14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Halldór Blöndal (frh.):

Herra forseti. Mér skildist að um það hefði samist fyrir þingflokksfundi að hæstv. fjmrh. yrði hér viðlátinn. Það hefur nú legið fyrir um hríð að ég teldi mig þurfa að bera upp ákveðnar fsp. til hæstv. fjmrh. í tengslum við þetta mál. Á hinn bóginn hefur deildinni ekki unnist tími til að leyfa það. Ég vænti þess að það geti gengið fram nú. (Forseti: Er fjmrh. í húsinu?) (Gripið fram í: Já.) Og hverju svarar hann beiðni um að koma hér til fundar? (Gripið fram í: Hann svaraði engu. Hann veit það ekki.)

Herra forseti. Það er gamalt orðtak að með lögum skuli land byggja. Nú þekkjum við allir alþm. lög um stjórn efnahagsmála o. fl. frá 10. apríl 1979 og kannske af þeim sökum ekki ástæða til að rifja upp hvað í þeim stendur. Á hinn bóginn er nú svo komið að óhjákvæmilegt er, þar sem við erum sérstaklega að ræða frv. ríkisstj. um efnahagsaðgerðir, að rifja upp hvað í þeim lögum stendur um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj. Nú skyldi enginn láta sér detta í hug að þessi upprifjun mín á lögum Íslands sé að ástæðulausu fram borin þegar ég er að tala um lánsfjáráætlun. Vil ég í þeim efnum rifja upp yfirlit um stöðu efnahagsmála í upphafi árs, frá 1. febr. s. l., sem Seðlabanki Íslands gaf út. Í þessu yfirliti segir m. a. svo með leyfi hæstv. forseta:

„Erlendar lántökur hafa á undanförnum árum ekki aðeins verið afleiðing umframeyðslu þjóðarbúsins, heldur hefur óhófleg notkun erlends lánsfjár haft í för með sér eftirspurnar- og peningaþenslu, sem ýtt hefur undir verðbólgu og viðskiptahalla. Mikilvægt er að sem fyrst sé gengið frá lánsfjáráætlun fyrir árið 1983, þar sem stefnt sé að um þriðjungs lækkun á erlendum lántökum frá því sem var á s. l. ári, sem samsvarar að erlendar lántökur verði um 3500 millj. kr. á núgildandi gengi. Síðan verður að takmarka lánsfjármagnaðar opinberar framkvæmdir og útlán fjárfestingarlánasjóða við það svigrúm sem þá er fyrir hendi.“

Þetta er í yfirliti Seðlabankans um stöðu efnahagsmálanna. Ég vil jafnframt minna þá á það. hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sem ég mun beita fsp. til á eftir í tengslum við þessi mál, að í yfirliti ríkisstj. frá því í ágústmánuði er tekið fram sérstaklega að í fyrsta lagi verði að draga verulega úr viðskiptahalla, svo að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd. Nú hefur hæstv. forsrh. látið svo um mælt, að sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu frv. hér í deild sé með öllu ástæðulaus. Frv. hafi hlotið nákvæma athugun og þau atriði sem á bak við það eru. Ég hygg því að honum vefjist ekki tunga um tönn hér á eftir, því að hann er málsnjall maður, við að útskýra með hvaða hætti hann vill ná því markmiði sem hér er sett.

Nú vil ég ennfremur, hæstv. ráðh., reyna að skoða gömul lög til að fá úr því skorið hvort ég sé að ætlast til einhvers af hæstv. ráðherrum sem ósanngjarnt sé. Í 14. gr. Ólafslaga segir svo með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.“

Síðan er í 15 gr. talið upp hvað skuli vera í fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum. Þar er m. a. talað um áætlun um erlendar lántökur opinberra aðila, útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða, framlög til fjárfestingarlánasjóða, útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða og fjármögnun þeirra.

Ekki hef ég haft af því neinar spurnir að þetta liggi fyrir. Ég heyrði að vísu á skotspónum að t. d. Fiskveiðasjóður fái naumast fyrir lánsloforðum og erlendum skuldbindingum á þessu ári. Og við vitum að það er gersamlega útilokað fyrir útgerðarmenn eða fiskverkendur að leita sér upplýsinga um það hjá Fiskveiðasjóði við hvaða afgreiðslu þeir geti búist á því ári sem nú er nýhafið, hvaða fyrirgreiðslu þaðan sé að vænta.

Ennfremur vil ég í þessu sambandi rifja upp að við afgreiðslu fjárlaga gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir brtt., sem hann flutti við 3. umr., þar sem m. a. var farið fram á að Alþingi veitti lántökuheimild til að taka erlent lán allt að 850 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Lánsfénu skyldi varið til fjármögnunar í samræmi við endurskoðaða lánsfjáráætlun fyrir árið 1982, allt að 240 millj. kr., til nauðsynlegra greiðslna á árinu 1983 samkv. ákvæðum fjárlaga o. s. frv. Um þetta og þessa till. í heild sagði hæstv. fjmrh. orðrétt:

„Ég vil sérstaklega taka það fram að engum dettur í hug að þessi lántökuheimild“ — og þar er hann að vísu að tala um fleiri lántökuheimildir en þessa einu, sem ég rakti hér, það er hægt að fara nánar út í það síðar ef þörf gerist. „Ég vil sérstaklega taka það fram“, segir hæstv. fjmrh. við 3. umr. fjárlaga, „að engum dettur í hug að þessi lántökuheimild komi í staðinn fyrir lánsfjáráætlun. Það er mesti misskilningur ef menn ímynda sér að þessi lántaka komi í staðinn fyrir lánsfjáráætlun. Það gerir hún að sjálfsögðu ekki. Á s. l. ári voru í lánsfjáráætlun miklu hærri fjárhæðir en hér er verið að ræða um. Hér er einungis um að ræða heimild til bráðabirgðafyrirgreiðslu, ef sérstök nauðsyn kallar á, áður en lánsfjáráætlun er formlega afgreidd. Og þá ber að gera það í samráði við fjvn. Ég hef ekki trú á því að það reyni mikið á þessa heimild, en þó má vel vera að áður en lánsfjáráætlun verður afgreidd geti komið upp einhver þau mál sem séu þess eðlis, að þörf sé á að þessari heimild sé beitt.“

Nú hefur þessi lánsfjáráætlun ekki séð dagsins ljós, hvað þá að hún sé afgreidd eða það standi til að Alþingi afgreiði hana. Það er skilyrði fyrir því að Alþingi geti samþykkt lánsfjáráætlun að hún sjáist, að hæstv. forseti sjái lánsfjáráætlunina. Þó hann sjái vel, þá sér hann ekki það sem aldrei hefur til verið. Nú vil ég spyrja báða þessa hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., hvort þess sé að vænta að lánsfjáráætlun verði lögð fyrir Alþingi eða sýnd í þessari viku. Ráðherrar eru nú mjög á förum til annarra landa og mér finnst rétt að þeir — (Fjmrh.: Svarið er neitandi.) Það kemur ekki í þessari viku, hæstv. forsrh. Ég veit ekki hvort maður má spyrja hæstv. forsrh. þar sem hann situr í sæti sínu. (Forseti: Nei, það má ekki.) En ég geri ráð fyrir að hann geti svarað eins og hæstv. fjmrh. ef honum sýnist svo. (Forseti: Það er ekki leyfilegt.) Það liggur m. ö. o. fyrir að hæstv. fjmrh. hefur sagt úr sæti sínu að lánsfjáráætlunar sé ekki að vænta í þessari viku. Og ekki má spyrja hæstv. forsrh. Ég veit að úr því að það er bannað, þá muni hann ekki svara úr sæti sínu því að hann er háttvís maður. En þá langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. um annað. Er þá þess að vænta kannske, að lánsfjáráætlun komi í næstu viku? (Fjmrh.: Það má ekki svara.) Það má ekki svara, nei.

Ég man nú ekki hvernig upptalningin var um ráðh. sem fara utan, hvort hæstv. fjmrh. er í þeirra hópi. Hann ætlar kannske að grípa tækifærið og koma með áætlunina meðan hinir eru erlendis. Það liggur sem sagt ekki fyrir hvort þess sé að vænta, að lánsfjáráætlun komi í næstu viku. Það má ekki svara svo að ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. sýni deildinni þá virðingu að koma hér upp í ræðustólinn á eftir og gera grein fyrir þessu máli. Jafnframt vil ég beina því til hæstv. forsrh. að hann svari því hér, hvaða skoðun hann hefur á því hvort þess sé að vænta að lánsfjáráætlun komi í þessari viku eða þeirri næstu. Það væru náttúrlega tíðindi til næsta bæjar ef maður yrði að þola það, að þessi ríkisstj. ekki alleinasta brjóti landsins lög um að leggja slíka áætlun fram samtímis fjárlagafrv. og heyktist á því að leggja slíka áætlun fyrir áður en þingið færi í jólafrí, heldur gæfist svo upp og legði endanlega upp laupana áður en hún kæmi nokkrum slíkum pappírum inn á þingið. Það þættu mikil tíðindi og satt að segja mundi ég síðastur allra manna harma það.

Herra forseti. Þar sem málin standa þannig að hæstv. ráðherrar mega ekki svara fsp. mínum úr sætum sínum, um það hefur fallið forsetaúrskurður, þá vil ég freista þess að ljúka máli mínu í trausti þess að þeir muni svara því, ráðherrarnir, hvenær þess sé að vænta að lánsfjáráætlun verði lögð fyrir Alþingi.