01.11.1982
Neðri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

28. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa hér upp hverjir sóttu um og hverjir fengu úthlutað úr umræddum sjóði, þar sem hér hafa komið fram yfirlýsingar um að enginn aðili úr ákveðnu kjördæmi hafi haft rétt til samkv. lögum sjóðsins að fá fjárframlag úr þessum sjóði, sem var nú hugsaður fyrir allt landið, að mér skildist, ekki bara í skattheimtunni heldur einnig til dreifingar. Þeir sem hafa fengið úthlutað eru Borgarspítalinn 18 millj., Borgarnes 300 þús., Stykkishólmur 300 þús., Sauðárkrókur 2 millj. 200 þús., Dalvík 1 millj., Akureyri 1 millj., Ólafsfjörður 500 þús., Húsavík 1 millj., Egilsstaðir 1 millj., Hella 500 þús., Garðvangur 500 þús., DAS Hafnarfirði 4 millj., Kópavogur 1 millj., hönnunarkostnaður Sólvangur 700 þús., stjórnunarkostnaður 100 þús. og Vopnafjörður 100 þús. Þessum hefur verið synjað: Ríkisspítölunum, Biskupstungnahreppi, Kirkjubæjarklaustri, Neskaupstað, Náttúrulækningafélagi Akureyrar, Hvammstanga, Ísafirði, Reykhólum, Ólafsvík, Grundarfirði, Búðardal, Sambandi lífeyrisþega ríkis og bæja og í þrettánda lagi hefur verið synjað um könnun á högum 80 ára og eldri.

Við upplestur þennan fer það ekki milli mála að hv. 1. landsk. þm. má vel við una og njóti hann vel, en það er svo hans skoðun, en ekki mín, að það sé sjálfsagt að þeir sem sóttu um í Vestfjarðakjördæmi séu skildir út undan.