14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

171. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að þessi breyting sem lögð er til með þessu frv., sé ákaflega lítt hugsuð. Ég held að það fari ekki milli mála að það er faglegt mat sem verður að ráða því hvernig örorka er metin. Og ég tel að það sé rangt að breyta til á þann hátt að taka það úr höndum lækna, sem einir hafa menntun til þess að úrskurða um örorku.

Hitt er annað mál og hefur oft komið upp, að það getur verið á því nokkur nauðsyn að hafa einhvern aðila sem hægt er að vísa ágreiningsmálum til og þá ekki eingöngu mati á örorku, heldur öllum greiðslum almannatrygginga. Þá á slíkt ekki að vera að mínum dómi innan Tryggingastofnunar ríkisins, heldur hlutlaus dómur þeirra aðila sem fá slíkt verkefni í hendur. Þannig er ekki óeðlilegt að Hæstiréttur skipaði slíkan dóm, og mætti vísa öllum ágreiningsmálum einstaklinga og Tryggingastofnunar til slíks dómstóls.

Félagslegt mat verður aldrei framkvæmt í sambandi við örorkuna. Örorkan er jafnmikil hvort sem maðurinn er einn og sér eða hvort hann hefur mörg börn á sínu framfæri. Ef það er talið sanngjarnt að hækka örorkubætur við það að viðkomandi hafi þungt heimili verður það ekki gert í sambandi við nefnd sem slíka. Þá er það pólitísk ákvörðun, sem tekin er hverju sinni, hverjar bótareglur eiga og þurfa að vera. Ég get að sjálfsögðu verið sammála hæstv. ráðh. um að nauðsynlegt er að hafa örorkubætur misjafnar. En örorkumatið verður framkvæmt alltaf á einn og sama veg. Það er læknisfræðilegt mat sem framkvæma verður. Ef bornar eru brigður á það mat verður það auðvitað að fara fyrir æðri dóm.

Ég minnist þess, að á þeim tíma sem ég gegndi embætti heilbr.- og trmrh. komu nokkur atriði fyrir sem orkuðu mjög tvímælis og varð ágreiningur um á milli rn. og tryggingaráðs. Þessi mál voru ekki mörg, en þau komu fyrir. Þá hefði ég gjarnan viljað hafa æðri dómstól, sem hefði dæmt um þennan ágreining. Það kom t. d. aldrei fyrir ágreiningur um örorkumat. En það var ágreiningur um t. d. barnalífeyri. Konu sem ekki gat feðrað barn var neitað um barnsmeðlag þangað til hitt lægi fyrir. Meira að segja kom það fyrir, að þegar kona var búin að feðra gat sá sem var dæmt barnið fengið sannanir fyrir því að hann væri ekki faðir barnsins. Þá átti að fella niður barnsmeðlagsgreiðslu og þá hélt tryggingaráð mjög fast í þessi ákvæði, sem ég taldi fyrir mitt leyti vera ranglát. Að því leyti get ég tekið undir það sem er á bak við þetta frv., en ekki að það sé þörf á einhverjum slíkum aðila, sem úrskurðar þá um öll ágreiningsatriði, ekki bara þetta eina heldur hvert einasta ágreiningsatriði, hvort sem það er um lífeyrisgreiðslur eða sjúkragreiðslur eða annað slíkt sem heyrir undir starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Ég tel að þetta form, sem hér er lagt til, sé alveg ótækt og sé enga ástæðu til þess að forstjóri tilnefni einn og heilbr.- og trmrh. tilnefni þann þriðja úr hópi starfsmanna Tryggingastofnunarinnar. Hvað er þá með aðrar deildir þar? Hvað með ágreining sem verður í öllum öðrum deildum? Á það að vera eftir sem áður?

Nú vita menn að þegar skilað hefur verið inn örorkuvottorði til embættis tryggingayfirlæknis eða umsókn um örorkubætur og lagt hefur verið fram skattaframtal og þær félagslegu upplýsingar sem talið er nauðsynlegt að afla, þá framkvæmir læknir örorkumatið. Það eru auðvitað fleiri en einn læknir við embætti tryggingayfirlæknis. Sjúklingur getur leitað til allra þeirra lækna sem eru til viðtals innan þessarar stofnunar. Hlutverk félagsfræðings er að afla allra viðbótarupplýsinga um félagslegar aðstæður þess sem um örorkumat sækir, ef þurfa þykir. Gangur mála er sá, að sjúklingar eru oft kallaðir til viðtals við lækni stofnunarinnar og félagsfræðinga, ef sjúkdómsvottorð gefa ekki nægar upplýsingar. Ég tel að þessi mál þurfi að athuga í þessu ljósi, en eins og frv. liggur fyrir get ég ekki stutt það, en er mjög opinn fyrir því að gera eina breytingu á öllu skipulaginu, að öllum ágreiningi fólks við stofnunina sé vísað til æðra dómstóls, sem væri skipaður með þeim hætti sem ég nefndi eða einhverjum öðrum sem betur þætti henta.