01.11.1982
Neðri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

28. mál, málefni aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði hér áðan, þá er það held ég misskilningur hjá honum að við þm. sem teljumst til Vestfjarða séum að agnúast út í það eða teljum t.d. að Reykjavíkursvæðið fái of mikið. Spurningin er fyrst og fremst um það, hvort það eiga ekki allir að sitja við sama borð varðandi úthlutun fjár og fjármögnun framkvæmda úr þessum sjóði. A.m.k. dreg ég mjög í efa að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra eða ráðh. hafi til þess lagaheimild að segja til um að hjúkrunarframkvæmdir njóti sérstaks forgangs. Það er beinlínis tekið fram í lögunum, hvert hlutverk sjóðsins á að vera, til hvaða framkvæmda á að veita fjármagni. Ég dreg mjög í efa, að það sé á valdi stjórnar þessa sjóðs eða hæstv. ráðh. að taka þar út úr og einangra ákveðin framkvæmdaverkefni, segja að þau skuli njóta forgangs allt að 5 ár í röð, en önnur, sem lögin kveða jafnframt á um að eiga að njóta fyrirgreiðslu úr þessum sjóði, skuli vera útstrikuð í 5 ár. Ég dreg mjög í efa að lagahliðin styðji slíka ákvörðun. Alþingi hefur samþykkt þessa löggjöf með ákveðnum skilyrðum um hvað skuli njóta fyrirgreiðslu varðandi þetta fjármagn og ég tel að sá aðili sem fer með framkvæmdina hljóti að verða að fara eftir þeim lagafyrirmælum, en hafi ekki neitt eindæmi um að segja: Þú skalt fá, þessi framkvæmd skal fá, en önnur ekki. — Það er þetta sem við þm. Vestfirðinga erum um að tala. Vestfirðingar eru eins og aðrir landsmenn skattlagðir vegna þessa tekjustofns og við lítum svo á, að þeir eigi að hafa sama rétt og aðrir landsmenn á að fá fyrirgreiðslu úr þessum sjóði.