframleiðendum alls ekki af því að fá það gengi sem skráð er þegar og ef skreið selst. Söluhorfurnar eru enn verri nú en þær voru um síðustu áramót vegna þess hve illa er fyrir því ríki komið sem kaupir mest af skreiðinni. Olían er aðaltekjulindin þar í landi og þegar hún lækkar verða möguleikar á sölu þangað sífellt minni. Má búast við því, ef skreiðin á annað borð selst, að hún seljist ekki nema með því að lána andvirðið til nokkuð langs tíma. Og þá sjá allir að framleiðendum þessara afurða, sem hafa tekið lán út á þær og verða að borga háa vexti og geymslukostnað, veitir sannarlega ekki af því að fá skráð gengi eins og það verður þegar þessar afurðir fara úr landi. Ég er eiginlega undrandi á því að ríkisstj. eða hæstv. sjútvrh. skuli flytja slíka till. undir þessum kringumstæðum. Ég held að hér sé verið að ráðstafa gengishagnaði sem í raun og veru er ekki til og verður e. t. v. aldrei til. Og það hefur ekki fram til þessa þótt mikil fyrirhyggja. En nú eru breyttir tímar. Nú virðist það vera helst í tísku að ráðstafa því fjármagni sem ekki er til eða ráðstafa sama fjármagninu oftar en einu sinni. Það er erfitt að fá okkur sem erum komnir á minn aldur til að skilja það.

Eins og síðasti ræðumaður tók fram var hann annar ræðumaður Sjálfstfl. við þessa umr. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli hafa á föstudagskvöldið ásakað sinn flokk um það að halda uppi málþófi hér á þingi og reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu mála. Mér finnst það ákaflega ósanngjarnar aðdróttanir á hendur Sjálfstfl. á sama tíma og ekkert er gert til að ná samkomulagi um gang mála. Ég hef vanist því að allar ríkisstjórnir, sem setið hafa frá því að ég tók sæti hér á þingi, legðu sig fram um það að semja við stjórnarandstöðu um gang mála. Samtalið í sjónvarpinu varð ekki til þess að greiða fyrir því, þó ég telji þörf á því að fá afgreiðslu á þessum lögum til þess að hægt sé að fara að tala um framtíðina, tala um það sem þarf núna að gera en enginn minnist á.

Ég skal svo ljúka þessu með því að láta það koma fram, eins og ég raunar sagði fyrr, að ég mun greiða atkvæði á móti þeirri till. sem hæstv. sjútvrh. flytur og liggur hér fyrir til afgreiðslu. Það stafar af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan, að hér er verið að ráðstafa gengishagnaði sem ekki er til og verður ekki til. Það er fráleitt að samþykkja slíka till.